Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:04:14 (1230)

1997-11-13 17:04:14# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að breytingar hefðu getað orðið á byggðamunstri við gjaldþrot. Ég tel að þær hefðu ekkert orðið. Þótt fyrirtækin, sem voru undirstaða atvinnureksturs í viðkomandi byggðarlagi, hefðu farið á hausinn héldi reksturinn að sjálfsögðu áfram. Það kæmu bara nýir eigendur sem kunnu að stjórna eða kunnu að taka mið af þeim breytingum sem höfðu átt sér stað. Yfirleitt eru vandræði fyrirtækjanna annaðhvort vegna þess að þeim er illa stjórnað eða vegna breytinga í umhverfi þeirra sem þau hafa ekki tekið mið af. Nýir eigendur sem hefðu komið að þeim hefðu verið fljótari að aðlaga fyrirtækin. Sá styrkur sem hefur verið veittur hefur ekki forðað gjaldþrotinu, hann hefur frestað því. Gjaldþrotið kom fyrr eða seinna vegna þess að fyrirtækin voru áfram rekin illa eða þá að umhverfi þeirra var áfram breytt. Styrkurinn frestaði einungis því gjaldþroti sem hlaut að koma.