Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 13:02:38 (1190)

1997-11-13 13:02:38# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[13:02]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Í þessari umræðu um byggðamál er mönnum gjarnt að ræða um hið svonefnda þriðja stjórnsýslustig og það kemur upp aftur og aftur í þessari umræðu. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að það sé kostur í þeirri stöðu sem við erum að setja upp, þriðja stjórnsýslustigið. Hins vegar er ég sammála þeirri almennu skoðun sem uppi er um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ég tel að ef vel tekst til í þeim efnum, ekki bara með sameiningu sveitarfélaganna, heldur með því að efla sveitarfélögin, þá megum við eða getum byggt betur upp þá stjórnsýslu sem sannarlega þarf að vera sem næst fólkinu.

Ég er hins vegar líka sammála því að það er auðvitað hægt að færa ýmis verkefni sem eru t.d. unnin hér á höfuðborgarsvæðinu í stjórnsýslu ríkisins út til einstakra staða. Ég get nefnt sem dæmi að menn hafa rætt um sýslumannsembættin í landinu. Ég held að það sé kostur og að menn eigi að skoða hvort ekki sé hægt að efla starfsemi sýslumannsembættanna úti um landið með því að þau taki til sín verkefni frá stjórnsýslunni hér í Reykjavík. Ég vil bara nefna þetta sem dæmi út af því sem hv. þm. kom inn á.