Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:13:42 (1242)

1997-11-13 18:13:42# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þörfin fyrir almennar reglur m.a. að því er varðar starfsmenn opinberra stofnana er einfaldlega brýn til að leikreglurnar séu skýrar, til að komið sé í veg fyrir valdníðslu og til að greiða fyrir því að flutningi sem ákveðinn er fylgi skilmerkilegur undirbúningur og það sé líklegt að hann gangi fram án þess að viðkomandi stofnun brotni niður ef þannig er lagt í málið. Ég held að við höfum rætt alveg skýrt dæmi um það þar sem mjög illa var haldið á máli og niðurstaðan geti orðið brotlending fyrir viðkomandi stofnun. Ekki meira um það.

Ég vísa til ágæts dæmis fyrir farsælli uppbyggingu opinberrar þjónustu, svæðisbundið, sem sá sem hér talar hefur undirbúið og staðið að og ég held að sé lýsandi dæmi um hvernig hægt er á jákvæðan hátt að ná fram slíkri þróun.

Árið 1980 voru sett lög um iðnráðgjafa. Lög sem hafa leitt til þeirrar þróunar, sem nú er undir hatti Byggðastofnunar eða stutt af henni og má vel nefna hér, sem eru atvinnuþróunarfélög í landshlutunum. Það hefur breikkað og ekki nema gott um það að segja. Þetta var jákvæð aðgerð af því að hún miðaði við þarfir og svæðaskiptingu í landinu.

Annað dæmi eru náttúrustofurnar sem sérstök lög voru sett um 1992 og eru að rísa ein af annarri í kjördæmum landsins með samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Því skylt eru lög sem undirbúin voru í nefnd sem ég veitti forstöðu á sínum tíma, árið 1989 og 1990, um setur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Heimild til að byggja upp ákveðin rannsóknasetur á vegum ríkisins, á vegum þeirrar stofnunar. (Forseti hringir.) Allt hefur þetta þróast og gengið fram með jákvæðum hætti og ætti að geta verið mönnum lýsandi dæmi um hvernig hægt er að þoka slíkum málum fram (Forseti hringir.) án þess að stór ófriður sé um það.