Bjargráðasjóður

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:45:52 (1276)

1997-11-17 15:45:52# 122. lþ. 26.6 fundur 185. mál: #A Bjargráðasjóður# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frv. á þskj. 185, um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995.

Þetta frv. er raunar fylgifrv. við lögin um búnaðargjald sem sett voru í vor, nr. 84/1997. Með þeim lögum er leitast við að einfalda fyrirkomulag innheimtu á búnaðargjaldi og gera hana öruggari. Framlag búgreina til Bjargráðasjóðs er nú ákveðið í hinum nýju lögum um búnaðargjald og af þeim sökum er nauðsynlegt að breyta lögunum um Bjargráðasjóð svo fyllsta samræmis sé gætt.

Þetta frv. er í fjórum greinum. Í 1. gr. er gert ráð fyrir breyttu orðalagi til samræmis við fyrirmæli nýrra laga um búnaðargjald sem áður hét búnaðarmálasjóðsgjald.

3. mgr. 7. gr. laganna er breytt í 2. gr., þar sem lög um búnaðargjald gera ekki lengur ráð fyrir hlutverki Framleiðsluráðs landbúnaðarins við innheimtu gjaldsins og skil til Bjargráðasjóðs. Vísað er í skyldu fjmrh. til að standa skil á gjaldinu.

3. gr. er um forsendur styrkveitinga úr búnaðardeild sjóðsins, og því er breytt til samræmis við ný lög um búnaðargjald. Gildistökuákvæðið er um næstu áramót þannig að þetta frv. þyrfti að afgreiðast fyrir áramót.

Frumvarpinu fylgir kostnaðarumsögn og þar kemur fram að þetta mun ekki leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Að lokinni þessari umræðu vil ég leyfa mér, herra forseti, að óska þess að frv. verði vísað til hv. félmn.