Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:14:08 (1168)

1997-11-13 11:14:08# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:14]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að vegáætlun er afgreidd á Alþingi. En það er líka rétt sem ég sagði að hæstv. þáv. félmrh. gaf ákveðnar yfirlýsingar um að átak yrði gert í samgöngumálum á þessum svæðum og við það var ekki staðið. Ég væri nú vís með að bjóða hv. þm. með okkur Vestlendingum í heimsókn í þessi byggðarlög til að heyra þá gífurlegu óánægju sem þar er með að ekkert varð úr loforðum þáv. hæstv. ráðherra, og það er því miður rétt. Ég held að þessi loforð, alla vega í Snæfellsbæ, hafi orðið til þess að sameiningin var samþykkt. Sameiningin hefur á margan hátt tekist ágætlega og ég er ekki að segja að menn séu endilega óánægðir með hana. En þeir eru gríðarlega óánægðir með að ekki var staðið við þessar yfirlýsingar. Ráðherra sem gefur svona yfirlýsingar verður auðvitað að hafa eitthvað á bak við sig til að hann geti staðið við þær þegar til á að taka.