Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:57:30 (1297)

1997-11-17 17:57:30# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gleðiefni að heyra að hæstv. umhvrh. mun hafa skýrt samningsumboð þegar hann fer fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til Kyoto. Ræða öll þess ágæta ráðherra hneig nefnilega að ákveðinni niðurstöðu, að við ættum að hlíta þeirri niðurstöðu. En það hefur hins vegar komið fram í máli hæstv. utanrrh. og reyndar inngripi hæstv. iðnrh. fyrr í dag, að hæstv. umhvrh. er klemmdur á milli þeirra. Hans raunverulega stefna, sem liggur þó milli línanna í þessu plaggi, nær ekki að brjótast fram.

Herra forseti. Ég kom nú ekki upp af þeim sökum heldur til þess að segja að það getur vel verið að hæstv. utanrrh. þyki sem málstaður hans fari hér heldur halloka í umræðunum. En það gefur honum ekkert leyfi til þess að afbaka skoðanir annarra eða jafnvel búa þær til. Hæstv. utanrrh. spurði í tengslum við ræðu mína hvort menn ættu að kyngja því þegjandi að sérstaðan yrði ekki metin. Talsverður hluti af minni ræðu, herra forseti, fór einmitt í að draga fram að við hefðum þrenns konar sérstöðu og vitaskuld ættum við að freista þess að reyna að fá hana metna eins og hægt væri. Það væri eðli samninga, sagði ég, að menn reyndu að fara eins langt eins og mótaðilinn getur sætt sig við. En ég bætti því við að það er líka eðli samninga að menn hlíti niðurstöðunni.

Hæstv. utanrrh. taldi það söguleg tíðindi að ég hefði haldið því hér fram að það þyrfti að endurskoða stóriðjustefnuna og m.a. stóriðjustefnu Alþfl. Hæstv. utanrrh. ætti þá e.t.v. að vera meira í þinginu. Ég hef sagt þetta tvisvar sinnum áður hérna. Það þýðir ekkert að vísa til fyrrv. hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar í þessu efni. Þá voru allt aðrar aðstæður uppi. Ég vek eftirtekt á því að í þessari skýrslu kemur t.d. fram að á milli 1990 og 1995 dróst losun gróðurhúsalofttegunda saman um 3,5%. Látum vera þó að svo hefði ekki verið. Ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd að hæstv. umhvrh. hefur lagt fram plagg sem sýnir að við munum fara tugum prósentna fram úr þeim mörkum sem við höfðum reynt að miða okkur við.

Það liggur líka fyrir að hæstv. iðnrh. hefur lagt hér fram plagg sem boðar stóriðju sem mun næstum því tvöfalda núverandi losun. Er nema von að menn staldri við og leyfi sér þann munað að hugsa upp á nýtt? Hæstv. utanrrh. ætti stundum að gera það líka.