Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:06:19 (1181)

1997-11-13 12:06:19# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þannig að samsetning atvinnu er ólík eftir því hvort um er að ræða höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Aðalatvinnuvegir landsbyggðarinnar eru landbúnaður, fiskveiðar og fiskvinnsla. Aðalatvinnuvegir höfuðborgarsvæðisins eru verslun, bankastarfsemi og þjónusta.

Í dag er fyrirvinna fjölskyldu ekki bara einn heldur tveir einstaklingar og þeir þurfa báðir vinnu við sitt hæfi og eru margir búnir að mennta sig til ákveðinna starfa. Það þarf að fara saman framboð á vinnu fyrir báða til þess að hjónin velji sér búsetu á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki nóg að karlmaður geti átt kost á starfi á sjó ef konan á bara kost á starfi í frystihúsi og hún er kannski menntuð á öðru sviði, er t.d. hjúkrunarfræðingur. Það er bara ekki nóg. Þau flytja þangað sem störfin eru. Samsetning starfanna er betri hvað þetta varðar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég nefni sem dæmi af því að hér er ítrekað nefnt að meðaltekjur á Vestfjörðum séu hæstar og hæstu tekjur á Vestfjörðum eru af fiskveiðum. Árstekjur af fiskveiðum árið 1994 á Vestfjörðum, í Ísafjarðarsýslu og kaupstöðunum þar, voru 3 millj. og 59 þús. kr. Hverjar voru árstekjurnar það ár á höfuðborgarsvæðinu í sömu atvinnugrein, helstu undirstöðu landsbyggðarinnar? Þær voru ekki 3 millj. og 59 þús. kr., þær voru 3 millj. og 560 þús. kr., hálfri millj. kr. hærri. Síðan voru atvinnutekjur í þjónustustörfunum sem konur starfa í hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.