Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:51:56 (1236)

1997-11-13 17:51:56# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er endurflutt, kom fram á síðasta þingi, er góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Ég tjáði mig þá um málið og það væri góðs viti ef ríkisstjórnin hefði sig í það að taka undir einhverja slíka stefnu sem hér er sett fram. En þetta er ekki stjtill. og enn kemur málið fram án þess að nokkur viðbrögð komi frá ríkisstjórn um efni þess, þ.e. að undirbúa stefnumörkun um að auka hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu.

Þær aðgerðir sem fram hafa komið af hálfu ríkisstjórnar í þessum málum eru satt að segja slíkar að þær eru frekar til þess fallnar að girða fyrir framgang þeirrar almennu stefnu að flytja þjónustuþætti á vegum ríkisins út á land. Einmitt þau atriði sem hv. síðasti ræðumaður nefndi hér, vinnubrögðin við áformaðan flutning Landmælinga upp á Skaga, upp á Akranes og svo síðasta afrekið í þessum efnum varðandi þróunarsvið Byggðastofnunar sem stjórn Byggðastofnunar hefur ákveðið að flytja til Sauðárkróks, eru síst til þess fallin að tekið sé skynsamlega á þessum málum og stefna mörkuð. Báðar aðgerðirnar eru handahófslegar og illa undirbúnar. Það sem skortir er skýr og jákvæð stefnumörkun í þessum málum og að settar verði reglur um það hvernig eigi að undirbúa slík mál þannig að einstakir ráðherrar og einstakar stjórnir stofnana grípi ekki til illa undirbúinna og handahófslegra ráðstafana sem vekja upp mótmæli og andúð þeirra sem hlut eiga að máli, m.a. vegna þess að ekki er farið að eðlilegum reglum við undirbúning ákvarðana. Við vitum um starf margra nefnda sem hafa unnið að tillögugerð fyrir stjórnvöld á þessu sviði. Þær eru orðnar nokkuð margar nefndirnar sem hafa skilað áliti og allt hefur þetta í rauninni verið talað út í vindinn nema síðan þessi fálmkenndu vinnubrögð einstakra ráðherra og nú síðast stjórnar Byggðastofnunar í sambandi við þróunarsvið Byggðastofnunar.

Ég harma að svona skuli staðið að verki. Það sem á að gera, fyrir utan það að athuga mál er varða nýjar stofnanir, er að taka einstaka þjónustuþætti hins opinbera sem þarf að sinna í kjördæmum landsins --- sem eru ágætar einingar til að byggja á í sambandi við stjórnsýslu og hefðu þess vegna átt að vera skilgreind sem fylki eða héruð í landinu eins og sá sem hér talar hefur ítrekað lagt til á Alþingi --- þjónustu sem nú er í stórum stofnunum í höfuðborginni og sem varðar einstök svæði og flytja hana út í kjördæmin. Það er leiðin. Það er hin jákvæða og eðlilega leið sem fyrir löngu átti að fara í þessum málum. Á meðan menn ekki bregða á það ráð komast menn skammt í þessum efnum.

Það mætti tína upp þjónustuþætti úr öllum hinum stóru stofnunum allt frá heilbrigðismálum og menntamálum yfir í aðra þætti sem varða miklu. Ég get nefnt Húsnæðisstofnun ríkisins sem ágætt dæmi um þjónustu sem ætti auðvitað að vera sinnt á viðkomandi svæðum, þetta margir þættir sem um er að ræða. Það er hægt að taka öll helstu svið á vettvangi ríkisvaldsins og benda á að þeim væri eðlilega fyrir komið úti í kjördæmum landsins. Þannig sköpuðust verkefni þar og þekking og þjónustan væri auk þess nær íbúunuum.

Hugmyndir um að rífa upp einstakar, stórar stofnanir á vegum ríkisins sem nú eru í höfuðstaðnum eru mjög illa til þess fallnar að fá undirtektir og hafa þann ókost í för með sér að þá er verið að afnema eða vinna gegn því jákvæða sem þó fylgir höfuðstað og alls ekki ber að horfa fram hjá, þ.e. að höfuðborgin er miðstöð stjórnsýslunnar en einstakir þjónsutuþættir hins vegar byggðir upp svæðisbundið. Þetta er sú stefna sem ég hef mælt fyrir.

Á síðasta þingi var til umræðu till. til þál. um að settar yrðu reglur að því er snertir undibúning að flutningi opinberrar starfsemi. Ég geri ráð fyrir því að flytja það mál síðar á þessu þingi, e.t.v. í eitthvað breyttum búningi ef ástæða þykir til. En mér sýnist engin vanþörf á að minna á nauðsyn þess að setja reglur um þessi mál ef það mætti verða til þess að stjórnvöld og aðrir sem ákvarðanir taka horfi aðeins fram fyrir sig áður en það er gert og vandi undirbúning og að réttarstaða þeirra sem hlut eiga að máli sé sem skýrust.