Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:16:37 (1243)

1997-11-13 18:16:37# 122. lþ. 25.4 fundur 26. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heiti sveitarfélaga) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:16]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.

Frv. sem kom fram á síðasta þingi og reyndar á því næstsíðasta líka, er nú flutt hér í þriðja sinn um mjög svo tímabærar breytingar á þessum lögum. Það efni sem hér er tekið fyrir varðar annmarka á gildandi sveitarstjórnarlögum frá 1986 sem ég held að nokkuð víðtæk samstaða sé um að þurfi breytinga við. Þar er ekki síst um að ræða ákvæði um mismunandi heiti sveitarfélaga eftir íbúafjölda þar sem njörvað er niður í lögum að sveitarfélög beri ákveðin heiti eftir fjölda, miðað við 1.000 manns eða færri eða fleiri. Á því er tekið með þessu frv. Það eru lagðar til breytingar um þetta efni og jafnframt kveðið skýrt á um heiti formanns og framkvæmdastjóra sveitarstjórnar, svo og heiti framkvæmdanefndar sveitarfélagsins. Allar þessar breytingar lúta að því að afnema lögbindingu á nafngiftum eftir íbúafjölda en festa í sessi tiltekin samheiti fyrir öll sveitarfélög, svo sem sveitarstjórn, oddviti, sveitarstjóri og byggðarráð. Frv. gerir enn fremur ráð fyrir að sveitarstjórn sé í sjálfsvald sett að nota jafnframt aðrar nafngiftir á stöðuheitum og binda í samþykktir sínar.

Eins og kveðið er á um í 1. gr. frv. þá er gert ráð fyrir að sveitarfélögin ákveði sjálf nafngift sína en þurfi staðfestingu félmrn. sem er eingöngu hugsað til þess að tryggt sé að ákveðið samræmi og leiðsögn ef sérstök ástæða þykir til en meginreglan verði að sveitarfélögin ákveði þetta sjálf.

Eftir að frv. var fyrst flutt hefur komið fram ríkur stuðningur við þessi efni, alveg sérstaklega að því er varðar nafngiftir sveitarfélaga og raunar tók hæstv. félmrh. sig til á síðasta þingi, eftir að frv. var fram komið, að flytja hér sérstakt frv., 538. mál síðasta þings, um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem tekið er undir þá tillögu sem er í 1. gr. þessa frv. Það hefði auðvitað verið skynsamlegt fyrir hæstv. félmrh. að taka undir það frv. sem þá var þegar komið til félmn. og styðja þá tillögu. En sálfræðin er nú svona að ráðherrar á hverjum tíma virðast eiga erfitt með að taka undir þingmannafrv. og það gerðist varðandi þetta. Maður skyldi ætla að þessu máli hefði þá verið framfylgt af stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi en svo var ekki því þetta frv. hæstv. félmrh. dagaði uppi og hefur ekki verið endurflutt. Það ekki til fyrirmyndar, að mínu mati, að standa þannig að máli.

Í umsögnum við frv. á síðasta þingi, það frv. sem ég mæli hér fyrir, kom eindreginn stuðningur frá ýmsum aðilum, alveg sérstaklega að því er varðar nafngiftirnar. Margir aðilar af sveitarstjórnarvettvangi, samtök sveitarstjórna í kjördæmum landsins, tóku efnislega undir frv. eða gerðu ekki athugasemdir við efni þess. Athugasemd af öðrum toga kom hins vegar frá Reykjavíkurborg, svo dæmi sé tekið, sem mælti með því að frv. gengi ekki fram. Það sem virtist einkum fara í taugarnar á talsmönnum Reykjavíkurborgar var að heiti borgarinnar og starfsmanna Reykjavíkurborgar yrðu ekki lengur lögvernduð. Mér finnst full rök vera fyrir því að láta eitt yfir öll sveitarfélög ganga, borgarstjórinn í Reykjavík heiti því ágæta nafni sveitarstjóri en heimild sé til þess að halda nafninu borgarstjóri í samþykktum sveitarfélagsins Reykjavík. Þannig geti það haldið slíkum heitum --- vegtyllum sem vel mætti kalla svo, en þess verði gætt í lögum að sveitarstjórnarstigið er eitt og óskipt og heiti þeirra að því er varðar lagabindingu séu hin sömu og samræmd. Þetta er enn þá sjálfsagðara eftir að sýslur voru aflagðar með lögum 1986, gjörningi sem virðist hafa gleymst hjá mörgum, m.a. í ráðuneytunum þar sem menn tala enn um sýslur eins og þær séu lögbundnar einingar. Og kom það raunar fram í öðru efnisatriði frv. félmrh. á síðasta þingi að staðarmörk sveitarfélaga yrðu ákveðin svæðisbundið með skýrum hætti og þar kveðið á um, með leyfi forseta:

,,Skal miðað við sýslumörk þar sem það á við, en heimilt er að víkja frá þeim með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna.``

Hæstv. félmrh. er í þessu tilviki að vísa til sýslna og sýslumarka sem eru eðli máls samkvæmt ekki lengur til staðar. Sýslurnar hafa enga stöðu, mörk þeirra hafa enga stöðu í löggjöf og því mjög sérkennilegt að hæstv. félmrh. sé að kveða á um viðmiðanir í því sambandi. Sem kunnugt er eru umdæmin sýslur á reiki og þegar farið að brjóta þau niður í sambandi við lögsagnarumdæmi þannig að það væri skynsamlegt að taka tillit til þess af hálfu hins opinbera. Það er ekki viðfangsefni þessa frv. Hér er ekki vikið að sýslum en rétt minnt á það í grg. að þær eru ekki lengur einingar í landinu eftir breytingu á lögum 1986 þegar þær voru aflagðar.

Þetta frv. skýrir sig í rauninni sjálft að öðru leyti og ég vil aðeins minna á að efni þess er jafnbrýnt og sjálfsagt og áður. Talsmenn ríkisstjórnar og sum sveitarfélög hafa vísað til þess að sveitarstjórnarlög séu í endurskoðun. Og það er nú oft svo að brugðið er á það, þegar tillögur koma um lagabætur sem víðtæk samstaða er um, að vísað er til þess að það sé verið að endurskoða viðkomandi lagabálk. Ég tel að það megi gjarnan breyta lögum þegar svona góð samstaða er um það fremur en að bíða eftir óvissri heildarendurskoðun laga. Eitthvað er djúpt á þessari endurskoðun, a.m.k. engar tillögur komnar frá Stjórnarráðinu um heildstæða endurskoðun sveitarstjórnarlaga sem sjálfsagt er brýnt verkefni en á meðan að það kemur ekki fram þá er eðlilegt að efnislega sé tekin afstaða til tillagna eins og þeirra sem liggja fyrir samkvæmt þessu frv. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn. þingsins.