Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:03:15 (1239)

1997-11-13 18:03:15# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:03]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Örfá orð. Ef til vill hefði þessi umræða orðið betri ef við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefðum átt orðastað í dag þegar málið um Byggðastofnun var á dagskrá. En hann talaði öðruvísi í dag. Auðvitað er rétt að taka það fram ef einhver vafi er hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að stjórnin öll, stjórn Byggðastofnunar, hefur tekið ákvörðun um að flytja hluta af starfsemi Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Til þess hefur hún rétt og á að taka þá ákvörðun.

Hv. þm. sagði að Byggðastofnun eða þróunarsviðið skipti ekki svo máli. Það var nefnilega það sem kom fram í máli hans þegar hann fór yfir sviðið út frá þeirri ágætu tillögu hv. 1. þm. Vestf., Einars K. Guðfinnssonar, sem er hin besta tillaga og ég vil nota tækifærið og lýsa stuðningi við hana. En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson brá á það ráð að víkja frá þeirri tillögu og fór að tala um afstöðu Byggðastofnunar til flutnings á þróunarsviði til Sauðárkróks. Það er bara annað mál. Það hefði betur verið rætt í dag.

Ég vil aðeins mótmæla því sem hv. þm. segir í þessu máli að Byggðastofnun, stjórn Byggðastofnunar, er sá rétti aðili sem um þetta á að fjalla. Ég greiddi atkvæði með því hér í þinginu að flytja Skógrækt ríkisins austur á Hérað. Ég vænti þess að það hafi verið vel ráðið. En vegna þess hvernig hv. þm. talaði þá lá beint við að spyrja hvort sú ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar að flytja hluta af starfsemi stofnunarinnar norður á Sauðárkrók hafi verið jafnilla grunduð eins og hann fullyrti. Það er ekki illa grundað. Það er mál sem menn hafa lengi velt fyrir sér, hv. þm.