Ritakaupasjóður háskólans

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:30:34 (1268)

1997-11-17 15:30:34# 122. lþ. 26.1 fundur 93#B ritakaupasjóður háskólans# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að menn standa frammi fyrir því í háskólastofnunum hér eins og annars staðar að tímarit hækka í verði, þeim fækkar og sífellt verður erfiðara fyrir háskóla að verða sér úti um slík rit. Ekki hefur verið gerð tillaga um það af hálfu menntmrn. í fjárlagafrv. sem fyrir liggur að þessi upphæð verði hækkuð frá því á síðasta ári. Hins vegar hefur það gerst að tekist hafa samningar á milli Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns og Háskóla Íslands um þessi mál, sem er nýmæli, og var gengið frá á síðasta ári. Ég held að þróunin í þessum málum sé í réttum farvegi hér eins og annars staðar. Það er einnig rétt, sem fram hefur komið, að Háskóli Íslands hefur gert þetta viðfangsefni að sérstöku álitamáli nú við afgreiðslu fjárlaga og beint sérstakri athygli að þessum vanda, sem er mikill hér eins og alls staðar annars staðar, og þarf að bregðast við.

Í gær, á degi íslenskrar tungu, var opnuð heimasíða eða vefsíða um Jónas Hallgrímsson við Wisconsin háskóla í Madison í Bandaríkjunum. Hjá þeim sem stóðu að þeirri síðu kemur fram að hún er m.a. svar við því að sífellt er erfiðara fyrir háskóla að fjárfesta í tímaritum. Tímaritaútgáfa dregst saman og nota verður nýjar boðleiðir til að koma efni á framfæri sem allir geti notið, m.a. þann nýja miðil sem er internetið og þá kosti sem það hefur að bjóða. Að þessu þurfum við einnig að vinna en við þurfum að sjálfsögðu að leita allra leiða til þess að tryggja að hér sé nægilegur gagnagrunnur fyrir þá sem stunda störf og rannsóknir við Háskóla Íslands, bæði að því er tímarit og bókakost varðar og almennt aðgang að þeim upplýsingalindum sem nú eru að opnast um heim allan.