Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:01:10 (1228)

1997-11-13 17:01:10# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að vitlausar fjárfestingar hafa átt sér stað og þær munu ætíð eiga sér stað vegna þess að það er áhætta í atvinnurekstri. En í Reykjavík hefur ekki verið farið út í sérstakt verkefni til að leiðrétta þær fjárfestingar. Menn hafa bara staðið og fallið með fjárfestingum sínum. Fyrirtæki og einstaklingar hafa orðið gjaldþrota. Engum hefur dottið í hug að setja á einhverja Byggðastofnun til að bjarga kaupmanninum á horninu í Reykjavík þegar sú þróun varð að Íslendingar fóru að versla í stórmörkuðum. Það hefði engum dottið í hug. Munurinn er sá að úti á landi skal þessum mönnum bjargað hvað sem það kostar en ekki í Reykjavík. Þetta hefur hjálpað Reykvíkingum því að þar er búið að hreinsa til. Menn hafa orðið gjaldþrota, nýir aðilar koma inn í fyrirtækið ef það er á annað borð rekstrarhæft en úti á landi hafa ekki komið inn nýir aðilar, ekki fyrr en seint og um síðir. Það er hægt á slíkri þróun úti á landi með því að veita þessa styrki.