Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:31:00 (1233)

1997-11-13 17:31:00# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:31]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég þykist verða þess vís að þessari umræðu sé nú að ljúka og er eins gott að tala gætilega hér í lokin svo ekki verði vakin upp á ný, enda er aðalerindi mitt að þakka fyrir þessa umræðu. Reyndar lagði hæstv. forsrh. inn góð orð í síðari hluta hennar og skýrði þar þau viðhorf sem að sjálfsögðu snúa helst að Byggðastofnun í þessum efnum. Það er þó einkum tvennt sem ég vil sérstaklega minnast á hér í lokin. Í fyrra lagi hlýt ég að þakka þann stuðning sem hefur komið fram við þá ákvörðun Byggðastofnunar að flytja hluta stofnunarinnar norður á Sauðárkók. Ég gat reyndar átt von á því að þar kæmu fram einhver andmæli. Fjölmiðlarnir hafa verið á ferðinni, Morgunblaðið og aðrar fjölmiðlastofnanir. Minna þarf nú til til þess að koma af stað óróleika í kringum slíkar ákvarðanir. Þegar minnst hefur verið á þessa ráðstöfun í þessum umræðum hefur hins vegar allt verið á einn veg, til stuðnings við þá ákvörðun stofnunarinnar að flytja þróunarsviðið norður á Sauðárkrók.

Það kom mér reyndar á óvart hve tillaga mín sem ég lagði fram fyrir rúmum mánuði síðan naut mikils stuðnings í stjórn Byggðastofnunar. Þá lá reyndar fyrir að af hendi stjórnarmanna var nægur vilji til að ganga lengra í þessum efnum heldur en tillagan náði til. Ég tel hins vegar að þetta hafi verið skynsamleg ráðstöfun. Þetta er verkefni sem hægt er að koma í framkvæmd með hægu móti. Ég er sannfærður um að það muni styðja þróun byggðamála hér á landi. Ég trúi því að hafi einhverjir búist við að hér yrði eitthvað hikað eða hopað þá geri þeir sér grein fyrir því að slíkt er auðvitað víðs fjarri.

Hitt atriðið sem ég vildi aðeins minnast á líka er það starf sem Byggðastofnun stendur nú frammi fyrir um gerð nýrrar áætlunar um byggðamál eins og lög kveða á um og hæstv. forsrh. hefur kunngert. Ég tek sérstaklega undir þau orð forsrh. að sú tillaga eða sú stefnumótun sem fyrir liggur var barn síns tíma og það er alveg ljóst að það er vilji stjórnar stofnunarinnar að kveða skýrar og markvissar að orði í þeirri ályktun sem nú er í undirbúningi. Mér er fullljóst að þar er okkur mikill vandi á höndum enda höfum við kvatt til liðsinnis við okkur ýmsa aðila, stofnanir og einstaklinga, og þar á meðal háskólana tvo, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Ég held að þetta hafi verið góður gjörningur, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur lifnað síðustu daga vegna skýrslu Aflvaka. Það er áreiðanlega afar mikilvægt að að þessum málum komi óvilhallir aðilar og að til grundvallar verði lögð fagleg og skýr vinnubrögð.

Ég er sannfærður um að stjórn Byggðastofnunar mun leggja sig fram um að vinna þetta verk og setja í það tíma og það liggur alveg ljóst fyrir að í þeirri vinnu mun ekki steyta á neinum sérstökum pólitískum skerjum þótt auðvitað hafi menn um þessi efni misjafnar skoðanir.

Virðulegur forseti. Ég endurtek svo það sem ég sagði hér í upphafi að ég er afar þakklátur fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið málefnalegri heldur en í flesta aðra tíma. Hún hefur verið einarðari og skýrari gagnvart stuðningi við byggðir landsins og hefur það reyndar komið fram án tillits til þess hvar hv. þm. eiga búsetu. Þetta tel ég afar mikilvægt að liggi fyrir við lok umræðunnar.