Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 16:16:11 (1217)

1997-11-13 16:16:11# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[16:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Sá hv. þm. sem síðast talaði fann að því að skortur væri á heildstæðri stefnumörkun um byggðamál og taldi sig ekki hafa neinar skyldur til að leggja neitt til þess máls að móta slíka stefnu. Athugasemdir hans voru æðibrotakenndar svo ekki sé nú meira sagt. Ég hlýt að vekja athygli á því, fyrst svona er talað, að auðvitað hafa menn áttað sig á þessu fyrr. Hann er ekki sá fyrsti sem kemur auga á að það væri gott að hafa heildstæða stefnu í byggðamálum. Þess vegna setti Alþingi á sínum tíma lög um að slík stefna skyldi undirbúin. Þess vegna undirbjó stjórn Byggðastofnunar, í mjög góðri sátt, heildstæðar tillögur um það efni og þess vegna samþykkti Alþingi að lokum slíka tillögugerð nánast samhljóða og eftir þeirri áætlun hefur verið unnið. Og þeir þættir sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni að væru mikilvægastir, eins og að leggja áherslu á tiltekin svæði, komu einmitt fram í þeirri byggðaáætlun, eru eiginlega megininntak þeirrar byggðaáætlunar, sem hv. þm. getur út af fyrir sig kynnt sér. Þessi áætlun liggur fyrir og þessi áætlun hefur verið gerð. Það má auðvitað segja að sú áætlun var frumsmíð, og eins og Snorri Sturluson sagði: ,,Öll frumsmíð stendur til bóta``, og sjálfsagt þessi þá ekki síður en aðrar.

Það kom líka fram í upphafi þessarar umræðu að óskað hefði verið eftir því einmitt við Byggðastofnun að hún undirbyggi nú, í ljósi reynslu sögunnar, framhald af þessari vinnu. Og það er ekki aðeins einföld ósk, það er jafnframt lagt fram í nokkrum liðum hvaða atriði það eru sem óskað er eftir að Byggðastofnun láti athuga sérstaklega og fjalli sérstaklega um. Þannig að menn eru að vinna markvisst að þessu.

En því halda menn þá fram að engin slík markviss stefna sé til? Það er vegna þess að við hér í salnum í dag, að mestu leyti í mjög málefnalegri umræðu, höfum verið að vekja athygli á því fyrir okkur sjálf og fyrir landsmenn, að þrátt fyrir þess háttar vinnu og þrátt fyrir margvíslega viðleitni og þrátt fyrir batnandi almennan efnahag í landinu þá hefur straumur fólks frá landsbyggðinni til Reykjavíkur haldið áfram. Þetta hafa menn rætt hér hreinskilnislega og ekki verið með ávirðingar í garð nokkurs manns út af því heldur farið málefnalega af stað með umræðu um þennan þátt hér úr þessum ræðustól, á þessum háttvirta stað. Ég verð þó að segja að ekki hefur okkur tekist að finna eitt svar við því hvers vegna, þrátt fyrir batnandi efnahag, batnandi atvinnuástand og allt þess háttar sem við héldum að væri frumforsenda, enn skuli vera slíkur straumur í átt til þéttbýlismyndunarinnar hérna á suðvesturhorninu.

Ég ætla að koma með eina tilgátu sem er ekki endilega rétt. Hún er á þá lund að kannski eru þetta eftirhreytur. Kannski tekur þetta tíma. Hér í þinghúsinu var einn af þingmönnunum sem er stýrimaður að ræða óformlega --- ég vona að ég megi vitna til þess --- um hugmyndir um olíuhreinsunarstöðvar og þessi stóru skip, 300 þús. lestir eða hvað þau eru, sem flytja slíka farma. Hann sagði að það tæki 10--15 km að stöðva slík skip ef þau þyrftu á því að halda. Slík væri fartin og slíkur væri þunginn. Mér kom þá í hug þessi umræða hér, þ.e. hvort það gæti ekki einmitt verið þetta, að það tekur tíma að stoppa þennan skriðþunga. Það hafði kreppt mjög mikið að í íslensku efnahagslífi. Það hafði sérstaklega kreppt að þáttum sem snúa að landsbyggðinni varðandi landbúnaðinn, varðandi sjávarútveginn og mjög mikil endurskipulagning hefur átt sér stað í þessum efnum. Við segjum að endurskipulagningin í sjávarútvegi hafi orðið til góðs fyrir fyrirtækin og á því er ekki vafi. Og það leikur heldur ekki vafi á því að sú endurskipulagning hefur auðvitað kostað sitt. Hún hefur kostað það að ýmsir aðilar, einstaklingar í byggðunum víða um landið, hafa misst sitt fyrra viðurværi og fótunum verið kippt undan þeim af ýmsum ástæðum, nauðsynlegum í mörgum tilvikum. Þeir hafa orðið að finna hag sínum borgið annars staðar. Við sögðum að uppstokkunin sem varð í sauðfjárbúskapnum hefði ekki haft þau áhrif sem menn höfðu búist við vegna þess að það vantaði vinnu annars staðar. Síðan, þegar atvinna batnar um landið allt og líka hér í þéttbýlinu, skilar þetta sér. Þá fer þetta los sem varð á fólkinu vegna þessara þátta, vegna þessarar kreppu, vegna endurskipulagningar í landbúnaði og sjávarútvegi og kannski líka vegna þeirra hörmulegu atburða sem áttu sér stað vegna náttúruvár, þ.e. þegar rýmkast um fyrir fólkið að komast af stað burtu á nýjan leik --- fólk sem lenti í losi, ekki allan þorrann --- þá fer þessi straumur af stað með sama hætti og sama þunga og olíudallarnir sem þingmaðurinn nefndi við mig hér niðri. Það tekur tíma að snúa þessu við. Ég er ekki að segja að þetta sé vísindaleg kenning og sennilega skortir hana reyndar allt sem vísindin krefjast. Engu að síður má vel vera að þetta sé einn af þáttunum og ég bind kannski vonir við að þetta sé einn af þáttunum þannig að batnandi hagur og batnandi atvinnuástand þegar fram í sækir muni snúa þessari þróun við og að aðgerðir sem við gerum hér, að aðgerðir sem Byggðastofnun gerir, að skipulagðar áætlanir sem Byggðastofnun vinnur að, muni í því efni og þegar sá tími kemur auðvelda varnarbaráttu byggðanna.

Ég er sannfærður um að ekki er eins mikill óvilji á milli landsbyggðar og þéttbýlis og menn ætla. Það er svo stutt í sveitamanninn í okkur öllum, eins og það er orðað, að það er miklu meiri samkennd milli manna hvar sem þeir búa á landinu. Og það er ekki þarfaverk að reyna að rjúfa þá samkennd. Ég tel til að mynda að þessi skýrsla Aflvaka, þó hún hafi sjálfsagt sitthvað til síns góðs, sé ekki til þess fallin að vera hjálpartæki eða hjálpargagn, hvorki fyrir höfuðborgina né heldur þá hina sem telja sig vilja vinna að málefnum og heill landsbyggðarinnar. Hagsmunir þessara tveggja geta iðulega farið saman. Sumt í þessari skýrslu er náttúrlega nánast algjörlega út í bláinn svo ekki sé kveðið fastar að orði en það sem þó gæti verið ástæða til.

Eins og menn vita að þótt reglur kveði á um að Byggðastofnun heyri undir forsrh. þá er það svo að lögskipanin er sú að þingkjörin stjórn hefur þar miklu meiri forustu og miklu meiri ábyrgð en forsrh. Þetta er sú skipan sem þingið hefur ákveðið og hefur sína kosti og sjálfsagt einnig sína galla. En af þeim ástæðum hefur það líka verið hjálplegt við þessa umræðu að forustumenn Byggðastofnunar, raunverulegir forustumenn Byggðastofnunar, hafa hér getað tekið þátt í umræðunum og skýrt þau viðhorf sem búa að baki þeim ákvörðunum sem þeir hafa verið að taka. Ég held að það hafi skýrt mjög vel mörg atriði sem þingmenn hafa verið að velta fyrir sér á undanförnum vikum, hvernig þeir hafa tekið á málinu.

Það hafa ekki komið fram mjög margar spurningar sem ég þarf út af fyrir sig að svara beint. Þó eru nokkrar sem ég vildi sérstaklega nefna. Það var til að mynda spurt um það hvað hefði verið gert til að hrinda í framkvæmd ábendingum Ríkisendurskoðunar frá sínum tíma. Ég reyndar fjallaði um þær ábendingar eða athugasemdir Ríkisendurskoðunar í ræðu fyrir ári síðan eða svo og taldi þá að margar þær ábendingar væru mjög jákvæðar en jafnframt væru sumar þeirra ekki nægilega hugsaðar og reyndar gallaðar. Það kom strax fram þá af hálfu talsmanna Byggðastofnunar, bæði kjörinna stjórnenda og starfsmanna, að auðvitað yrði ýmsum athugasemdum Ríkisendurskoðunar skilað inn í reksturinn og þeir mundu leitast við að nýta þær vel í þágu rekstursins. Og ég hygg að það sé ágæt hugmynd sem formaður Byggðastofnunar reifaði hér, að ákjósanlegt væri að Ríkisendurskoðun fylgdi sínu verki eftir og sæi hvað hefði verið nýtt af athugasemdum hennar, hverju hefði verið kippt til betri vegar gagnvart þeim aðfinnslum sem hún var með o.s.frv. þannig að þingmenn hefðu þá þann samanburð fyrir framan sig. Sjálfsagt mætti gera þetta á fleiri sviðum en gagnvart Byggðastofnun því gjarnan fáum við svona skýrslur frá Ríkisendurskoðun sem er okkar aðhaldsstofnun og það væri auðvitað fróðlegt að sjá samanburð á því hvernig slíku er fylgt eftir.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði í það orðalag að ,,tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst``, eins og segir í ályktuninni. Þarna er ekki að mínu viti verið að tala um sérstaka heildstæða áæltun heldur einstakar tillögur. Við höfum verið að ganga í gegnum mjög mikinn flutning á verkefnum til sveitarfélaga og kannski gert það hraðar en menn höfðu talið óhætt vegna þess að sameining sveitarfélaga hefur ekki gengið eins hratt fram og margir höfðu kosið þó að þar hafi orðið heilmikill árangur eins og þingmaðurinn benti réttilega á. Enn eru menn að tala í sömu veru með málefni fatlaðra eins og kunnugt er þannig að þar tel ég að mikilvægur árangur hafi náðst og sé að nást.

Hv. þm. spurði hvort ástæða væri til þess að grípa til sérstakra aðgerða vegna atvinnumála kvenna á landsbyggðinni eins og reyndar hefur verið gert í smáum stíl og þingmenn hafa minnt hér á. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel ekki að það eigi að grípa til stórfelldra sértækra aðgerða vegna þeirra mála. Sem betur fer hafa atvinnumál kvenna farið batnandi þó að verulegur munur sé á atvinnuleysi karla og kvenna um þessar mundir og ekki eingöngu á landsbyggðinni heldur einnig hér í þéttbýlinu eins og kunnugt er. Menn hafa reyndar á því ýmsar skýringar og sumar þeirra eru þess eðlis að þar sé ekki endilega um bein tengsl við atvinnu að ræða og vekja þá athygli á því hversu nauðsynlegt er að flytja inn mikið af vinnuafli bæði í störf sem konur hafa sótt í og störf sem karlar hafi sótt í.

Hv. þm. spurði einnig um það hvort rétt væri að koma til móts við kröfur ýmissa samtaka, sem þingmaðurinn nefndi, um frekari lækkun staðarsímtala umfram það sem gert var nú síðast. Minn atbeini að því máli gekk í þá veru að sjá til þess að upplýsingar væru kynntar almenningi þannig að almenningur hefði fyrir framan sig allar forsendur fyrir ákvörðunum sem vörðuðu hann svo miklu og eins að milda þær ákvarðanir sem teknar voru. Niðurstaðan varð sú, samkvæmt tölum sem ég hef ekki séð gagnrýndar eða dregnar í efa, að meðalsímtalskostnaður heimilanna eftir þær aðgerðir mun lækka. Við vitum auðvitað að meðaltal segir ekki alla sögu í þessum efnum frekar en öðrum. En það er samt afar fátítt að heimili nýti ekki á einhvern hátt síma sinn til langlínusamtala eða samtala við útlönd þannig að sennilega er þessi meðaltalsútreikningur þannig að afar fá dæmi séu um að menn fari mjög illa út úr þessum breytingum. Ég tel ekki efni til þess að ég blandi mér í þetta mál á nýjan leik, svo ég svari spurningunni beint.

Þá spurði hv. þm. hvort það ætti að líða þá miklu hækkun á póstburðargjöldum sem orðið hefur og varðaði einkum blöð og tímarit. Það er alveg rétt sem þingmaðurinn segir að þar er um gríðarlega hækkun að ræða sem byggist á því að póstinum er ekki lengur heimilt og ekki stætt á, samkvæmt lögum eða alþjóðlegum samningum, að greiða niður kostnað af þessu tagi þar sem pósturinn er núna í samkeppni.

[16:30]

Ekki er um þetta deilt. Reyndar var framkvæmdin á þessum niðurgreiðslum að mínu viti ekki alltaf mjög nákvæm og nokkuð tilviljanakennd og jafnvel geðþóttakennt hvað var greitt niður í hverju tilviki. Ég hygg að það hafi ekki verið til fyrirmyndar um þess háttar stjórnsýslu. En það er enginn efi í huga manna að þar hefur pósturinn ekki lengur heimildir eða samgrh., sem mun hafa haft heimildir hér áður fyrr, til að beita slíkri mismunun.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þm. fyrir umræðuna sem ég tel að hafi verið mjög góð og málefnaleg. Ég tel sérstaklega mikilvægt hversu margir þingmenn hafa séð ástæðu til að blanda sér í hana með skipulegum og efnislegum hætti.