Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:38:25 (1234)

1997-11-13 17:38:25# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:38]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um staðsetningu nýrra ríkisfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni á þskj. 215. Flm. ásamt mér er hv. þm. Tómas Ingi Olrich.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stefnumörkun um hvernig tryggja megi aukna hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu með því að staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins þar sem það er mögulegt.``

Tillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu, fór reyndar til allshn., og er því lögð fram að nýju.

Eins og reyndar kom töluvert fram í þeirri umræðu um byggðamál sem hér hefur staðið í allan dag þá hefur talsvert verið rætt um það á undanförnum árum hvernig mætti eða hvort ætti yfir höfuð að flytja ríkisstofnanir út á land. Við þekkjum öll þessa umræðu. Hún hefur oft á tíðum orðið sársaukafull þótt mér hafi oftast nær fundist hún óskiljanleg vegna þess að auðvitað eru fyrir því fullkomin rök að ríkisstofnanir séu staðsettar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel sjálfur að kannski megi skipta þessu máli í þrennt. Verkefnunum megi skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er auðvitað hið almenna og hefur oftast verið í umræðunni, það er að flytja ríkisstofnanir í heilu lagi út á land. Í öðru lagi að flytja tiltekna starfsemi úr einhverjum stofnunum út á landsbyggðina. Það er það sem verið er að gera núna hjá Byggðastofnun. Í stað þess að taka stofnun í heilu lagi og flytja hana á annan stað er verið að marka þá stefnu að skilgreina tiltekin verkefni og flytja þau út á landsbyggðina. Það er þannig í dag að þetta er mjög einfaldur hlutur. Það er mjög einfalt að gera þetta svona og skilar oft á tíðum miklu meiri árangri. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur gert þetta á Akureyri með mjög góðum árangri. Blaðið Dagur er rekið þannig. Morgunblaðið er með öfluga ritstjórn á Akureyri og fyrirtæki í olíudreifingu og flutningum skipta starfsemi sinni niður með þessum hætti einfaldlega vegna þess að það eru mikil rök fyrir því. Það er mjög skynsamlegt og eðlilegt að gera þetta með þessum hætti. Þess vegna er mjög einkennilegt þegar menn bregðast við flutningi tiltekinnar starfsemi á einhvern stað fjarri höfuðstöðvum eins og ógnun við starfsemi þeirra stofnana eða fyrirtækja. Það er öðru nær. Þessi skipulagsbreyting er auðvitað í átt við það sem gerist í nútímaþjóðfélagi og er auðvitað bara það að menn eru að nota sér þá tækni sem býður upp á þessa möguleika.

Það sem gerir þennan kost líka auðveldari er sú staðreynd að unnt er að gera sérstaka þjónustusamninga við hið opinbera um tiltekin verkefni og ég held að það sé hlutur sem menn þurfi að horfa miklu meira á í framtíðinni. Síðast en ekki síst er raunar sú hugmynd sem verið er að mæla fyrir í þessari þáltill. og það er að staðsetja nýjar stofnanir sem ríkið er að koma á laggirnar úti á landsbyggðinni. Slíkar stofnanir eiga sér þá ekki forsögu. Ekki er hægt að benda á að verið sé að neyða starfsmenn til að flytja búferlum eins og er oft hin algenga viðbára og þeir erfiðleikar sem við verðum oft vör við þegar verið er að flytja gamlar og grónar stofnanir ættu ekki að vera til staðar. Vandinn er hins vegar oft á tíðum sá að þær stofnanir sem verið er að stofna eiga sér einhverjar gamlar rætur eða forsögu og þá verður auðvitað að skoða það sérstaklega.

En hvers vegna erum við að velta þessu fyrir okkur? Af hverju erum við að velta því fyrir okkur að staðsetja ríkisstofnanir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu? Í fyrsta lagi tel ég að það þurfi að fara fram sérstök röksemdafærsla þegar verið er að velja einhverri stofnun stað. Ég tel að það þurfi ekki síður að rökstyðja það að stofnun er sett niður í Reykjavík en að stofnun er sett niður norður á Akureyri, á Ísafirði eða á Sauðárkróki, svo ég taki dæmi. Að sjálfsögðu þarf að fara fram alveg sama röksemdafærslan. Það er ekkert náttúrulögmál sem segir að stórar stofnanir á vegum hins opinbera eigi og þurfi og geti ekki annað en verið á höfuðborgarsvæðinu. Það sem gerir þetta kannski enn þá meira knýjandi er sú staðreynd að hið opinbera er auðvitað langsamlega stærsti vinnuveitandi Íslendinga.

Árið 1994, en þessi tillaga styðst við tölur frá því ári, voru unnin 34.614 ársverk á vegum hins opinbera, þar af 22.982 á höfuðborgarsvæðinu. Það svarar til þess að tvö af hverjum þremur ársverkum hjá hinu opinbera séu unnin á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum 1984--1995 fjölgaði ársverkum á vegum hins opinbera um 5.648 á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni einungis um 2.114 ársverk. Mismunurinn er 3.534 ársverk. Það gefur auðvitað auga leið að þetta ræður býsna miklu um búsetu fólks. Þegar fólk stendur frammi fyrir því að möguleikar þess á atvinnu á tilteknu sviði eru bara á höfuðborgarsvæðinu, þá á fólk ekkert val, það er ekkert spurt. Það getur ekki valið sér búsetu þegar menntun þess byggist á einhverri tiltekinni prófgráðu sem gefur einungis réttindi eða möguleika á starfi hjá hinu opinbera og hið opinbera velur starfsemi sinni stað á höfuðborgarsvæðinu. Val fólks sem sífellt er verið að tala um í byggðaumræðunni er því ekkert. Stundum er sagt að fólk eigi að velja sér sína búsetu sjálft. Það er alveg rétt. En þá verður auðvitað að gefa spilin þannig að fólk geti valið sér búsetu. Ekki þannig að hún sé valin fyrir það með því að öll atvinnustarfsemi fari fram á einum stað og menn standi frammi fyrir því að geta aðeins unnið á þeim eina stað en ekki neinum öðrum. Það er kannski angi af þessari hugsun sem býr að baki tillögunni, sem sagt þeirri hugsun að reyna að búa til val fyrir unga fólkið í landinu.

[17:45]

Ég hitti mektarmann norður á Ströndum í sumar og við tókum tal saman og hann sagði við mig orð sem hafa fest mjög í huga mér. Hann sagði við mig: ,,Það er ekki framleiðslustjórnun í landbúnaði eða sjávarútvegi sem mun gera út af við byggðirnar. Það er menntunin.`` Ég hélt satt að segja í upphafi að hann hefði átt við þennan mikla kostnað sem við þekkjum hjá fólki á landsbyggðinni, við að senda börnin sín til mennta. Það var ekki það sem hann átti við. Hann sagði einfaldlega: ,,Hvað á unga fólkið okkar sem fer til þess að leita sér menntunar að gera að námi loknu? Það á ekkert val. Það kemst ekki heim vegna þess að atvinnutækifærin eru ekki til staðar.`` Auðvitað er þetta ekki bara mál sem snýr að hinu opinbera. Þetta snýr líka að því að reyna að skapa grundvöll til þess að búa til fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri á öðrum sviðum. Það erum við að gera með því að efla stuðning við atvinnuþróunarfélögin til að reyna að laða fram kraftana sem búa heima í héruðunum. En hið opinbera er líka stærsti atvinnurekandinn og hið opinbera ræður þess vegna gríðarlega miklu um það hvar fólk getur kosið sér búsetu.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég held að skipti svo miklu máli og sé þáttur sem við verðum að horfa miklu stífar til, þ.e. hvar hið opinbera kýs að koma fyrirtækjum sínum og stofnunum fyrir. Við erum kannski að horfa á þetta í alveg nýju ljósi núna vegna þess að möguleikarnir til staðsetningar eru orðnir miklu fleiri en áður. Fjarskiptin gera það einfaldlega að verkum að oft á tíðum skiptir engu máli hvar menn vinna þessi störf. Menn geta unnið þróunarvinnu fyrir Byggðastofnun jafnt á Sauðárkróki sem í Reykjavík. Menn geta unnið við það að selja fisk bæði á Akureyri sem og í Reykjavík og menn geta unnið við hvers konar tækniþjónustu nánast hvar sem er á landinu. Þess vegna, virðulegi forseti, hníga öll rök að því að staðsetning fyrirtækja, jafnt hjá hinu opinbera og á almennum markaði, taki miklum breytingum og í ljósi þess er þessi tillaga lögð hér fram.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.