Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:03:26 (1197)

1997-11-13 14:03:26# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:03]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist nú að við hv. þm. séum að verða sammála um þetta mál vegna þess að það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það að bankakerfið láni mikið til þeirra landshluta þar sem atvinnulífið er eins og ég lýsti áðan og þarf í sjálfu sér ekki að hafa um það fleiri orð. Hitt er alveg rétt hjá hv. þm., og það var eitt af því sem ég lagði áherslu á í ræðu minni, að gott atvinnuástand eitt og sér nægir ekki til þess að tryggja stöðugleika og festu í íbúaþróun. Það sjáum við t.d. á miðfjörðum Austfjarða sem eru kannski besta dæmið um það þar sem atvinnulífið er mjög sterkt og öflugt og gott en íbúaþróun hefur verið neikvæð. Þetta er auðvitað líka hægt að rekja með ýmsum öðrum dæmum og er eitt af því sem við höfum verið að hyggja sérstaklega að í stjórn Byggðastofnunar --- hvað það sé sem í raun og veru veldur þessari búseturöskun. Niðurstaðan, eins og ég greindi frá í máli mínu áðan, virðist vera sú að þrátt fyrir að auðvitað séu allir sammála um að frumforsendan sé að grundvallaratvinnuvegirnir séu í lagi þá er mjög margt annað sem kemur til. Kannski er ýmislegt annað sem kemur til núna sem átti ekki við fyrir fimm eða tíu árum vegna þess einfaldlega að þjóðfélag okkar er að breytast svo hratt. Það er gagnvart þessum viðfangsefnum sem við stöndum kannski að sumu leyti berskjölduð og við erum að reyna að ná að festa fang á þessu verkefni sem er að mörgu leyti nýstárlegt vegna þess að við erum að takast á við hluti sem við höfum kannski ekki alveg gert okkur nákvæmlega grein fyrir en ættu þó að blasa við, bæði varðandi skólamál og heilbrigðismál og kannski ekki síst það sem ég hef verið að leggja áherslu á, en það er sú menningarlega afþreying sem ég held að nútíminn krefjist í vaxandi mæli og við getum auðvitað reynt að efla með því að styðja við bakið á úti á landi. Ég tel að landsbyggðin eigi auðvitað mikla heimtingu og rétt á því vegna þess að ríkið gerir það með ýmsum hætti annars staðar á landinu.