Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:19:21 (1291)

1997-11-17 17:19:21# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, KH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:19]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er vonum seinna sem við ræðum þetta stóra og mikilvæga mál. Eins og hefur komið fram stóð til að umræða um það yrði í vor og svo aftur í haust og síðan biðum við eftir skýrslunni. Ég tek strax fram að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir báðar skýrslurnar. Stærri skýrslan var kynnt á fundi 17. okt. þar sem mjög hreinskilnar og gagnlegar umræður fóru fram og miklar upplýsingar komu fram. Ég held að það séu gagnlegar upplýsingar inn í þá umræðu sem hefur farið fram hverjir ættu að taka á sig skuldbindingar vegna þessa mikla vanda. Þá er rétt að minna á að um 2/3 hlutar allrar losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum er í iðnríkjunum. Samkvæmt athugunum er álitið að árlegur herkostnaður vegna loftslagsbreytinga gæti verið u.þ.b. 2% af vergri landsframleiðslu fyrir iðnríkin en um 9% fyrir þróunarríkin. Þetta eru tölur sem við þurfum að hafa í huga. Ég held að ég fari ekki með neina vitleysu þó ég eigni þessar upplýsingar Tryggva Felixsyni, starfsmanni í umhvrn., sem skýrði margt sem hér kemur fram. Hann upplýsti m.a. að kostnaður við það að halda losun gróðurhúsalofttegunda í óbreyttu magni, miðað við árið 1990, væri metinn á 0,5--2% af vergri landsframleiðslu hér á landi. Það var reyndar ýmislegt fleira og þar á meðal má nefna það sem kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. um hugmyndir sem hafa verið í því efni að miða við hvern íbúa og það er reyndar oft gert. Þá var upplýst að það hefði verið rætt um það í öllum undirbúningsviðræðunum að tekið yrði tillit til íbúafjölda og Ísland hefur nokkuð reynt að halda því á lofti það ég best veit. Mér er ekki ljóst hvernig þeir ætla þá að reyna að bregðast við þessu, hvort þeir ætla að reyna að stuðla að mikilli aukningu íbúa á Íslandi. Ég veit ekki hvernig þeir ætla að fara að því að stuðla að auknum barneignum eða bæta aðstæður barna og fjölskyldna, ég veit ekki hvort það er inni í þessu dæmi, en fróðlegt væri að heyra um það.

Kannski þarf ekki að endurtaka það að við erum að ræða um einhvern alvarlegasta umhverfisvanda sem heimsbyggðin á við að glíma og orsakavaldurinn er fyrst og fremst iðnbyltingin mikla. Afleiðingarnar geta orðið aldeilis skelfilegar og við erum í rauninni ekki að tala um eitthvað inni í blámóðu fjarskans. Við erum ekki bara að tala um framtíðina eftir eina öld eða tvær heldur erum við þegar farin að verða vör við áhrif af gífurlegri losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Það er margra álit að áhrifa af útblæstri sé þegar tekið að gæta í afbrigðilegri veðráttu, í vaxandi tíðni ofsaveðurs, vinda og úrhellis. Í því sambandi er rétt að minna á að mannkynið hefur teppalagt svo jörðina að það er varla að allt úrhellið komist niður í jörðina eins og það gerði áður. Þess vegna verða oft þessi hrikalegu flóð í iðnríkjunum, vatnið nær einfaldlega ekki að komast niður í jörðina fyrir malbiki og ræktun sem hefur gjörbreytt öllum aðstæðum. Þessi þróun mun halda áfram enn um sinn jafnvel þótt okkur tækist að stöðva aukningu útblásturs nú þegar. Mjög mikið er í húfi og ekki aðeins að stöðva aukningu útblásturs heldur að draga markvisst úr.

Á Íslandi er helsta áhyggjuefnið áhrif veðurfarsbreytinga á stefnu og styrk hafstrauma, þar á meðal Golfstraumsins, og hvað verður um meginauðlind okkar til þessa, þ.e. fiskgengdina við landið.

Á bls. 19 er meðal annars talað um að hækkun sjávarborðs vegna hlýnunar lofthjúpsins sé áhyggjuefni hér og það könnumst við við. Á hverju einasta ári rignir beiðnum yfir fjárveitingavaldið um að veita aukið fé til sjávarvarna og það er mikið áhyggjuefni. Sjávarflóð hafa þegar valdið talsverðu tjóni og það er ljóst að með tíðari og skaðlegri sjávarflóðum og hækkun sjávarborðs verður þetta mikið vandamál. Sömuleiðis hugsa ég til þess með nokkurri hryggð ef afleiðingarnar verða þær að við getum ekki lengur fagnað því að vera laus við pöddur á Íslandi þegar við berum saman við heitari lönd. Það hefur verið mikill kostur við að búa á Íslandi að vera tiltölulega laus við pöddurnar. Það er því ýmislegt sem við þurfum að taka með í reikninginn.

Nokkuð er fjallað um aðgerðir Íslendinga gegn loftslagsbreytingum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ekki vera sett upp á mjög metnaðarfullan hátt. Reyndar er fleira nefnt í stóru skýrslunni. Að vísu er nokkuð erfitt að festa hendur á því en þar er talað um hvetjandi aðgerðir, fræðslu og hagstjórnartæki. Talað er um markvissa eflingu fræðslu um gróðurhúsaáhrifin bæði í fjölmiðlum, skólum og á öðrum vettvangi og leiðir til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ýmislegt fleira er nefnt en það sem mér finnst helst að þessu er að þær aðgerðir sem helst eru nefndar og mundu kosta einhvern pening eru auðvitað marklausar nema lagt sé eitthvert fé til þess og þess sér ekki stað í fjárlagafrv. að verið sé að taka á þessu af neinni alvöru. Í báðum skýrslunum er minnst á að framlög Íslendinga til þróunarhjálpar og þróunaraðstoðar verði aukin fram til aldamóta og stefnt að því að þau verði a.m.k. 0,3--0,4% af þjóðarframleiðslu árið 2000. Nú hlýt ég að spyrja í þessu sambandi: Hvað þyrfti þá framlagið að vera á ári til þess að ná markmiðinu? Vissulega er einhver aukning til þróunarmála í fjárlagafrv. en hún er mjög lítil og hún er fyrst og fremst vegna Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og einhverra slíkra mála en t.d. til Þróunarsamvinnustofnunar er engin aukning. Það væri gott að fá þessar upplýsingar hvert framlagið þyrfti að vera.

Að öðru leyti er fyrst og fremst um meira og minna óútfærðar hugmyndir að ræða í þessum aðgerðakafla. Það er stefnt að hinu og þessu. Sagt er að vinnuhópur sé að skoða hugmyndir, að verið sé að kanna möguleika á, að Vegagerðin hyggist reyna að draga úr notkun og þar með losun rokgjarnra lífrænna efna, að starfshópur muni kanna möguleika á hinu og þessu. Þetta er meira og minna óútfært og ég hlýt að biðja um nánari lýsingu á því hvað á að gera til að hefja raunverulega þessa ferð.

[17:30]

Ég veit um það sem ríkisstjórnin hefur ákveðið og er farin að leggja til til aukinnar bindingar gróðurhúsalofttegunda með framlagi til skógræktar og landgræðslu. En það þarf mjög mikið til þess að sú binding skili raunverulegum árangri. Ég viðurkenni að ég hef ekki þá framtíðarsýn að við þekjum allt landið skógi. Þótt sagan segi að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru þá er það ekki mín draumsýn að við snúum til þeirrar myndar.

Það sem mér finnst langalvarlegast við það sem komið hefur fram hjá þeim sem hafa um þessi mál að segja er að mér finnst menn ekki treysta sér til þess í raun og veru að horfast í augu við afleiðingarnar af þessum mikla vanda og hvað þarf til. Ýmsir gestir á fundinum þar sem skýrslan var kynnt 17. október, m.a. fulltrúar atvinnulífsins, voru augljóslega mjög samstiga í þeim áherslum sem hafa komið fram bæði hjá þeim og stjórnvöldum. Það er hálfgert hálfkák sem kemur út úr þeim hugmyndum. Ég held að við verðum hreinlega að horfast í augu við það að tvennt þarf til sem ekki hefur verið lögð mikil áhersla á. Maðurinn þarf einfaldlega að breyta um lífshætti. Það gengur ekki að halda áfram á þessari endalausu braut neysluhyggjunnar sem krefst sífellt meira af náttúrunni og sífelldum ágangi á náttúruauðlindir okkar. Hins vegar þarf auðvitað að þróa visthæfar leiðir til að við getum lifað sómasamlegu lífi en í sæmilegri sátt við náttúruna. Ekki er tími til að fara nánar út í það en ég meina það alveg af innsta hjartans grunni að við þurfum að íhuga breytingar á lífsháttum okkar. Það væri ágætt að heyra það ef hæstv. ráðherra hefur einhverjar hugmyndir í því efni. Ég held að þarna þurfi sameiginlegt átak. En umræður og mikil fræðsla þyrfti náttúrlega að koma til áður en að því kæmi þannig að fólk gerði sér hreinlega grein fyrir því að það verði að fórna einhverju vegna þessa mikla vanda. Þetta þarf að ræða af fullri alvöru.

Ég hlustaði með athygli á það sem fjallað hefur verið um hér þ.e. um afstöðu stjórnvalda og áherslur í þessum umræðum. Mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram í máli hæstv. ráðherra hvernig staðan væri núna. Það stendur t.d. í skýrslunni að íslensk stjórnvöld hafi ekki sett fram neina tillögu um losunarmörk eða tekið afstöðu til fyrirliggjandi tillagna. Ég spyr hvort við séum eitthvað nær því núna. Með hvaða veganesti fer nefndin sem fer til Kyoto eftir aðeins fáeina daga? Minnt er á afstöðu ýmissa ríkja og ljóst er að það er ýmislegt sem krefst skýringa. (Forseti hringir.) Því miður áttaði ég mig ekki á að tíminn liði svona fljótt. Ég hafði í huga fleiri spurningar en þær verða að koma fram síðar í umræðunni.