Kosningar til sveitarstjórna

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:52:04 (1278)

1997-11-17 15:52:04# 122. lþ. 26.7 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:52]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við ræðu hæstv. félmrh. að bæta en hann hefur mælt fyrir frv. Ég vil aðeins leggja áherslu á að um þessa framkvæmd var góð samstaða í þeirri nefnd sem undirbjó frv. að taka kosningalagakaflann út úr sveitarstjórnarlögunum í því skyni að hægt væri að gefa þessi lög út sérstaklega til hagsbóta fyrir kjörstjórnir og sveitarstjórnarmenn sem vinna að framkvæmd sveitarstjórnarkosninga.

Það hefur verið æðimikið um kærumál vegna sveitarstjórnarkosninga og framkvæmda þeirra, og það er kannski að vonum, því þessi kosningalög voru ekki aðgengileg á einum stað og ekki hægt að lesa sig í gegnum þetta ferli frá byrjun til enda.

Í frv. er ákvæðum varðandi kosningar til sveitarstjórna raðað upp á nýtt þannig að auðveldara er að lesa sig í gegnum lögin við framkvæmdina frá því að undirbúningur kosninga hefst og þar til kosningum er lokið. Það er von okkar sem undirbjuggum frv. að þetta verði til þæginda við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, ekki síst þegar hægt verður að gefa út þessi sérlög í handbók fyrir þá sem vinna að framkvæmdinni.