Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 16:39:46 (1284)

1997-11-17 16:39:46# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil rök hæstv. iðnrh. fullvel. Ég er þeim einfaldlega ekki sammála. Við höfum tekið þátt í því að undirbúa Kyoto-ráðstefnuna. Við höfum ekki gengið gruflandi að því að þar er stefnt að lagalega bindandi samningi um ákveðið þak á losun og við þurfum auðvitað --- þegar við höfum tekið þátt í því og þar með sagt a --- að vita hvort við ætlum að segja b. Við ætlum að segja b. Það hefur komið fram, er það ekki? Hvernig ætlum við þá að uppfylla samninginn? Það er örugglega ekki hægt að uppfylla hann með því að hrúga inn í landið erlendri stóriðju sem mun líklega tvöfalda það magn sem við erum nú þegar að losa af skaðlegum lofttegundum. Það er einfaldlega ekki hægt að halda því fram.

Ég held líka, herra forseti, að nóg sé komið af stóriðju á Íslandi. Ég held að við eigum að nema staðar í því efni og ég held líka að miðað við þá stöðu sem er að koma upp, sé skynsamlegt af ríkisstjórn Íslands að slá þessum stóriðjudraumum, þessum fyrirhuguðu framkvæmdum sem eru kynntar í skýrslu hæstv. iðnrh. á frest a.m.k. fram yfir það.