Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:53:10 (1295)

1997-11-17 17:53:10# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist hljóðið í hæstv. utanrrh. vera þannig að möguleikar hæstv. umhvrh. minnki til þess að fylgja eftir af afli þeirri stefnu sem hann hefur verið að reyna að leggja og undirbyggja verði fram haldið. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni efnislega á þá leið að þessum orkulindum, þessari ónýttu orku verði að halda utan við. Þetta eru hugmyndir um à la carte eins og sagt er. Það er að geta valið af matseðli fyrir Ísland. Ég held líka að sýn hæstv. ráðherra í sambandi við nýtingu orku á Íslandi sé úrelt, sé ekki þannig að það sé keppikefli til framtíðar að binda þetta allt í ál fram á miðja næstu öld eða svo eins og virðist vera stefnan hjá hæstv. ráðherra eða a.m.k. hjá hæstv. iðnrh., binda þetta allt í ál. Ég held að við eigum að reyna að koma okkur að því verki að reyna að móta hér sjálfbæra orkustefnu, reyna að fara ekki hraðar í nýtingu þessara ágætu orkulinda okkar þannig að það loki á svigrúm þjóðarinnar í framtíðinni til þess m.a., þegar möguleikar leyfa, að framleiða hér það eldsneyti sem við þurfum og að nýta raforku í okkar samgöngum, bæði á bíla og í eimlestum. Það á að vera á dagskrá nú þegar í rauninni að skoða möguleika á að leggja rafbraut til Keflavíkur og kannski austur á Höfn í Hornafirði og nýta til þess okkar orku og draga þannig úr losun á koltvíoxíði, nota orkulindirnar þannig en ekki eins og stefnt er að með 720 þúsund tonna álbræðslu sem hugmyndin er að troða inn á Austurland, 720 þúsund tonna álbræðslu sem tæki hátt í helminginn af því vatnsafli sem er líklegt að við höfum til ráðstöfunar eftir aldamótin með viðunandi tilliti til umhverfismála varðandi virkjanir.