Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:02:19 (1229)

1997-11-13 17:02:19# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:02]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að það sé svo einfalt að búið sé að hreinsa til í eitt skipti fyrir öll í Reykjavík og að ekki verði lengur um gjaldþrot að ræða. Auðvitað er rangt að draga svo einfalda mynd að menn hafi orðið gjaldþrota í Reykjavík og enginn hafi komið til aðstoðar en úti á landi hafi í öllum tilfellum verið komið til aðstoðar við þá sem lent hafa í erfiðleikum. Því miður verða gjaldþrotin um allt land. Hins vegar hafa verið aðgerðir til hjálpar fyrirtækjum sem voru ráðandi í atvinnulífi úti um landsbyggðina. Það hafa verið aðgerðir þeim til stuðnings. Ef það hefði ekki verið gert liti byggðamunstrið allt öðruvísi út en það gerir í dag. Þessar aðgerðir voru gerðar af byggðaástæðum. Hins vegar hafa fyrirtæki út um landsbyggðina því miður orðið gjaldþrota eins og fyrirtæki annars staðar í landinu. Því miður er hægt að nefna mörg dæmi um það. Ég er ekki að draga þetta upp til að niðra verslun í höfuðborginni en við verðum að tala um allt landið í heild þegar við erum að tala um óarðbærar fjárfestingar en þær eru því miður alls staðar til.