Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:34:07 (1200)

1997-11-13 14:34:07# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:34]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér hefur farið fram afskaplega málefnaleg og ágæt umræða um skýrslu forsrh. og um byggðastefnu. Það er vert að hafa í huga að saga Íslandsbyggðar er ekki nema liðlega 1100 ára gömul. Á þessum 1100 árum má segja að í 1000 af þessum 1100 árum einkenndist landið af því að vera tiltölulega kyrrstætt bændasamfélag þar sem byggð var dreifð nokkuð jafnt um allt landið. En það er ekki nema á síðustu 100 árum af um það bil 1100 árum í sögu þjóðarinnar sem breytingar hafa orðið og þær nokkuð verulegar á stuttum tíma í sögu þjóðarinnar. Þessar breytingar eiga að sjálfsögðu rætur sínar að rekja til breytinga á atvinnuháttum og má nefna þar fyrst þilskipaútgerðina sem skapar grundvöll fyrir þéttbýli við strendur landsins. Það má nefna samfélagsbreytingar sem verða á stríðsárunum og síðan það sem hefur gerst á síðustu áratugum, þ.e. aukin krafa og réttur um þjónustu í velferðarkerfinu í þess orðs víðustu merkingu. En síðast enn ekki síst er sú ósk fólks og sú krafa fólks að geta lifað mannsæmandi lífi og notið tómstunda og haft aðgang að ýmiss konar afþreyingu í félagslegri merkingu.

Atvinnuhættir hafa fyrst og fremst valdið breytingum. Af þeim ástæðum horfum við til ýmissa eyðidala sem áður voru í blómlegri byggð. Við sjáum staði eins og Aðalvík, Djúpuvík fyrir vestan, Viðfjörð fyrir austan og fleiri slíka staði þar sem byggð hefur nú lagst af en eru stundaðir sem sumardvalarstaðir fyrir ýmsa fyrrum íbúa þessara svæða.

Þegar fjallað er um staði eins og Aðalvík er yfirleitt talað um að þar hafi orðið ákveðin þróun. En þegar rætt er um þessi mál heyrum við líka á víxl notað orðið byggðaþróun ellegar þá byggðaröskun og ég leyfi mér að vara við notkun orðsins byggðaröskun því að einatt hefur hún yfir sér neikvæð formerki þar sem í rauninni felst í því að berjast gegn ákveðinni þróun sem stundum er óhjákvæmileg vegna þróunar í atvinnulífi. Menn finna á stundum einfaldar skýringar. Gjarnan er fiskveiðistjórnarstefnan nefnd og þá ekki síst kvóti þó að það sé að sjálfsögðu mikil einföldun á flóknu máli.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til þeirrar skýrslu sem nokkuð hefur borið á góma, skýrslu Aflvaka og vekja sérstaklega athygli á þeim tölum sem þar standa á bls. 42 þar sem m.a. kemur fram að hvergi í Evrópu, a.m.k. á Norðurlöndum, er hlutfall þeirra sem búa í svokölluðu dreifbýli jafnlágt og á Íslandi. Hér mun það vera 8,5% meðan það er í Noregi til samanburðar 26% en 15% að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Þetta felur vitaskuld í sér ákveðnar staðreyndir enda má varpa því upp hvort ekki bresti ákveðin stífla þegar þetta hlutfall er komið undir ákveðin mörk. Það felur í sér annars staðar fækkun í dreifbýlinu og hins vegar aukningu í þéttbýli en um leið skapast þar meiri möguleikar til bættrar þjónustu í þéttbýlinu, aukinnar félagslegrar starfsemi, menningarstarfsemi, menntastarfsemi og þar fram eftir götunum. Það eru ekki síst þeir þættir sem má segja að sogi til sín fólk því að krafa fólks í nútímanum er sú að vera ekki eingöngu vinnudýr heldur að fá að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að geta sinnt tómstundum sínum, sinnt menningu, listum og öðru slíku. Það er það sem hefur blómsrað í þéttbýlinu og fólk í dreifbýli saknar þess. Þetta eru þess vegna afskaplega athyglisverðar tölur að Íslendingar skulu vera með hvað lægst hlutfall í skiptingunni á milli þéttbýlis og dreifbýlis miðað við nágrannalöndin.

Kjarni málsins er þessi eins og fram hefur komið í umræðunni: Viljum við byggja landið og með hvaða hætti viljum við byggja það? Viljum við halda uppi landsbyggð og þá til hvers? Það er meginkjarni málsins. Þær raddir hafa merkilegt nokk heyrst að sumir svara þessu jafnvel neitandi og telja það hagkvæmast að hrúga öllum íbúum þjóðarinnar á einn stað, það sé hagkvæmast. En til allrar hamingju verða flestir sem svara því játandi. Auðvitað þurfum við að halda uppi byggð víða í landinu, ekki bara á einum stað. Rökin fyrir því eru augljós vegna þess að þau snúast um gæði og verðmæti landsins. Gæði og verðmæti nýtast okkur ekki fyrr en þau eru notuð og stunduð og til þess þarf fólk. Þjóðin þarf á landbúnaðarafurðum að halda. Hún þarf að nýta orkulindir sínar. Annars eru þær ekki verðmætar. Við þurfum að sinna ferðaþjónustu, laxveiði og þannig má áfram telja. Allt er þetta liður í því að gera landið byggilegt. Við viljum lifa af gögnum þess og gæðum og til þess þurfum við fólk til þess að virkja þessar náttúruauðlindir. Það er þess vegna, herra forseti, sem saman fara hagsmunir þéttbýlis og dreifbýlis. Til þess þarf fólk að búa úti á landsbyggðinni eins og alls staðar þekkist í heiminum.

En þá kemur þessi viðkvæma spurning: Í hve ríkum mæli? Þá kemur að jafnvæginu. Hversu langt getum við, viljum við og þurfum við að ganga í svonefndri byggðastefnu? Við starfrækjum annars vegar afskaplega gott og mikið velferðarkerfi sem sýgur stöðugt til sín meira af hinu opinbera fé og ekkert lát mun þar verða á vegna bættrar menningar, bættrar tækni og þar fram eftir götunum. Hins vegar kemur svo byggðastefnan og þörf og krafa fólks til þess að geta haft aðgang að velferðarkerfinu. Hversu langt getum við teygt okkur til þess að veita landsmönnum öllum aðgang og þjónustu í velferðarkerfinu. Þar þurfum við að finna jafnvægið og það er í rauninni hin viðkvæma og stóra spurning.

Líka er rétt að benda á, herra forseti, að þær raddir heyrast iðulega að fólk úti á landi telur sig sitja í átthagafjötrum. Fólk sem býr á jörðum sínum eða býr í minni þorpum telur sig ekki komast burt en hafi viljann til þess vegna þess að það sé að fara á mis við ýmsa þjónustu, ekki síst félagslega þjónustu og aðgengi að menningarlegum þáttum. Þetta fólk telur sig ekki komast burt, það sé bundið átthagafjötrum. Ævieign þess er bundin í húsnæði sem enginn vill kaupa. Auðvitað er skylda þingsins að bregðast við þessu því að það er sárt að vera bundinn. Það hlýtur að vera stærsta pólitíska málið fyrir Alþingi að taka á þessum málum og koma upp svonefndum byggðakjörnum sem oft hafa verið nefndir hér. Í mínum huga munu þeir aldrei geta orðið mjög margir á landinu, enda er þjóðin innan við 300 þúsund. En það er erfitt að taka ákvörðun um það hvar vaxtarsvæði eigi að vera. Það er erfitt en til þess þurfum við að hafa pólitískan kjark. Við þurfum að taka ákvörðun um það hvar við viljum hafa byggðakjarna.

Þegar sú ákvörðun liggur fyrir koma aðrar pólitískar ákvarðanir en þær eiga ekki að koma fyrr en sú ákvörðun liggur fyrir hvar við viljum koma upp vaxtarsvæðum og byggðakjörnum. Þá kemur hin pólitíska ákvörðun um það hvernig við viljum verja þá með því að byggja þar upp velferðarkerfi, með því að halda þar uppi menntastigi, félagslegri þjónustu, menningu, samgöngum og þannig má áfram telja og auðvitað gegna samgöngur þar mikilvægu hlutverki. Það er hlutverk hins pólitíska valds að taka þá ákvörðun að styrkja og verja þau byggðasvæði. En jafnframt, og í því felst líklega það sem viðkvæmast er, að taka afstöðu til þeirra svæða sem lenda utan hugsanlegra byggðakjarna og með hvaða hætti hægt er aðstoða fólk sem hugsanlega vill og þarf að komast að þeim svæðum. Þetta tel ég vera meginatriði og kjarna málsins varðandi byggðastefnu. Það er þingsins að móta stefnuna. Það er skylda þingsins. Það er erfið ákvörðun og hún kann að vera sársaukafull en til þess eiga hv. þingmenn að hafa kjark.