Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:01:38 (1196)

1997-11-13 14:01:38# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:01]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi áðan að það er ekkert óeðlilegt við það að lánað sé meira til eins landshluta. Og eins og hv. þm. benti á getur verið sérstök uppbygging í atvinnulífinu sem krefst mikilla lána, eins og sjávarútvegur í sambandi við afurðalán. Það sem ég var fyrst og fremst að draga fram, sem kemur fram í þessari skýrslu og er hægt að segja að sé áhyggjuefni, er að innlán hafa ekki hækkað til jafnvægis við þetta. Þetta háa hlutfall milli útlána og innlána sker sig nokkuð úr, t.d. til Vestfjarða. Þetta sker sig dálítið úr, þó sérstaklega í Landsbanka. Allt á þetta sér sínar skýringar en ályktunin sem ég vil draga af þessu er að þrátt fyrir umfangsmikil lán til tiltekinna landshluta í gegnum ríkisbanka eða aðra opinbera sjóði, svo við skiljum ekki þar á milli, hefur ekki tekist að stöðva þann búferlaflutning sem við erum að ræða um. Og ég kem enn og aftur að því sem ég hef verið að nefna hér í umræðunni að þeir búferlaflutningar sem við erum að horfast í augu við stafa af meiru en bara fjármunum og lánveitingum til þessara svæða. Það eru fleiri ástæður sem koma þarna til. Mér finnst einmitt þessi umræða um bankakerfið, sem er líka nauðsynlegur þáttur í þessari umræðu, styðja það að þetta er flóknari atburðarás og þess vegna vandmeðfarnari en menn almennt láta í veðri vaka.