Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:14:21 (1186)

1997-11-13 12:14:21# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:14]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram, einkum og sér í lagi skýrslu hæstv. forsrh. sem var yfirgripsmikil og mjög í takt við mínar skoðanir í byggðamálum og ýmis nýbreytni sem samræmist svo sannarlega áformum stjórnar Byggðastofnunar. Þetta tel ég vera mjög af hinu góða.

Hv. 15. þm. Reykv. braut hér upp eins árs gamla umræðu, sams konar umræðu og nú fer fram, einkum þó um skýrslu Ríkisendurskoðunar, og taldi að skýra þyrfti betur hvaða breytingar hefðu orðið á á áherslum í Byggðastofnun við þessa skýrslugerð og þær ábendingar sem þar hafa komið fram. Ég vil sérstaklega af þessu tilefni taka fram að ég tel að þessi ábending sé afar þörf og það væri góður kostur, t.d. að ári liðnu þegar umræða um byggðamál fer þá fram, að fyrir lægi úttekt Ríkisendurskoðunar á breyttri starfsemi Byggðastofnunar á allra síðustu árum. Ég tel það vera miklu betri kost að Ríkisendurskoðun endurtaki þessa athugun sína og hv. alþingismönnum verði þá gerð grein fyrir því hvaða árangri þessi úttekt hefur skilað.

[12:15]

Mér finnst líka eðlilegt að minnast aðeins á það í upphafi máls míns að auðvitað hljótum við, ég eins og aðrir, að hafa áhyggjur af því hvernig straumurinn liggur í byggðamálum og hér hefur reyndar farið fram umræða um þau mál og ýmsar ályktanir dregnar fram í þeim efnum en eins og komið hefur fram fór Byggðastofnun þá leið að fá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera sérstaka viðhorfskönnun á þeim ástæðum sem hér liggja að baki. Mér er vel kunnugt um að þar hefur verið unnið afar mikið starf. Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að meiri dráttur hefur orðið á því að ljúka þessu verki en efni hafa kannski staðið til, þ.e. miðað við upphaflegan ásetning í þessu máli. Þetta starf hefur hins vegar leitt til þess að það hafa vaknað fleiri spurningar sem ég á von á að verði einmitt svarað í þessari skýrslu en hún mun birtast innan fárra daga, að því er ég best veit, og verða hið gagnlegasta plagg til þess að leggja mat á hverjar þær ástæður eru sem valda fólksstraum af landsbyggðinni.

Það hlýtur að vera eðlilegt um þessar mundir að meta líka aðgerðir til stuðnings landsbyggðinni. Það hefur ekki enn verið minnst á það í þessari umræðu að á þéttbýlli svæðum landsins eiga sér stað gríðarlega miklar fjárfestingar. Ég held að einhvers staðar hafi verið frá því sagt að þær nemi 35 milljörðum kr. á tveimur árum. Hæstv. iðnrh. gat þess fyrr á þessu ári eða sl. ári að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til að mæta þessum fjárfestingum með því að leggja til verkefna á landsbyggðinni 80 millj. kr. Ég hef satt að segja ekki orðið var við aðrar aðgerðir til að mæta þeim miklu fjárfestingum suðvestanlands, ekki einu sinni í vegagerðarmálum sem ýmsir hafa nú mikinn áhuga á. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til skoðunar og athugunar þegar ný stefna verður mótuð í byggðamálum í upphafi næsta árs með nýrri þingsályktun þar um.

En menn mega líka vara sig á því að viðhafa ekki of mikla neikvæðni því að við Íslendingar og ekki síst landsbyggðin býr nú við þær efnahagsaðstæður sem ekki hafa áður verið. Við sjáum þess víða mikil merki að menn eru að ná árangri með nýjum störfum og viðfangsefnum. Einkum og sér í lagi á það við í nábýli Reykjavíkur, í þeim byggðarlögum sem njóta mikils góðs af veru sinni við hliðina á þéttbýlinu við Faxaflóa.

Byggðastofnun ákvað í upphafi ferils þeirrar stjórnar sem þar er nú að styrkja atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni. Það er vert að undirstrika það alveg sérstaklega að forustan um þessi verkefni varð hvorki til hjá stjórn né starfsmönnum Byggðastofnunar heldur í atvinnuþróunarstarfi úti á landi. Það var hins vegar afar geðþekkt fyrir nýja stjórn að mæta þeim áhuga sem þar var á ferðinni. Hefur nú verið stofnað til slíkra samninga hringinn í kringum landið og þeir sem hafa starfað lengst á þessum vettvangi hafa sýnilega náð bestum árangri.

Í Morgunblaðinu í morgun gefur m.a. að líta grein eftir forustumann þeirra Sunnlendinga í þessum efnum, Óla Rúnar Ástþórsson, og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa kafla úr þessari grein:

,,Frá því að samningurinn við Byggðastofnun var undirritaður og til liðinna mánaðamóta hefur sjóðurinn staðið með beinum eða óbeinum hætti að stofnun á þriðja tug fyrirtækja sem hafa skapað eða munu skapa á annað hundrað störf á svæðinu. Fjárfestingar vegna þessara nýju fyrirtækja innan svæðis eru taldar vera liðlega 500 millj. kr.

Hefði Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands ekki haft jafnsterkt eigið fjárhagslegt forræði og möguleika til að fjárfesta og koma að áhugaverðum verkefnum, tel ég að möguleikar okkar til að koma á fót nýrri starfsemi með beinum eða óbeinum hætti væru mun minni en ella.``

Ég tel að það sé góður kostur að þetta liggi fyrir og vissulega áhugavert að treysta einmitt þessi viðfangsefni frá því sem verið hefur. Og það kemur m.a. fram í þessari grein að Suðurland á lengra starf að baki í þessum efnum en aðrir landshlutar og hlýtur að vera eðlilegt að líta til þess sérstaklega. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að um þessar mundir fara fram enn frekari breytingar í Byggðastofnun til stuðnings þessum verkefnum og ég endurtek sérstaklega: Til stuðnings þessum verkefnum. Þar á ég við flutning á hluta af stofnuninni til Sauðárkróks sem ég er sannfærður um að er mikið heillaspor og verður unnið að því af fullum krafti svo allar áætlanir í þeim efnum gangi fram. Það er misskilningur að einhverjir krókar eða hlykkir séu í reglugerðum sem hindra framgang þeirra mála.

Með sama hætti, þótt á öðrum vettvangi sé, eru Ísfirðingar eða Vestfirðingar réttara sagt að endurskipuleggja sína starfsemi og sem einn af sjö stjórnendum Byggðastofnunar --- auðvitað verða ákvarðanir þar teknar með sameiginlegri niðurstöðu --- teldi ég afar mikilvægt að starfsemi í heild sinni eins og hún er núna á Ísafirði mundi færast undir forræði og starfsemi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Ég held að það sé algerlega ljóst mál að ef fólkið í byggðarlögunum sjálfum, sem hefur þrek og vilja til að takast á við nýsköpun og atvinnuþróun, klárar ekki þau mál, þá gera það ekki aðrir, ekki stofnanir eða skrifstofur hvar sem þær eru staðsettar á landinu. Reynslan liggur hins vegar fyrir um það hvernig til tekst þegar heimamenn gera þetta sjálfir, eins og á Suðurlandi og Austurlandi þar sem þessi starfsemi hefur getað staðið í tvö ár. Þess vegna eigum við umfram allt að efla byggðaforræðið í þessum efnum. Og mér fannst það afar jákvætt við skýrslu hæstv. forsrh. áðan hvað hann lagði einmitt áherslu á þessi efni.

Hér hefur verið minnst á peningamálin og það er auðvitað ekki að ófyrirsynju. Ég er sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að með núverandi fyrirkomulagi orkar það mjög tvímælis að lánastarfsemi verði í Byggðastofnun. Það hlýtur að vera eðlilegur kostur a.m.k. að farið sé yfir þau mál á breyttum tímum og það mun stjórn Byggðastofnunar gera síðar í vetur þegar hún er búin að ljúka öðrum verkefnum. En ég minni hins vegar á að til eru þeir sem ekki hafa neina þjónustu til að hverfa að eða stuðning nema í Byggðastofnun. Gleggsta dæmið um það efni eru lánin eða lánaflokkurinn sem tekinn var upp vegna smábátaútgerðar á landinu sem ekki einungis varð til þess að flytja óhagkvæm lán inn í Byggðastofnun heldur hlaust líka af því að aðrir aðilar, sparisjóður og bankar, lækkuðu vextina niður í það sem Byggðastofnun bauð. Það er þess vegna mikið mál að finna rétta vægið þarna á milli. Samhliða því sem hugsanlega yrði horfið að að hætta almennri lánastarfsemi hjá Byggðastofnun þá verða menn að finna ráð til þess að hjálpa þeim sem eru minni máttar á þeim markaði.

Tími minn er liðinn og þar með lýk ég að sjálfsögðu máli mínu, en vera má að ég komi hér frekar að öðrum málum síðar í þessari umræðu.