Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:13:18 (1203)

1997-11-13 15:13:18# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:13]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nú eins og fleiri þakka þessa skýrslu og þessar umræður. Þær eru mikilvægar. Ég vil þó segja við hæstv. forsrh. sem jafnframt er byggðamálaráðherra, ef svo má segja, og hvetja hann til aðgerða, að ríkisstjórnin sem heild marki skýra stefnu. Ég held að sá tími sé kominn í byggðamálum. Menn verða að hverfa af skýrslu- og umræðustiginu yfir í aðgerðir sem skila því í fyrsta lagi að sátt verði í þjóðfélaginu um byggðina og í öðru lagi jafnræði á milli landsmanna. Ég er búinn að þekkja það sem stjórnmálamaður að þessi umræða er búin að standa í áratugi og menn hefur greint á oft og tíðum um aðalatriði. Þess vegna er komið að því, hæstv. forsrh., að einhver verður að hafa kjark til þess að höggva á hnútinn. Mér finnst að sú stund sé komin þegar við horfum fram á það að á uppgangstímum, eins og hæstv. forsrh. rakti, fer fólk frá bullandi atvinnu. Því þurfum við ekki fleiri skýrslur. Við vitum það hver og einn innst inni hvað veldur. Við eigum ekkert að láta menn deila um þetta ár eftir ár. Það er þekkt í öllum löndum hvað þarf að gera þar sem menn takast á um byggðamál.

[15:15]

Ég minnist þess að við tókum langa umræðu í þinginu og þjóðfélaginu um það hvort þriðja stjórnsýslustigið ætti að taka við. Ég tók þátt í þeirri umræðu og var stuðningsmaður þess á sínum tíma. Það gekk ekki upp. Um það varð ekki samstaða. Þá stöndum við eftir með það að við ætlum að hafa tvö stjórnsýslustig, annars vegar ríkisvald og hins vegar sveitarstjórnarvald. Þess vegna liggur það beint við að þetta er eiginlega niðurstaða stjórnmálaflokkanna, þetta er niðurstaða sveitarstjórnarmanna. Þá er komið að því atriði að við verðum að styrkja sveitarstjórnastigið myndarlega og taka ákvörðun um hvaða verkefni það á að fá til sín. Hvað þurfa sveitarfélögin að vera stór til að ráða við þau mörgu verkefni sem er vilji ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar að flytja til þeirra? Við erum eiginlega komnir að þessum punkti í umræðunni. Ég finn það í mínu kjördæmi og þar sem ég fer um landið að skoðanir fólksins í dag eru að þróast á þann veg að það skilur að stærra og sterkara sveitarstjórnastig skilar nýjum verkefnum, það skilar nýju hagsældarsvæði þar sem það er. Svo verðum við auðvitað í þessari umræðu að viðurkenna það að byggðaþróunin hefur verið þannig að kannski eru ekki mjög mörg vaxtarsvæði sem ná því að bæta við sig fólki sé til framtíðar horft. Það er kannski eitt í hverju kjördæmi. Auðvitað ber að stefna að einu í hverju kjördæmi. Á þetta vil ég leggja áherslu, hæstv. forsrh., að framhald þessarar umræðu verði fyrst og fremst það að ríkisstjórnin taki þessi mál á nýjan hátt til skoðunar og láti verkin tala.

Hér hefur verið spurt að því hvort sértækar aðgerðir gangi upp. Auðvitað ganga þær upp í einhverjum tilfellum. En þær hafa þó ekki skilað neinum árangri. Þess vegna ganga þær að hluta til ekki upp í mínum huga. Þær hafa ekki skilað þeim árangri sem skiptir neinu máli og þess vegna verðum við að horfa til þessa í nýju ljósi. Við gerum okkur grein fyrir því, landsbyggðarmenn, að það er íslenskri þjóð dýrmætt að eiga jafnglæsilega höfuðborg og Reykjavík er. Við höfum tekið að okkur eins og höfuðborgarbúarnir sjálfir að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Hér höfum við byggt upp höfuðborgarsvæði sem stenst samjöfnuð við það besta í mörgum löndum. Þetta er staðreynd málsins. Hér er stjórnsýslan, hér eru menningarstofnanir, hér eru skólastofnanir, hér er Þjóðleikhúsið o.s.frv. Hér er öll sú menning sem einn einstaklingur þarf í raun á að halda hvað það varðar. En þetta höfum við byggt upp ekki síður en aðrir. Ég vil því við þessar umræður velta því upp hvort við séum komnir að þeim punkti að við verðum í raun að viðurkenna að við byggjum ekki mörg svona svæði upp á Íslandi til viðbótar. Það er of dýrt, landið er of lítið, fámennt og samgöngurnar eru orðnar það góðar. Þá er spurningin sú hvort til séu einhverjar leiðir til að sætta menn við að vera þetta langt frá allri þessari starfsemi og þjónustu sem hér er til staðar. Ég vil velta því upp hvort við eigum hreinlega að viðurkenna að ,,hin þjóðin`` sem er fjarri þessum stöðum þarf á einhverju að halda í staðinn. Væri það réttlætanlegt, hæstv. forsrh., að hafa lægri skatta á landsbyggðinni af því að fólk er fjarri þessari þjónustu og verður að leggja mikið á sig til að njóta hennar, t.d. í menntamálum og fleiru? Þá á ég við skatta bæði á fólk og fyrirtæki. Þetta er kunn almenn aðgerð í mörgum löndum og væri góð byggðaaðgerð. Við gætum líka hugsað okkur að erlendir fjárfestar ættu kost á að byggja upp fyrirtæki, og kannski íslenskir líka, og það yrðu gjaldfrí fyrirtæki um sinn. Ég velti þessu upp í umræðunni sem leið til að sætta fólkið í landinu og styrkja um leið landsbyggðina til sóknar.

Það er margt sem við getum tekið til skoðunar. Hér minntist hv. 3. þm. Vestf., Einar Oddur Kristjánsson, á kvótakerfið. Kvótakerfi í sjávarútvegi, kvótakerfi í landbúnaði. Það er t.d. enginn vafi að það hefur valdið ákveðinni röskun í báðum þessum undirstöðuatvinnuvegum landsbyggðarinnar. Þá er spurningin sú hvort jafnræði sé á milli landvinnslu og frystitogaravæðingarinnar sem hefur verið að ganga yfir landið þar sem menn hafa í rauninni skapað frystitogaravæðingunni miklu betri starfsskilyrði en landvinnslunni og menn hafa sagt um sjávarútveginn að hann verði að hámarka sinn arð, það muni enginn hjálpa honum þó að hann lendi í vandræðum, hann verði að verja sitt fé. Þetta hefur gert það að verkum að menn hafa farið með sína verkun, vinnslu og útgerð á haf út. Þannig að það er spurning hvort ekki þurfi að jafna þarna á ýmsum sviðum.

Við vitum líka að landbúnaðurinn er að stokkast upp og hefur gengið í gegnum miklar þrengingar. Sem betur fer horfir heldur betur í sauðfjárræktinni um sinn og loðdýraræktinni sem mjög hefur verið rætt um. Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda í mjólkurframleiðslu og margir hafa verið að fara út úr þeirri grein, þannig að þar er vandi á ferð. Síðan verða auðvitað ýmis atriði til að valda röskun. Fram undan er eitt æði í fjárfestingu á Íslandi til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu. Nú liggur fyrir að sé tap peningastofnana á Íslandi skoðað síðustu 10--15 árin, þá hefur langmesta tapið orðið í verslun og þjónustu og skiptir milljörðum. Nú stendur til að byggja nýjar kringlur og verslanir á Reykjavíkursvæðinu sem munu hafa veruleg áhrif. Einhverjir munu tapa þar miklum peningum þegar upp verður staðið. Nú er ég ekki að segja að það séu nein mannanna úrræði sem geta stöðvað þessa offjárfestingu. En það er þó athyglisvert að hugsa um það að versluninni virðist það meira umhugsunarefni að fjárfesta í steypu og nýjum mannvirkjum en að hækka kaupið við fólkið og þannig kroppa þeir augun hver úr öðrum.

Hæstv. forseti. Það er landsbyggðinni mjög mikilvægt að eiga fjölbreytt atvinnulíf. Aðgangur að menntun og menningarstofnunum skiptir máli eins og ég nefndi. Ég hitti mann í gær sem sagði mér frá því að þegar hann átti orðið börn sín í námi á þremur stöðum þá fjárfesti hann í íbúð í Reykjavík til að sameina fjölskylduna og hafa hana hér. Þess vegna er það kannski eitt mikilvægasta atriði landsbyggðarmanna að styrkir til náms verði viðhafðir og auðvitað að menntastofnanir og háskólastig komi inn á þessi fáu vaxtarsvæði sem við eigum í landinu.

Víða á landsbyggðinni eru menn að gera góða hluti. Ég þekki það að í einni bestu byggðavæðingu á Suðurlandi síðustu árin hefur verið bylting í verslunarháttum þar sem menn hafa náð sams konar vöruverði og í Reykjavík með því að nota styrk stórra samtaka eins og KÁ til að ná því markmiði. Þetta hefur mikið að segja. Þegar það hefur náðst verslar fólkið á svæðinu, sækir inn á svæðið og einkageirinn dafnar í kringum svona aðgerðir. Þetta hef ég séð á mínu svæði.

Síðan eru það allar þær skýrslur og úttektir frá Byggðastofnun sem maður veltir fyrir sér. Ég er hér með kort sem nýkomið er út hjá stofnuninni og sýnir sveitarfélög sem sýna hættumerki í búsetuþróun. Auðvitað hefur það eitthvað að segja þegar búið er að merkja á kort með rauðum hringjum og sagt að þar sé veruleg hætta á ferðum. Hver fjárfestir á svoleiðis stöðum? Hver vill þar vera? Er ekki komið að því að Byggðastofnun geri fyrst og fremst tillögur en sendi ekki alltaf frá sér svartar skýrslur? Ég sé það í annarri skýrslu sem er með fallegt hrútshöfuð hér uppi --- Þróun sauðfjárbúskapar á Íslandi á tímabilinu 1991--1996 --- sjálfsagt ágætis skýrsla en hún kemur eins og köld vatnsgusa framan í margan sauðfjárbóndann sem finnur að hann hefur þó á síðustu árum verið að ná aðeins tökum á nýjan leik, aðgerðir hafa verið að skila sér og hann finnur smásókn í stöðu greinarinnar hjá sér, eða þetta er alla vega það sem menn ræða við mig. Hvað þýðir þessi skýrsla? Hún er fyrst og fremst bara köld gusa í andlit sauðfjárbænda. Hverjar verða aðgerðirnar sem Byggðastofnun biður um á eftir? Eins og fram hefur komið í þessari umræðu skiptir hugarfarið miklu máli. Að menn séu jákvæðir og sókndjarfir í byggðarlögunum.

Ég sé að tími minn er að verða búinn, hæstv. forseti. Ég vil treysta því, hæstv. forsrh., að í framhaldi af umræðunni verði það verkefni ríkisstjórnarinnar og Alþingis alls að taka á og marka miklu skilvirkari og skýrari stefnu miðað við allar þær staðreyndir sem liggja fyrir. Við þurfum ekki fleiri skýrslur, við þurfum ekki fleiri umræður, fyrst og fremst þurfum við aðgerðir.