Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:00:03 (1202)

1997-11-13 15:00:03# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Skýrsla forsrh. um Byggðastofnun er hér til umræðu og inn í hana hafa spunnist umræður almennt um byggðamál. Fyrir þessa umræðu vil ég þakka. Hún er málefnaleg og á margan hátt málefnalegri en mörg umræðan sem hefur verið á þessu þingi. Hins vegar eru það engin gleðitíðindi að fólksflótti af landsbyggðinni veldur okkur, sérstaklega landsbyggðarfólki og reyndar einnig höfuðborgarbúum, ákveðnum áhyggjum.

Fyrir þessum fólksflótta eru margar ástæður. Menn nefna til sögunnar einhæft atvinnulíf, takmarkaða félagslega þónustu, misrétti til náms, þ.e. að mun dýrara er fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni að senda börn sín til náms í þéttbýlið eða í heimavistarskóla og eins og ég benti hér á í andsvari í dag, þá eru þess mýmörg dæmi að foreldrar kaupa jafnvel íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem veldur því síðar að þeir flytjast jafnvel á höfuðborgarsvæðið vegna þess að afar dýrt er að reka tvö heimili. Enn önnur ástæða sem ég vil nefna eru þau atvinnutækifæri sem ungt fólk hefur að námi loknu og að lokum er ákveðið misrétti í launamálum eins og fram hefur komið. Það er kannski nokkuð svæðabundið en er þó áreiðanlega einn af þessum þáttum.

Það er líka fróðlegt að velta fyrir sér hvaða ímynd er dregin upp af landsbyggðarfólki í fjölmiðlum. Oft og tíðum eru dregnir fram býsna kynlegir kvistir, sérkennilegt fólk, og unga fólkið í þéttbýlinu sem ekki hefur haft tækifæri til þess að fara í sveit eins og áður var lítur á okkur dreifbýlisbúana út frá þessari mynd sem dregin er upp. Þetta er mjög alvarlegt mál. Við þurfum að varðveita sérkenni landsbyggðarinnar, en landsbyggðin lítur bara ekki svona út.

Þess eru líka mýmörg dæmi að ungt fólk, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, sækir framhaldsmenntun sína til útlanda og það lítur á landsbyggðina eins og þetta sé eitthvert landsvæði sem sé nánast óbyggilegt. Ég þekki fullt af ungu fólki sem hugsar svona í dag.

En ef við veltum þessum hlutum betur fyrir okkur, er alveg ljóst að hagsmunir dreifbýlis og þéttbýlis fara saman. Það á við um sveitir og kauptún. Það á við um höfuðborgarsvæðið og landsvæðið í heild. Það eru mörg atvinnutækifæri á höfuðborgarsvæðinu einmitt sköpuð úti á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að annar getur ekki án hins verið.

Eitt af því sem gjarnan er rætt um í fjölmiðlum eru styrkir og niðurgreiðslur. Oftast nær er umræðan um styrki og niðurgreiðslur býsna einhæf. Menn ræða gjarnan um að landbúnaðarvörur séu niðurgreiddar og segja aldrei nema hálfan sannleikann í þeim efnum. En þegar við skyggnumst t.d. í fjárlögin --- en ég sit einmitt í fjárln. --- þá kemur í ljós að við veitum styrki til ýmiss konar menningarstarfsemi sem er fyrir allt landið en þéttbýlisbúar hafa meiri möguleika á að nota en landsbyggðarfólk. Við niðurgreiðum miða í Þjóðleikhúsið. Við niðurgreiðum miða á sinfóníuhljómleika og við styrkjum ýmiss konar starfsemi. Við erum t.d. með sjómannaafslátt og sjómannaafsláttur er í raun ekkert annað en niðurgreiðsla á launum, þ.e. við komum þarna inn í málefni vinnuveitenda, útgerðarmanna og greiðum niður laun sjómanna.

Í sjálfu sér geri ég ekki neinar athugasemdir við þetta, alls ekki. En þegar við erum að draga upp myndina af landsbyggðinni, þá verðum við að hafa þetta allt saman inni. Við megum ekki taka út bara einstaka þætti og útiloka svo aðra.

Við tölum mjög sjaldan um það að t.d. olíufélögin bjóða niður bensínverð á höfuðborgarsvæðinu. Við getum keypt ódýrara bensín hér heldur en t.d. á Selfossi, Hvolsvelli eða Vík í Mýrdal. Þetta er mjög sjaldan í umræðunni.

Við þurfum líka að opna svolítið betur heim landsbyggðarinnar. Við þurfum að víkka sjóndeildarhringinn, þ.e. við sem þar búum. Við eigum að geta haft í fullu tré við höfuðborgarsvæðið ef rétt er gefið, ef við höldum rétt á spilunum. Við þurfum að stuðla að sameiningu sveitarfélaga. Það má ekki gera með valdboði. Það kemur ekki til greina. (GÁ: Hvers vegna ekki?) Það veit hv. þm. Guðni Ágústsson. Við höfum svo oft rætt það að það er alveg óþarfi að fara mjög nákvæmlega yfir það vegna þess að þú sem frjáls maður og ættaður úr Flóanum veist hvernig Íslendingar hugsa. Þeir vilja ekki láta þröngva sér til sameiningar. Það kemur bara ekki til greina. Hins vegar um leið og við færum verkefni yfir til sveitarfélaganna, þá gerist þetta sjálfkrafa. Þess eru fjölmörg dæmi og það veit ég að hv. þm. þekkir.

Við þurfum líka mjög nauðsynlega að bæta samgöngur við landsbyggðina. Þegar við þingmenn á Suðurlandi höfum verið á ferðum okkar, þá er mjög gjarnan talað um háan raforkukostnað og háan hitakostnað og það veldur t.d. Sunnlendingum og auðvitað mjög mörgum öðrum landsbyggðarbúum miklum áhyggjum. Sunnlendingum finnst t.d. mjög merkilegt að við njótum alls ekki til fullnustu góðs af mestallri raforku sem framleidd er á Suðurlandi.

Við sem á landsbyggðinni búum þurfum líka að passa okkur að draga upp jákvæðari mynd af landsbyggðinni en við sjálf gerum. Við tölum okkur stundum niður í þunglyndi. Ákveðin undirstöðuþjónusta skiptir veurlega miklu máli. Þar má nefna heilsugæslu. Þar má nefna ýmiss konar félagslega þjónustu. Það skiptir líka mjög miklu máli að þeir skólar sem starfa úti á landi séu reknir af metnaði, það á við um leikskóla, það á við um grunnskóla, það á við um framhaldsskóla og það á við um tónlistarskóla og það þarf að vera hægt að bjóða upp á ýmiss konar tómstundastarf.

Það er mjög merkilegt að horfa til þess núna að t.d. framhaldsskólarnir eru í mjög mörgum tilfellum í samvinnu við erlenda skóla. Þetta eykur víðsýni unga fólksins og opnar ákveðnar víddir sem við þurfum að gefa gaum.

Alveg eins og ég nefndi í upphafsorðum mínum, þá skiptir misrétti til náms dreifbýlisfólk afar miklu máli. Við þurfum einhvern veginn að breyta dreifbýlisstyrknum þannig að þeir sem eiga lengst að sækja framhaldsskólanám fái mestu styrkina.

Í umræðunni um byggðamál verður Byggðastofnun oft fyrir ómaklegri gagnrýni. Byggðastofnun hefur á undanförnum árum verið að gera mjög athyglisverða þjónustusamninga við atvinnuþróunarfélög og sveitarfélög og þessir samningar hafa skipt atvinnuþróunarfélögin mjög miklu máli. Ég vil benda á ágæta grein eftir framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann rekur þessi mál. Menn hafa mikið frekar verið að reka horn sín í neikvæð dæmi um hluti sem hafa mistekist heldur en dæmi um hluti sem hafa gengið vel.

Ég má til með að nefna mjög glæsilegt byggðaverkefni sem Byggðastofnun kom að á sínum tíma og reyndar margir fleiri. Það var þegar kjötvinnsla Sláturfélags Suðurlands flutti á Hvolsvöll. Frá Hvolsvelli til Reykjavíkur er ekki nema 100 km leið og eins og hv. þingmenn vita, hefur mjög mikil vinnsla á landbúnaðarvörum farið fram í Reykjavík. En árið 1991 --- reyndar hófst þetta starf árið 1990 --- komu fjölmargir aðilar að flutningi kjötvinnslu Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvöll. Þar má nefna stjórn fyrirtækisins, en Sláturfélag Suðurlands er samvinnufélag í eigu bænda á Suðurlandi. Sveitarstjórnin á Hvolsvelli kom að þessu máli, héraðsnefnd Rangæinga, Byggðastofnun og ríkisstjórnin og má segja að þetta verkefni hafi verið allra hagur. Það gjörbreytti byggðamynstri á þessu svæði. Fólk í dreifbýli getur sótt vinnu í kjötvinnsluna. Fyrirtækið var í raun og veru komið á hnén en hefur rétt úr kútnum og núna einmitt á þessari stundu er verið að byggja 2.000 fermetra húsnæði til viðbótar því húsnæði sem fyrir er hjá Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli. Það er alveg ljóst að atvinnutækifærum mun fjölga, en hjá þessu fyrirtæki eru um 130--140 ársverk. Þetta olli því að inn á svæðið, Rangárvallasýslu, kom margt fólk sem hafði mikla menntun, einnig sérhæft kjötvinnslufólk og sérhæft verkafólk og þetta skipti byggðarlagið miklu máli. Ég tek þetta sem dæmi um mjög vel heppnað mál þar sem byggðaverkefni heppnaðist mjög vel.

Það skiptir máli í þessari umræðu um byggðamál að við séum nokkuð fordómalaus og við þurfum að hafa umræðuna uppbyggilega og mér hefur fundist í stórum dráttum umræðan hér í dag vera það. Þjóðin okkar er ung og óþroskuð og við þurfum að finna ákveðið jafnvægi milli sveitanna, milli kauptúnanna, milli kaupstaða og svo höfuðborgarsvæðisins. Og eins og ég sagði áðan verðum við að vinna saman til að ná tökum á þessu verkefni.

Ég má til með að benda á eitt þegar verið að tala um sameiningu sveitarfélaga. Umræðan er oft nokkuð lokuð. Þegar við horfum á þjónustukauptún víðs vegar um land, þá eru þau auðvitað ekki byggð af neinum nema fólkinu í dreifbýlinu. Fólk í dreifbýlinu hefur skapað þessa þjónustukjarna og þess vegna ætti að vera léttara að sameina sveitarfélögin í gegnum þessi kauptún.

Það er mikið ósamræmi í byggðaþróuninni á Íslandi í dag. Það ósamræmi er óviðunandi og mjög óhagkvæmt. Það er mjög óhagkvæmt að vera að flytja heilu byggðarlögin á suðvesturhornið á ári hverju og það er auðvitað engum til góðs. Þessari þróun verðum við að snúa við.