Hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:11:22 (1251)

1997-11-17 15:11:22# 122. lþ. 26.1 fundur 89#B hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er að gera verulegt átak varðandi hjúkrunarrými í Reykjavíkurborg. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að 300 millj. kr. verði varið á næsta ári til reksturs nýrra heimila og þar á meðal til Skógarbæjar. Í dag eru 48 ný rúm sem tekin voru í notkun á þessu ári og yfir 30 ný rúm verða tekin í notkun á næsta ári.

Varðandi samning við Reykjavíkurborg þá hefur heilbrrn. ekki gert samning við borgina. Þannig er að ríkið rekur öll þessi hjúkrunarheimili en Reykjavíkurborg og Rauði krossinn hafa komið með viss framlög til framkvæmda en ekki til rekstrar. Það sem uppi er í heilbrrn. er að nýta Víðines og Vífilsstaði á næsta ári. Það mun gerast hraðar en að byggja meira en orðið er. En ég minni á að þessar nýju 300 millj. sem lagðar verða til á næsta ári munu gjörbreyta ástandinu.