Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:34:33 (1207)

1997-11-13 15:34:33# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:34]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson flutti hér skörulega ræðu eins og hans var von og vísa og sagði eitthvað á þá leið að nú væri nóg komið af skýrslum og eitthvað yrði að fara að gera og skoraði síðan á hæstv. forsrh. að fara nú að gera eitthvað. Ég tek heils hugar undir mikla trú hv. þm. Guðna Ágústssonar á hæstv. forsrh. Þar erum við trúbræður. En málið er ekki alveg svona einfalt, að það sé nóg að segja bara að nú verði að fara að gera eitthvað. Menn verða að benda á hvað eigi að gera. Það hefur komið aftur og aftur fram í þessum umræðum og reyndar í umræðunni í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum, að menn flytja í stórum stíl alveg jafnt frá þeim stöðum þar sem atvinnuástandið er best, þar sem uppbyggingin er mest í atvinnulífinu og bullandi vinna, þokkaleg þjónusta og menn sjá ekki að neitt sérstakt sé að. Samt flytur fólkið. Það er eins og enginn geti svarað því: Af hverju? Þess vegna er ég ekkert endilega sammála því að nóg sé komið af skýrslum. Ég held að það verði að greina það af hverju fólk er að flytja --- þess vegna bind ég vonir við þá skýrslu sem ég nefndi í ræðu minni áðan, að er væntanleg frá Stefáni Ólafssyni prófessor. Hann hefur verið vinna hana fyrir Byggðastofnun síðustu mánuði --- af hverju þessir miklu flutningar stafa, alveg jafnt frá þeim stöðum þar sem ástandið er best.

Hv. þm. gerði heldur lítið úr skýrslugerð Byggðastofnunar og ég er ekkert sammála því. Þessar tvær skýrslur um stöðu sauðfjárræktarinnar sem lagðar voru fram í síðasta mánuði gera auðvitað ekkert annað en segja mönnum sannleikann, segja mönnum hver staðan er. Menn verða að viðurkenna stöðuna og átta sig á henni ef á að reyna að bæta úr ástandinu.

Ég er með nýjustu skýrslu Byggðastofnunar í höndunum sem kom út fyrir örfáum dögum og er um þýðingu Kísiliðjunnar fyrir efnahag og atvinnulíf í Mývatnssveit og segir okkur hvað gerist ef svo illa fer að rekstri þeirrar verksmiðju verði hætt, sem vofir nú kannski yfir en verður vonandi ekki. Þetta er afskaplega gagnleg skýrsla og þörf inn í umræðuna um það ágæta fyrirtæki og mikilvægi þess.