Ummæli forsætisráðherra um ráðstefnuna í Kyoto

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 10:39:01 (1162)

1997-11-13 10:39:01# 122. lþ. 25.91 fundur 87#B ummæli forsætisráðherra um ráðstefnuna í Kyoto# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[10:39]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég tek skýrt fram að ekki er við hæstv. forseta þingsins að sakast að málið kemur ekki fyrir utan dagskrár. Það er alveg ljóst að forseti hafði lítið ráðrúm til að ræða þessi mál við forustumenn þingflokka þótt út af fyrir sig sjálfsagt sé og eðlilegt að það sé gert að jafnaði. Þetta bar að í fréttum í gærkvöldi og við lesum það auk þess í Morgunblaðinu í morgun.

Hér er um það að ræða, virðulegur forseti, ekki aðeins að hér sé af hálfu hæstv. forsrh. boðuð hugsanleg kúvending í afstöðu Íslendinga heldur er hér gengið yfir, leyfi ég mér að segja, hæstv. umhvrh. sem hefur tekið fullan þátt og einarðlega í samningaviðræðunum. Hann hefur ritað um það opinberlega og skilaði nýlega skýrslu til þingsins sem ekki verður tekin öðruvísi en svo að Íslendingar ætli sér að vera fullgildir þátttakendur í samningaviðræðunum og taka þátt í þeim ef viðunandi málalmiðlun næst í Kyoto um þessi efni og megingrunnurinn hefur verið ljós nú lengi. En það er jafnljóst að af hálfu einstakra ráðherra í ríkisstjórninni, þar á meðal af hálfu formanns Framsfl., hæstv. utanrrh., og af hálfu hæstv. iðnrh. hefur verið boðuð allt önnur stefna í þessum málum en af hálfu hæstv. umhvrh. Það er greinilegt að meiri hluti í ríkisstjórn stefnir að því leynt og ljóst að ráðstafa orkulindum Íslendinga í stóriðju hið fyrsta, eins skjótt og erlendir fjárfestar kjósa. Þessi öfl ganga gegn grundvallarhagsmunum í sambandi við umhverfismál í heiminum og ég leyfi mér líka að segja að gangi gegn hagsmunum Íslands til lengri tíma litið. Málið er því mjög alvarlegt.