Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 16:42:02 (1225)

1997-11-13 16:42:02# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[16:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur flutt skýrslu sína um Byggðastofnun. Nú er það svo að hv. Alþingi kýs stjórn Byggðastofnunar og það er því dálítið undarlegt í mínum huga að hæstv. forsrh. skuli þurfa að svara fyrir Byggðastofnun sem hann hefur ekkert með að gera eða ræður ekki yfir, því það er stjórnin sem kosin er af Alþingi sem stýrir stofnuninni. Það væri miklu nær að Alþingi sjálft, forseti Alþingis, svaraði fyrir stofnunina gagnvart þingmönnum en þetta leiðir hugann að því hvort Alþingi geti yfirleitt gagnrýnt þessa stofnun þar sem það kýs sjálft stjórnina og ber þar af leiðandi ábyrgð á því sem þar gerist.

Hvernig hefur tekist til? Umræðan núna er mjög svipuð því sem hún var fyrir ári síðan. Hún hefur verið málefnaleg og ágæt en þó gætir ákveðins vonleysis í umræðunni. Það kemur fram í máli þingmanna að þeir sjá að byggðaröskunin heldur áfram, og meira að segja vaxandi ef eitthvað er, og við höfum ekki náð tökum á því að stöðva þessa byggðaröskun. Byggðaröskunin sem kemur dapurlega fram á síðu 13 í skýrslu Byggðastofnunar, sem við erum að fjalla hér um, sýnir okkur að ekkert hefur áunnist í þessum málum. Og það er spurning hvort Byggðastofnun hefur yfirleitt hægt á þeirri þróun eða ekki. Hvernig hefði hún orðið ef Byggðastofnun hefði ekki verið að starfa? Ég er á því að það breytti engu.

Það er verðugt verkefni okkar þingmanna að hægja á þessari þróun, þessum miklu fólksflutningum, þ.e. ef þeir eru ekki eðlilegir. Ef um er að ræða eðlilega þróun þá munum við ekki geta stöðvað hana þó við gjarnan vildum.

Herra forseti. Hvað gerir Byggðastofnun? Jú, hún veitir beina styrki og lán til fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni. Af hverju er hún að veita lán í dag? Nú er allt yfirfljótandi í peningum. Það getur hver fengið lán sem vill, þ.e. ef reksturinn er skynsamlegur, og það er ef til vil einmitt þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Kannski er Byggðastofnun að veita lán til fyrirtækja og reksturs sem ekki er skynsamlegur, sem aðrir vilja ekki setja hlutafé í eða lána til. Það skyldi nú ekki vera. Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir landsbyggðina að Byggðastofnun er að búa til atvinnurekstur úti á landsbyggðinni sem ekki er skynsamlegur? Er það gott fyrir landsbyggðina? Ég segi nei.

[16:45]

Mikið af þeim lánveitingum sem Byggðastofnun hefur veitt hefur farið til fyrirtækja sem hafa lent í miklum vandkvæðum. Og það sem hefur gerst er að vandi bankakerfisins hefur verið leystur. Það eru þeir sem eiga kröfur á þessi vonlausu fyrirtæki, vonlausar kröfur. Byggðastofnun hefur á undangengnum árum leyst þann vanda bankanna. Það bjargar ekki byggðarlögunum nokkurn skapaðan hlut. Það er lengt í hengingarólinni og byggðarlögin eru jafnilla sett eftir sem áður. Svo fara lánveitingarnar að sjálfsögðu til illa stæðra fyrirtækja, illa rekinna, og þau eru í samkeppni við vel rekin fyrirtæki, sem ekki fá aðstoð að sjálfsögðu því þeim gengur vel. Þarna er vonlaus samkeppni vel rekinna fyrirtækja við illa rekin fyrirtæki. Ég fullyrði því að þessi aðferð til að jafna aðstöðumun landsbyggðarfyrirtækja er misheppnuð.

Herra forseti. Ég hef margoft lýst því yfir að styrkir eru nánast alltaf eins og eiturlyf, þau hressa í bili og gleðja en draga viðkomandi til dauða hægt og örugglega. Menn þurfa ekki að taka á vandamálum sem uppi eru í sambandi við stjórnun og rekstur vegna þess að staðan er löguð annars staðar frá. Ef illa gengur við rekstur, einhver er að reka fyrirtæki vonlaust og illa úti á landsbyggðinni þá er, í staðinn fyrir að skipta um stjórnendur og eigendur jafnvel, fengið lán eða hlutafjárloforð frá Byggðastofnun og reksturinn heldur áfram að vera lélegur til skaða fyrir þjóðarbúið og viðkomandi byggðarlag. Það liggur við að ég segi að styrkveitingar séu bölvun fyrir þann sem hlýtur. Sama hefur gerst með landbúnaðinn. Staða landbúnaðarins er svo sorgleg að ekki tekur tárum að tala um það. Og það er vegna þess, að mínu mati, að landbúnaðurinn hefur fengið styrki og styrki og hefur aldrei fengið að taka sig á eins og hann skyldi.

Herra forseti. Af hverju eru búferlaflutningarnir? Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson og fleiri hafa rætt um þennan vanda og það er mjög verðugt verkefni að finna út úr því af hverju búferlaflutningarnir eru. Það eru oft og tíðum persónulegar ástæður, t.d. nám barna og sérstaklega unglinga sem ekki er hægt að stunda í byggðarlaginu. Unglingarnir þurfa að flytja í burtu og við sem erum foreldrar þekkjum það að ekki er auðvelt að sleppa hendinni af óhörðnuðum unglingum til höfuðborgarsvæðisins. Ég skil vel að fólk freistist til að flytja með börnum sínum til náms.

Svo er það, eins og hér hefur verið nefnt, að hjón starfa bæði utan heimilis og kannski bæði menntuð, annað þeirra fær vinnu úti á landi og hitt þarf að finna vinnu við sitt hæfi og finnur hana ekki og veldur því að þau fara hvorugt. Það vantar sem sagt atvinnuframboð úti á landi. Þessi mikli búferlaflutningur utan af landi er á margan hátt afar slæmur. Þetta er persónulegt áfall fyrir viðkomandi fólk sem lendir í því að þurfa að gefa upp vini og vandamenn, eigur og þann stað sem það vill búa á, verðfellir eignir og er mjög til skaða bæði persónulega og þjóðhagslega.

Ekki hefur verið nægilega bent á þá kosti að búa úti á landi. Menn halda bara að þetta sé eitt allsherjarvolæði að búa úti á landi. Það er rangt. Það er mjög gott að búa úti á landi, verulega gott. Betri yfirsýn er yfir samfélagið og þar er t.d. ekki hávaðamengun eins og í Reykjavík, sem er mjög mikil. Það er ekki rykmengun og annað slíkt, og ekki þeir glæpir sem við upplifum í Reykjavík. Þannig að á margan hátt er gott að búa úti á landi. Ég vil undirstrika það og það ættu menn að segja oftar.

En umræðan hefur alltaf verið neikvæð. Og af hverju er hún neikvæð? Til að mynda er það hugsanlega vegna vanda landbúnaðarins, sem hefur verið mjög mikill, og menn færa yfir á alla landsbyggðina. En landbúnaðurinn er ekki nema lítill hluti af landsbyggðinni. Svo er kannski líka það, að út af kjördæmamálunum hefur þróast upp eins konar þrýstingur, kjördæmapot kallast það, þar sem menn reyna að fá opinberar fjárveitingar í einhverjar glataðar fjárfestingar.

Ég nefni hafnir, sem engan rétt eiga á sér, algjörlega óarðbærar. Þetta þýðir það að menn setja upp ákveðinn vælutón í röddina --- landsbyggðarþingmenn og landsbyggðarmenn. Þeir væla út fjárfestingar hjá ríkisvaldinu. Og við það að væla svona þá fá íbúarnir á svæðunum það á tilfinninguna að allt sé í kaldakoli þó það sé ekki. Þetta er sálfræðilegt.

Svo er ekki síst það sem er mjög mikilvægt --- fólk vill sjá skynsamlegar fjárfestingar. Ef verið er að framkvæma eitthvað í kringum mitt hús þá vil ég sjá að það sé skynsamlegt en ef verið er að gera eitthvað arfavitlaust þá skammast ég mín. Og ég geri ráð fyrir að margir íbúar landsbyggðarinnar skammist sín fyrir þær fjárfestingar sem þar hefur verið útdeilt. Vegna þess að fólkið sér að sjálfsögðu hvað er skynsamlegt og hvað er vitlaust. Þetta er mjög neikvætt fyrir landsbyggðina.

Herra forseti. Er byggðaröskunin eðlileg? Ég vil ekki skylda fólk til að búa úti á landi sem ekki vill það. Að sjálfsögðu ekki. En ég hef grun um það að byggðaröskunin sé ekki eðlileg. Þar vil ég nefna þessa miðstýringaráráttu okkar þingmanna sérstaklega. Það skal allt vera í Reykjavík, bankakerfið, fjármálakerfið --- allt er sett hérna í Reykjavík. Það er sett hérna í Reykjvík, það leitaði ekki hingað, það er sett hér. Ef maður leggur inn þúsundkall á Akureyri, þá fer sá þúsundkall til vinnslu í Reykjavík og þar er hann unninn í Reiknistofunni. Þar býr hann til vinnu og þar eru tekin 5% í kostnað og svo siglir hann aftur til Akureyrar og Akureyringurinn getur náðarsamlegast fengið að láni 950 kall, fimmtíukallinn verður eftir í Reykjavík. Þetta er hagur Reykvíkinga af miðstýringunni.

Ég nefni stjórnsýsluna. Allt þarf að leita til Reykjavíkur, allt, meira að segja Byggðastofnunin er í Reykjavík. Ég þakka formanni stjórnar Byggðastofnunar fyrir það framtak að ætla að flytja stofnunina að hluta til út á land, hún ætti að fara öll. Ég vil minna á það að Byggðastofnun er ekki fyrir starfsmennina, hún er fyrir landsbyggðina.

Sumt af þeirri þróun sem verið hefur er eðlileg. Ég nefni samgöngutæki. Ég nefni verslun og flutninga o.þ.h. Það er hagkvæmt að hafa verslun á einum stað en það er spurning hve miklu af því er stýrt. Bættar samgöngur hafa gert það að verkum að fólk kemur alla leið austan frá Klaustri og norðan frá Dalvík til að versla í Reykjavík.

Herra forseti. Eigum við að etja höfuðborgarbúum og landsbyggðarfólki saman? Ég segi nei. Skýrsla Aflvaka stefnir að því. Hún er mjög neikvæð. Hún er að draga fram furðulega kostnaðarútreikninga, t.d. það að vegagerð sé hagur landsbyggðarinnar. Ég veit ekki betur en ég hafi notað þessa vegi, oft og tíðum og þykir gott. Ég keyri um sveitir landsins á þessum vegum. Þetta er ekki styrkur til landsbyggðarinnar frekar en margt annað sem gert er. Hins vegar gætu vitlausar fjárfestingar verið styrkur til landsbyggðarinnar.

Ég held að við þurfum að horfa á samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar með nákvæmlega sama hugarfari og við þurfum að horfa á samkeppnisstöðu Íslands og útlanda. Og þá er það samkeppni um fólk og fyrirtæki og fé. Þetta er orðið mjög alvarlegt alþjóðlegt vandamál vegna þess að það er orðið svo auðvelt að flytja fyrirtæki og fólk.

Herra forseti. Það er mjög margt gott að gerast, t.d. vil ég nefna verðbréfamarkaðinn. Hann er búinn að flytja marga milljarða frá Reykjavík út á land. Það er gott því fjármagnið leitar að sjálfsögðu þangað sem hagkvæmnin er mest. Það er til Eskifjarðar, Neskaupstaðar, Akureyrar, á Vestfirði. Þangað hefur fjármagnið leitað af því það er frjálst. Það er enginn að þvinga það. Það er togað, því er ekki ýtt. Byggðastofnun ýtir en verðbréfamarkaðurinn togar. Og það er miklu eðlilegra því það fjármagn gerir kröfu um öguð vinnubrögð og góða stjórnun hjá fyrirtækjunum. Þetta er sjálfviljugt fjármagn.

Ég vil nefna internetið og tölvurnar og flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Það er jákvætt, það er gott og það muna efla byggðir landsins. Sérstaklega held ég að internetið muni koma til með að breyta miklu. Ég get alveg séð fyrir mér bandarískan lögfræðing búa uppi í sveit á Íslandi og vinna í gegnum tölvuna í Bandaríkjunum. Vinna að einhverju máli sem hann er með og aflar upplýsinga í gegnum internetið. Þetta er enginn vandi og það getur verið fallegt og gaman að búa uppi í sveit á Íslandi. Þannig að ég sé mikinn hag af internetinu.

Herra forseti. Menn hafa talað hér af dálitlu ráðleysi. Mér finnst þingmenn vera ráðlausir gagnvart þessari búsetuþróun. Ég held og tel að eftirfarandi þurfi að gera til að laga stöðu landsbyggðarinnar: Í fyrsta lagi að auka frelsið eins og mögulegt er. Það hefur sýnt sig að frelsið lagar stöðu landsbyggðarinnar frekar en ekki. Svo þurfum við að lækka skatta á fólk og fyrirtæki og við þurfum að selja bankana, eins og hér hefur komið fram. Selja bankana þannig að þeir hætti að vera, nánast samkvæmt lögum, staðsettir í Reykjvík. Við þurfum líka að selja Póst og síma því hann vinnur ekki enn þá eins og hann ætti að vinna þ.e. í fullri samkeppni, þó síðasta aðgerð hans sé reyndar mjög góð fyrir landsbyggðina, þ.e. sama gjald fyrir símtöl um allt land.

Og svo, herra forseti, legg ég til að Byggðastofnun verði lögð niður. Það held ég að landsbyggðinni sé fyrir bestu.