Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:32:42 (1206)

1997-11-13 15:32:42# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:32]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú sannast auðvitað orð þingmannsins sjálfs um að hann hafi ekki lesið þessa skýrslu. Hún byggir reyndar ekki á afkomu 30 sauðfjárbænda. Það er mikill misskilningur. Í öðru lagi eru staðreyndir þær að sauðfjárbændur voru á síðasta ári, og það er það nýjasta sem til er um þau efni, með verri afkomu en verið hefur nú á síðustu árum. Ég sagði ekki frá upphafi vega. Þessar staðreyndir liggja alveg ljóst fyrir. Það er hins vegar alveg hárrétt og vert út að fyrir sig að undirstrika það að menn hafa verið að leitast við að snúa ýmsu við í þessari framleiðslu, öllu frekar þó í meðhöndlun og vinnslu og Byggðastofnun hefur satt að segja átt býsna góðan hlut að því máli. Og það er mjög mikilvægt að það skuli hafa verið dregið inn í þessa umræðu. Hitt er jafngagnlegt að það skuli nú liggja ljóst fyrir hver afkoma þessarar búgreinar sé, m.a. vegna þess að byggðin getur ekki lifað við þau kjör sem sauðfjárræktinni eru búin.