Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:38:46 (1174)

1997-11-13 11:38:46# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:38]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef enga löngun til að setja umræðuna í deilufarveg. Ég hef lesið þann fyrirvara í skýrslunni sem hv. ræðumaður minntist á. En þrátt fyrir þann fyrirvara eru málin sett fram með þessari landafræði og með þessum hætti. Það er einfalt mál þegar fjölmiðlar fara að leggja út af skýrslunni. Þá munu þeir segja að framlög ríkisvaldsins til landsbyggðarinnar séu 32 milljarðar og þar af séu 13 milljarðar beinir styrkir. Þetta eru afleiðingarnar af þessari framsetningu. Það er þess vegna, vegna fréttaflutningsins og vegna þess hvaða skilaboð skýrslan gefur til almennings á höfuðborgarsvæðinu, sem ég fer með þetta upp í ræðustól en ekki fyrir það að mig langi til að taka upp deilur við einn eða neinn eða upphefja þá ófrjóu umræðu og deilur milli höfuðborgar og landsbyggðar sem ég held að sé til skaða fyrir báða aðila. Það eru skilaboðin sem koma í fjölmiðlum um skýrsluna sem ég hef áhyggjur af. Að hún komi af stað á höfuðborgarsvæðinu umræðunni um ölmusumenn á landsbyggðinni og enginn kærir sig um að vera ölmusumaður, ekki landsbyggðarfólk heldur. Röng skilaboð felast í fréttaflutningi af skýrslunni. En ég hef lesið skýrsluna vandlega og er hún fullkunn. Hins vegar kemst hún ekki út á milli manna nema í grófum línum. Það eru þær grófu línur sem ég hef áhyggjur af.