Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:29:56 (1187)

1997-11-13 12:29:56# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:29]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með formanni stjórnar Byggðastofnunar. Ég tel að þær aðgerðir sem hafa verið gerðar til að styrkja atvinnuþróunarfélögin úti á landi hafi verið mjög til góðs og hafi eflt starfsemi úti á landi og það hafi orðið til góðs.

Fyrir nokkru kom út skýrsla nefndar um flutning ríkisstofnana sem inniheldur nefndarálit og tillögur um flutning ríkisstofnana. Ég vil í upphafi vitna, með leyfi forseta, til þessarar skýrslu og vísa til bls. 12, 10. liðar, um ákvarðanatöku. Þar segir:

[12:30]

,,Tilgangur með flutningi stofnana frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar er ekki endilega sá að gera þær hæfari til að gegna hlutverki sínu og verkefnum. Hins vegar getur flutningur oft og tíðum kallað á ákveðna sjálfsskoðun, uppstokkun og endurskipulagningu hjá viðkomandi stofnunum og þannig eflt hana til frambúðar.

Aðrar ástæður eru fyrir því að flytja stofnanir og varða þær byggðaþróun í landinu með þjóðarhag fyrir augum.``

Ég er kannski ekki alveg sammála þessu orðalagi um að ekki sé þá endilega verið að gera þær hæfari því að auðvitað verður það til þess að gera þær hæfari þegar farið er að hreyfa við málunum. Og það sem verður að ganga út frá er að það séu ekki forsendur fyrir flutningi nema gildi og hæfi stofnunar séu í engu skert. Það er grundvallaratriði. Það sem nefndin sem ég fjallaði um, sem gerði þessa skýrslu og tillögur, valdi sem sínar tillögur var í fyrsta lagi að flytja út á land eftirfarandi stofnanir:

Í fyrsta lagi Byggðastofnun. Hvað er að gerast? Það er komin tillaga um að flytja þróunardeildina þó að ekki sé nú annað, en það er gott spor í áttina. Það var tillaga um að flytja Landhelgisgæsluna, það var tillaga að flytja Landmælingar. Það er þó komið en fátt annað. Það var tillaga um að flytja Rafmagnsveitur ríkisins. Það var tillaga um að flytja Skipulag ríkisins. Það var tillaga um að flytja Skráningarstofu ríkisins. Það var tillaga um að flytja Vegagerð ríkisins. Það var tillaga um að flytja Veiðimálastofnun. Það tókst við illan leik að koma veiðistjóra á Akureyri og menn muna hvað það kostaði. Það kostaði stórstríð hér í þinginu.

Þetta eru dæmin sem hægt er að rekja um hvernig til hefur tekist þegar menn hafa ætlað að fara í einhverjar aðgerðir til að efla atvinnustarfsemi á sviði stjórnsýslu á landsbyggðinni.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að vitna í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaáætlun fyrir árin 1994--1997 sem er stefnumótandi áætlun. Það sem þar kemur fram er að í ályktun Alþingis var samþykkt að beina kröftum að valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga. Að því vil ég standa því forsenda fyrir slíkri dreifingu valds er sameining sveitarfélaga og aukið samstarf svo að þau séu í stakk búin til að valda þeim verkefnum sem um semst milli ríkis og sveitarfélaga. Með leyfi forseta, vil ég vitna í áðurnefnda skýrslu, bls. 9 og 10. Þar segir í tillögu að ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 1994--1997:

,,Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.`` Það verður nú að segjast alveg eins og er að lítið hefur verið gert í þessum málum annað en það litla sem ég taldi upp áðan.

Í öðru lagi: ,,Nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Atvinnulífinu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtæki geti skilað arði. Aukin áhersla verði lögð á atvinnuþróunarstarf á vegum Byggðastofnunar og heimamanna sem beinist að nýsköpun og aukinni fjölbreytni í atvinnulífi. Aðgerðir í þessu skyni verði m.a. eftirfarandi`` og það hefur nákvæmlega ekkert gerst í þessum málum annað en það sem ég tók undir með hv. síðasta ræðumanni, Agli Jónssyni.

Herra forseti. Það er búið að taka ákvörðun um vinnuferlið. Það er gert með samþykkt þeirrar ályktunar sem ég var að vitna til áðan og það ber að fylgja henni eftir nema gerðar verði nýjar samþykktir eða sett ný lög. Ég krefst þess að það verði gert. En auðvitað eru fjölmörg atriði sem hægt er að ræða og ber að ræða þegar byggðamál eru á dagskrá. Það er nánast allt, svo sem flutningur kvóta milli byggðarlaga, hvort sem um er að ræða sjávarútvegskvóta eða landbúnaðarkvóta. Það er ástæða til að ræða t.d. hver áhrif af ákvörðunum stórrisanna í flutningum á sjó og landi eru á afkomu byggða úti á landi og á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Hafa menn velt því fyrir sér?

Hvaða breytingar hefði þurft að gera á vegakerfinu í kjölfar ákvarðana flutningatröllanna, eins og ég vil kalla þá, að flytja nánast allan útflutning frá Reykjavík og Hafnarfirði, og svo innflutning um sömu hafnir? Hvað hefði þurft að fylgja með? Hafa menn velt því fyrir sér að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í þessum efnum koma ekki frá Alþingi? Hafa menn velt því fyrir sér að Alþingi Íslendinga hefur orðið að dansa með í trölladansinum um flutningaleiðirnar og orðið að bæta samgöngukerfið eftir vilja flutningatröllanna? Hafa menn velt þessu fyrir sér? Hafa menn velt því fyrir sér að flutningar með sendibílum og minni flutningabílum hafa verið keyptir upp, bókstaflega keyptir upp, og þar með settir út úr þeirri atvinnustarfsemi sem þeir voru í um langan tíma? Og hvað hefur gerst í kjölfarið? Það sem hefur gerst er að tekjur hafna úti á landi hafa fallið niður í nánast ekki neitt, snarminnkað vegna þessarar þróunar. Það getur vel verið að flutningskostnaður hafi lækkað. En tekjuskerðingin sem t.d. hafnirnar hafa orðið fyrir hefur ekki verið bætt á neinn hátt.

Í þessum flutningamálum ríkir einokun í dag. Er það hollt? Er það gott? Ég er ekki að ráðast að neinum sérstökum aðilum. Ég er frekar að reyna að draga þá mynd upp sem blasir við mér. Ég tel ekki heldur að menn hafi séð þessa þróun fyrir. Hún hefur bara komið og orðið eins og svo margt annað.

Það hefði örugglega fáum dottið í hug að kvótasöfnun á örfáa aðila mundi eiga sér stað í þeim mæli sem raun ber vitni í sjávarútvegi og af þeim völdum blasir við að fjármagnið í verðbréfafyrirtækjum á Íslandi byggist að stórum hluta á óveiddum fiski í sjónum. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir svona sjö árum síðan að fjármagnið í verðbréfafyrirtækjunum byggðist á óveiddum fiski í sjónum?

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að ræða sérstaklega þessa nýútkomnu skýrslu Aflvaka. En ég get ekki varist þeirri hugsun að einhverjir sem þar stjórna séu tilbúnir að fara í stríð við okkur krummaskuðskarlana, eins og við landsbyggðarmenn erum stundum nefndir, sérstaklega þeir þingmenn sem reyna að benda á að það glatast ávallt tækifæri þegar um er að ræða samdrátt í byggðarlögum og þá mest utan þéttbýlisins. Það gerist einnig um leið og þessi samdráttur verður að eignir einstaklinganna rýrna. (EgJ: Þetta er R-listinn.) Verðgildi þessara eigna er oft og tíðum ekki nema 30--40% af því sem þær mundu kosta á Stór-Bessastaðasvæðinu. Menn þurfa að gera sér grein fyrir þessum afleiðingum. Þetta er afleiðing, hv. þm. Egill Jónsson, af stjórnarstefnu ríkisstjórnarinnar og ekkert annað. (EgJ: Þetta er allt annað kyn.) Samdráttur í smærri byggðum leiðir af sér rýrnun menningarverðmæta og ýmissa hefða. Samdráttur á landsbyggð leiðir af sér minnkandi þjónustu við þá sem þar búa og það er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi hönd í bagga varðandi þá þróun sem æskileg er varðandi búsetu á Íslandi.

Það getur verið að það finnist óhagkvæmar byggðir og óhagkvæmir bæir í sveitum sem búið er á. En allar byggðabreytingar í stórum stökkum sem geta leitt af þeim aðgerðum sem kvótaflutningur og breytt flutningatækni og samgöngur hafa í för með sér eru mjög varasamar.

Hver er ástæðan fyrir þeirri miklu byggðaröskun sem nú er á landinu? Það eru margir að reyna að skýra hana. Það gengur treglega hjá háskólanum en hér var upplýst rétt áðan að sú skýrsla sem er væntanleg um þessi mál mun vera á ferðinni eftir nokkra daga og það verður mjög fróðlegt að sjá þá niðurstöðu. En ég vil bara segja að þær kröfur sem fólk gerir varðandi val á búsetu eru að mínu mati eftirfarandi:

Gott aðgengi að læknisþjónustu og heilbrigðiskerfi, möguleiki á haldgóðri menntun, að boðið sé upp á hæfilegan skammt af menningu og þokkaleg afkoma, þá á ég við vegna atvinnu. Þetta eru mikilvægustu atriðin að flestra mati. Sú fallega mynd sem stundum er dregin upp í sjónvarpi af höfuðborgarsvæðinu hefur einhver áhrif en að mínu mati ekki teljandi.

Mig langar að gera að sérstöku umtalsefni eitt atriði sem varðar varnarbaráttu landsbyggðar. Hún birtist í mörgum myndum en kristallast e.t.v. í þeirri baráttu sem hefur staðið um nokkurt skeið varðandi heilbrigðisþjónustuna. Það eru að birtast hugmyndir um samdrátt í rekstri sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og þeim er gert að skera niður án þess að draga úr þjónustu. Það liggur næst manni að tala um að heilbrigðiskerfið sé í henglum því það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að skera niður og halda uppi óbreyttri þjónustu. Vonandi er ástandið samt ekki eins slæmt og ég sé það í hendi mér. En á undanförnum árum og síðustu dögum og vikum hefur athygli þjóðarinnar verið bókstaflega dregin að því ástandi sem ríkir í heilbrigðismálum. Sumir beina skeytum sínum til hæstv. heilbrrh. og vissulega ber hæstv. ráðherra ábyrgð. En ábyrgðin er fyrst og fremst hæstv. ríkisstjórnar í heild hvað sem tautar og raular. Og ég segi: Úr þessu verður að bæta. Á flestum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni er ástandið þannig að þar er uppsafnaður halli frá 4 upp í 80 millj., í heild á annað hundrað milljónir. Ef þessar stofnanir eiga að vinna samkvæmt fjárlagatillögum, hvað blasir þá við? Uppsagnir starfsfólks, lokanir deilda og samdráttur í þjónustu. Á sama tíma ætlast menn til að skorið sé niður um 80 millj. á landsbyggðarsjúkrahúsunum. Svo ég nefni Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þá á það við mjög mikinn og alvarlegan vanda að etja sem verður að mæta.

Það má auðvitað geta þess að á Ríkisspítölunum er ástand þannig að viðhaldsþörfin er orðin slík að menn eru farnir að tala um 5--10 fötu hús til að lýsa ástandinu. Hver sem vill getur séð að byggingar þar eru orðnar þannig að mörgu er ábótavant. Það vantar um það bil 600--800 millj. á Ríkisspítalana til að mæta rekstrarfjárþörfinni einni saman. Á Ríkisspítölunum er rekin heil deild á göngum. Fjórði hver sjúklingur sem lagður er inn liggur á göngum. Þetta gengur ekki.

Það er nákvæmlega sama ástandið á Borgarspítalanum. Hann er að grotna niður af viðhaldsleysi. Þar vantar 471 millj. til þess að halda rekstrinum gangandi. Á þessum sama tíma er gert ráð fyrir sparnaði.

Mín skoðun er sú, sett fram út frá þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum og frá ástandinu eins og ég hef kynnt mér það, að Alþingi verður að taka í taumana og skipa hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að gera áætlun til þriggja ára þar sem gert er ráð fyrir 1--1,2 milljörðum á ári til viðbótar við reiknitölu fjárlaga til þess að koma viðhaldi sjúkrastofnana í viðunandi horf á landinu. Menn geta haldið áfram að hagræða þá á meðan slíkt er gert.

Það er ástæða til að nefna smádæmi um ástandið eins og það er. Það vita allir sem fylgjast með fréttum, a.m.k. þeir sem hafa þurft að leita til sérfræðinga að undanförnu, að kerfið er í henglum. Sjúklingar sem þurfa að leita sérfræðiþjónustu verða að borga allt saman sjálfir. Þeir fá ekki krónu til baka. Hugsanlega fá þeir eitthvað ef skatturinn viðurkennir kostnað þeirra. Það er algengt að einstaklingar sem fara til sérfræðinga leggi út 15--20 þús. kr. fyrir þá þjónustu sem þeir fá frá þeim í dag. Þetta verður að stoppa. Þetta verður að laga. E.t.v. finnst mönnum að þetta sé rógburður um ástandið en það er svona og það er hægt að rökstyðja það með miklu sterkari dæmum ef menn vilja. Jafnvel hefur heyrst að á sumum stofnunum fyrir gamalmenni sé gengið ótrúlega langt í sparnaðarskyni. Það er ástæða til þess að breyta þessu áður en alvarlegri flótti heilbrigðisstétta skellur á heldur en nú er orðinn. (Forseti hringir.)

Ég skora, herra forseti, á hæstv. ríkisstjórn að grípa nú þegar til aðgerða varðandi þessi mál. Mörg önnur mál geta beðið, flest áherslumál fölna þegar mikilvægi þeirra eru borin saman við mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar.