Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:47:58 (1235)

1997-11-13 17:47:58# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:47]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa stuðningi við þessa tillögu og taka undir efni hennar og taka undir það sem segir í grg., að staðsetning ríkisfyrirtækja og stjórnsýslu hins opinbera getur ráðið miklu um það hvar fólk velur sér búsetu. Ef við ferðumst um byggðir landsins sjáum við að þar sem er opinber þjónusta þá eykur hún fjölbreytnina í atvinnulífi og mannlífi viðkomandi staða. Við ræddum skoðanakönnun sem gerð var í sumar í umræðunni um byggðamálin í dag sem sýndi að fólk á landsbyggðinni var hvað óánægðast með einhæfni atvinnulífsins. Það er auðvitað eitt af því sem dregur úr einhæfninni þegar hægt er að vera með opinbera þjónustu og opinbera starfsemi í byggðunum úti á landi.

Það kemur einnig fram í þessari grg. að 2/3 hlutar ársverka hins opinbera hafi verið á höfuðborgarsvæðinu árið 1994, eða tæp 23.000 störf og trúlega hefur þetta hlutfall heldur hækkað en lækkað síðan. Margt af þessari starfsemi á hvergi heima nema á höfuðborgarsvæðinu en það er líka svo að sum af þessum fyrirtækjum og þessari starfsemi ættu mjög vel heima úti á landi.

Umræður um flutning ríkisstofnana hafa staðið lengi, ég held eins lengi og ég hef fylgst með umræðu um þjóðmál á Íslandi. Allir flokkar og flestar ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa haft það á stefnuskrám sínum að flytja opinbera starfsemi frá höfuðborgarsvæðinu og út á land en það hefur orðið lítið um efndir. Það er kannski vegna þess að þetta er mjög erfitt og vekur mjög hörð viðbrögð eins og við sjáum varðandi þessi fáu dæmi sem eru um slíka tilflutninga. Við minnumst viðbragðanna við flutningi veiðistjóraembættisins til Akureyrar, mjög harðra viðbragða starfsmanna Landmælinga við ákvörðun hæstv. umhvrh. um að flytja þá stofnun frá Reykjavík á síðasta ári og þau mótmæli standa reyndar enn. Við höfum fylgst með viðbrögðum við ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar um að flytja lítinn hluta af starfsemi hennar norður í land, þróunarsviðið. Það hefur vakið mjög hörð viðbrögð hjá starfsmönnum og reyndar ýmsum fjölmiðlum eins og hér hefur verið bent á. Ég held að megi marka það af þessum viðbrögðum að það verði ekki mikið um slíka flutninga á næstu árum. Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 1994--1997, sem var samþykkt hér á Alþingi í maí 1994, segir, með leyfi forseta:

,,Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi.``

Ég hallast helst að því, með tilliti til viðbragðanna við flutningi opinberra stofnana sem átt hefur sér stað, að þessi tillaga sé kannski raunhæfasta lausnin á þessu máli, með öðrum orðum að reikna með að ný starfsemi hins opinbera verði úti á landi, þ.e. að staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins þar sem það er mögulegt, eins og segir í tillögunni. Þess vegna er ég sammála henni og að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa stefnumörkun um hvernig tryggja megi að þetta geti átt sér stað.