Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 13:04:05 (1191)

1997-11-13 13:04:05# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[13:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að efla sveitarfélög og möguleika þeirra til athafna. Sameining þeirra er víða mjög eðlilegt skref en það leysir ekki þennan vanda. Það kemur ekki upp þeim krafti sem þarf að verða í landshlutunum þar sem umfram allt verður að vera til staðar fólk til að geta tekið á verkefnum --- ég segi til jafns hvað snertir hugvit og bakgrunn og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir kannski allra mestu máli.

Og síðan það að grunnþættir í þjónustu samfélagsins byggja á jöfnuði. Þingmaðurinn nefndi orkumálin, verðjöfnun á rafmagni til húshitunar svo við tölum beint út. Það er hægt að stíga það skref og það kostar ekki nein ósköp. Hvað gerir Framsfl. í þeim efnum? Ég mundi taka undir með hv. þm. og hæstv. iðnrh. um leið og hann kæmi fram með tillögu um að ná þarna jöfnuði, tryggja jöfnuð út frá gefnum meðaltalsforsendum. Þetta kostar engin ósköp.

Varðandi vegamálin þá er það auðvitað öfugsnúið að enda þar sem byggðin stendur veikust á að koma upp nútímalegu samgöngukerfi. Menn áttu auðvitað að byrja á hinum endanum. Það hefði verið jákvætt í byggðapólitísku samhengi. En það er ekki það sem uppi er núna, ekki einu sinni að klára það verkefni að koma upp sómasamlegu vegasambandi á helstu vegum í landinu. Meira að segja á hringveginum ökum við enn þá á möl og hossumst í holum.

Framsfl., virðulegur forseti, verður að taka sig á og það verulega ef hann ætlar að vera trúverðugur í þessari umræðu.