Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 16:58:43 (1227)

1997-11-13 16:58:43# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[16:58]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 16. þm. Reykv., átti góða spretti í ræðu sinni og ég var honum sammála um margt, t.d. því að fréttaflutningur og umtal um landsbyggðina skipti miklu máli og að gott sé að búa úti á landi og menn ættu að halda því á lofti. Ég er honum innilega sammála um það. Það var samt eitt atriði sem ég hjó eftir í ræðu hans að hægt er að fá þá tilfinningu, eftir ræðuna, að vitlausar fjárfestingar eigi lögheimili úti á landsbyggðinni. Það er nú því miður ekki svo og það er vandamál sem hefur gengið í gegnum allt þjóðfélagið. Og ef leitað er og horft á þær afskriftir sem hafa verið í bankakerfinu, þá eru þær nú mestar í Reykjavík, í verslun og viðskiptum og í veitingastarfsemi. Þetta liggur fyrir þannig að því miður er það nú ekki svo að vitlausar fjárfestingar, sem stafa af kjördæmapoti landsbyggðarþingmanna, séu einu áföllin sem hafa dunið yfir hér á landi. Þetta vandamál er miklu víðtækara en svo.

Varðandi hafnamál þá hafa auðvitað orðið þjóðfélagsbreytingar frá því ýmsar smærri hafnir voru byggðar upp og miklar breytingar í samgöngukerfinu sem verða alltaf. Það verður alltaf slík þróun sem kannski er ekki hægt að sjá fyrir á þeim tímum sem ráðist er í fjárfestingarnar. Nú eru allir flutningar að fara upp á land og það gerir það auðvitað að verkum að viðskipti eru minni við smærri hafnir. Það eru ástæðurnar fyrir því.