Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:21:23 (1199)

1997-11-13 14:21:23# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EOK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:21]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa hlutlægu og að mörgu leyti mjög ágætu umræðu sem hér hefur verið í dag. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir framsögu hans. Þar kom hann inn á mjög marga hluti sem vert er að ræða og ástæða er til að taka undir margt af því sem hann sagði.

Byggðastofnun hefur frá upphafi verið bitbein manna og deilumál og virðist ekki vera lát á því.

Ég ætla að nefna nokkur atriði sem mér finnst ástæða til um þá stofnun. Ég er tilbúinn að taka undir að nú sé réttmætt að Byggðastofnun þróist frá hinni almennu lánastarfsemi sem hún hefur tekið þátt í. Ég held að það hafi veikt stofnunina í upphafi að hún tók þá stefnu að hengja sig aftan í suma fjárfestingarlánasjóðina. Hún varð svona viðbótarfjárfestingarlánasjóður og það gerði hana ekki eins beitta og hún hefði ella getað orðið. Ég tek því undir að það á að þróa hana í þá veru sem verið er að gera í dag. Það er miklu nær að Byggðastofnun standi fyrir áhættulánum og styrkveitingum heldur en almennum lánum. Ég vil taka dæmi um vel heppnaða aðgerð sem voru áhættulán. Það var lánaflokkur sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á árunum 1995 og 1996 og var kölluð Vestfjarðaaðstoð og var um 270 millj. kr. Ég ætla að núna megi segja með nokkurri vissu að yfir 95--100% af þeim lánum séu ákaflega vel tryggð í dag þó þau hafi verið lánuð án þess að gera mikla kröfu til veða. Þetta eru menn að gera um allan heim. Þetta eru menn að gera í Evrópu. Menn eru að styrkja jaðarbyggðir og styrkja veik svæði einmitt með áhættulánum og styrkjum vegna þess að byggðastefna getur verið mjög arðsöm fyrir eitt samfélag.

Það vita allir sem hafa skoðað byggðaþróun í heiminum að hún er dýr. Það er mjög kostnaðarsamt þegar mikil röskun verður á byggð einnar þjóðar. Það kostar óhemju mikið og getur verið og er í mörgum tilfellum verjandi að koma í veg fyrir það. Það getur sparað stórkostlega fjármuni. Þess vegna held ég að menn eigi að vera reiðubúnir að tala um byggðastefnu, styrki til byggðamála, sem eðlilegan hlut, sem eðlilegan kostnað sem menn leggja í hverju sinni. Það veldur náttúrlega hver á heldur og það er ekki sama hvernig að því er staðið. Það ber að vanda það. Það ber að fara mjög vel yfir það og á hverjum tíma komum við alltaf að atriðum sem orka tvímælis, mikil ósköp. En sérhæfðar aðgerðir geta og eru mjög eðlileg viðbrögð stjórnvalda til að koma í veg fyrir þá röskun sem við sjáum fram á.

Ég held að það sjónarmið sem við verðum að hafa gagnvart byggðum og eigum að hafa sé fyrst og fremst að tryggja með löggjöfinni eins og hægt er að byggðirnar, sveitirnar og héruðin fái að njóta landgæða sinna eins og kostur er. Það er hið stóra almenna viðhorf til byggðanna. Og þó ég segi að sérhæfðar aðgerðir geti og muni alltaf eiga rétt á sér þá er hitt satt að það eru einmitt hinar almennu efnahagsaðgerðir sem fyrst og síðast ráða úrslitum um hvernig til tekst. Ég held að við eigum þess vegna alveg eins að skoða hinar almennu aðgerðir og að það sé ekki minna um vert að átta sig á því hvort okkur hefur orðið eitthvað á varðandi almenna stjórnun. Ég er ekki í vafa um að þar sem hallar mest á byggðirnar í dag, þar sem mest er upplausnin, þar sem menn standa hvað verst að vígi, þá er það einmitt vegna þess að menn eru órólegir yfir stöðu sinni. Það fer ekki milli mála í mínum huga að þau 14 ár sem við höfum stjórnað fiskveiðum á þann veg sem við gerum höfum við verið að veikja byggðirnar, mjög margar þeirra. Ég ætla ekki að eyða þessum tíma í að ræða um stjórn fiskveiða. Sú umræða einkennist mjög oft af því sem er heldur líkara trúboði en almennum rökræðum. En það er ljóst að margar útnesjabyggðir, sérstaklega á vestanverðu landinu og Vestfjörðum, áttu aldrei nokkurn tímann tilveru sína undir öðru en útræði. Þær hefðu aldrei byggst ef ekki hefði verið hið gjöfula útræði. Þegar við breytum svo stjórnarháttunum þannig að menn fá ekki notið þeirrar sérstöðu sinnar þá er náttúrlega ákaflega hætt við að það halli verulega undan fæti.

Ég er líka sannfærður um að ýmsar aðgerðir okkar í landbúnaðarmálum hafa á sínum tíma verið heldur óheppilegar. Við gerðum ábyggilega mjög rangt í því á sínum tíma þegar okkur tókst ekki að ná samkomulagi um hvernig skyldi fækka í sauðfjárræktinni og fórum í flatan niðurskurð. Það kom sér illa fyrir allar byggðirnar. Það hafði í för með sér að nú er mikið af fátæku fólki að fást við sauðfjárrækt.

En af hinum almennu skilyrðum held ég að eitt skipti miklu meira máli en allt annað til samans og það eru samgöngur. Sú byggðastefna sem byggir á samgöngum og vill byggja upp samgöngur er síst af öllu andsnúin þéttbýlinu eða Reykjavíkursvæðinu. Hún er einmitt Reykjavíkursvæðinu jafnframt til mjög mikils gagns og uppbyggingar. Reykjavík er og verður samgöngumiðstöð Íslands. Það er í Reykjavík sem þúsundir manna hafa gott viðurværi sitt af samgöngum. Það er í Reykjavík sem öll stóru fyrirtækin sem eru í samgöngum blómgast vel. Ég er viss um að Ísland stenst samkeppni við allar nágrannaþjóðir okkar í Norður-Evrópu á öllum þeim sviðum sem menningarsamfélög vilja bera sig saman um nema einu og það er í vegaframkvæmdum. Við erum langt á eftir öllum öðrum þjóðum Norður-Evrópu varðandi vegaframkvæmdir. Ég tel að það liggi fyrir að við getum gert stórátak í vegamálum, eigum ráðið til þess, höfum peningana til þess og eigum að gera það. Það mun skila okkur gríðarlegum arði. Það mun hjálpa samfélaginu verulega til bættra lífskjara.

Ríkið á fyrirtæki sem það getur og á að selja ekki á morgun heldur í dag, fyrirtæki eins og Póst og síma sem var mjög gagnlegt fyrirtæki á sínum tíma í ríkiseign og eðlilegt að það væri það fyrstu áratugi aldarinnar. Núna hagar tæknin svo til að það er alveg fráleitt að ríkið eigi slíkt fyrirtæki. Það verður að koma samkeppni inn í þessa grein núna strax. Það á að selja það í dag. Það sama er um bankana. Það var mjög nauðsynlegt á sínum tíma að ríkið ætti þessa banka, stýrði þeim og kæmi þeim á fót. En í dag eru þeir tímaskekkja. Þeir eru bara fyrir. Þeir standa gegn því að við náum upp þeirri samkeppni sem við þurfum í bankaviðskiptum. Það mundi lækka kostnað fyrirtækjanna, heimila og einstaklinga ef við næðum meiri samkeppni í bankastarfsemi. Við getum gert það með því að selja ríkisbankana núna. Þetta eru þeir fjármunir sem við getum nýtt til að byggja upp samgöngukerfi Íslands. Við getum boðið Íslendingum öllum upp á að gerast áskrifendur að þessum fyrirtækjum til nokkurra ára. Þannig getum við aukið enn þann sparnað sem svo brýnt er að við aukum. Þannig getum við byggt upp samgöngur. Með engu öðru móti en bestu vegasamgöngum getum við treyst þær byggðir sem svo sannarlega þarf að treysta vegna þess að fólkið sem býr í jaðarbyggðunum er einmitt fólkið sem getur, vill og kann að lifa í þessu landi. Ég held að með engu móti treystum við í framtíðinni tilveru svo lítils menningarsamfélags og Íslands nema með því að treysta og tryggja að það geti haldið áfram búsetu sinni.

[14:30]

Ég tel ástæðu til þess að segja það hér og nú, herra forseti, að ég ber mikið traust til stjórnar Byggðastofnunar. Egill Jónsson er þar í forustu og félagar hans sex. Ég hef ástæðu til að ætla og líta þannig á að þeir séu mjög öruggir með það sem þeir eru að gera, þeir vinni markvisst að því að koma Byggðastofnun út á landsbyggðina þar sem vinnan fer fram í höndum þeirra manna sem gerst þekkja til allra aðstæðna og vita þess vegna helst hvar skórinn kreppir og hvar má koma að liði. Ég þykist vita að það sem þeir eru að gera í samvinnu við þróunarfélögin, fjórðungssamböndin og fleiri aðila muni bera mjög mikinn ávöxt og góðan.

Ég tek eftir því að þeir hafa verið gagnrýndir mjög á síðustu dögum fyrir tillögur sínar og ætlanir um að flytja hluta Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Ég vil segja það, herra forseti, að á sínum tíma, ég ætla að það hafi verið 1993, voru það mér mjög mikil vonbrigði þegar upp kom að bæði stjórn Byggðastofnunar og allir starfsmenn þeirrar ágætu stofnunar sameinuðust um að eitt mætti ekki yfir þá koma: að flytja út á land. Það mætti ekki yfir þá koma. Nú er ég alveg viss um að hjá þessari góðu stofnun starfar mjög gott og hæft fólk. Ég efast ekki um það. En ég hef alltaf litið þannig á að menn kölluðu til forustu og starfa fyrir sig þá sem með þeim vildu deila kjörum og örlögum. Þannig háttar oftast nær til.

Ég var t.d. ekki viss um að ég gæti orðið ágætur verkalýðsleiðtogi, en ég er ekki viss um það að verkalýðsfélögin mundu kjósa mig til forustu. Það vill þannig til. Ég held þess vegna að ekki sé óeðlilegt að Byggðastofnun stígi skrefið til enda, stefni að því markvisst og öruggt að þessi góða stofnun verði staðsett úti á landi. Ég er ekki að leggja til neinn sérstakan stað frekar en annan, en úti á landi á hún að vera og með landsbyggðinni vegna þess að þá eru þeir betur í stakk búnir til að vinna það verk sem ég veit að þeir vilja svo vel vinna.