Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:50:58 (1294)

1997-11-17 17:50:58# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þjónar það hagsmunum Íslendinga að vera með í því að undirrita þennan samning og það ber að stefna að því að við getum tekið þátt í því. En við getum hins vegar ekki skrifað undir hvað sem er. Væri það t.d. heppilegt að við skrifuðum undir bindandi samning í þessu efni sem yrði síðan kolfelldur á Alþingi sem gæti vissulega komið upp? Við verðum að vita hvað við erum að gera í þessum efnum og gera okkur grein fyrir því að við erum að skuldbinda þetta þjóðfélag til mjög langs tíma og taka alvarlegar ákvarðanir.

Það má vel vera að við eigum engan annan kost en að standa að einhverju sem hin iðnríkin koma sér saman um, t.d. Bandaríkjamenn og Evrópusambandið sem er okkur óhagstætt en þeim hagstætt, að við verðum beinlínis þvingaðir til þess á einn eða annan hátt. En við hljótum eins og málin standa núna að vinna fyrst og fremst að því að ná hagkvæmri stöðu fyrir Ísland, hagkvæmum samningi fyrir Ísland. Ef svo er ekki, þá er ekkert hægt að fullyrða um það á þessu stigi hvað við gerum nema menn séu nánast tilbúnir til þess að samþykkja hvað sem er. Það er alls ekki ljóst hver staða málsins nákvæmlega er. Það er hægt að vera með ýmsar getgátur í því sambandi. En á þessu stigi er ekki rétt að vera með neinar fullyrðingar um það. Að mínu mati er langbest að meta stöðuna eftir að fundurinn í Kyoto er liðinn því að ég á ekki von á því að menn nái svo langt þar að það komi til undirritunar. En það er alveg ljóst eins og hv. þm. hefur hér sagt að það kemur dagur eftir þennan dag og unnið verður áfram að málinu eftir að þeirri ráðstefnu lýkur.