Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:03:09 (1299)

1997-11-17 18:03:09# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag hefur auðvitað byggst á þeirri ágætu skýrslugjöf sem umhvrh. hefur lagt fyrir þingið og þeirri vinnu allri sem hann hefur staðið fyrir í ráðuneyti sínu. Það hefur auðvitað lagt grunninn að umræðunni þó að kannski hafi menn eðlilega kosið að skoða jaðarsvið umræðunnar meira heldur en megininntakið og undirbúninginn að því máli sem á að taka á dagskrá í næsta mánuði austur í Japan. Menn hafa spurst fyrir um stefnu ríkisstjórnarinnar og talið að hún lægi ekki fyrir. Ég tel að það hafi ótvírætt komið fram af hálfu umhvrh. og af minni hálfu og annarra ráðherra í tengslum við stefnuræðu og önnur slík tækifæri hver stefnan í þessum málaflokki er.

Á hinn bóginn er það jafnrétt að Ísland hefur ekki, þrátt fyrir þá stefnumörkun, nokkru sinni afsalað sér ákvörðunarrétti til loka málsins í hendur annarra þjóða. --- Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur nú vikið af fundinum. Hann lét mig vita að hann þyrfti að gera það og ég ætla þess vegna ekki að fjalla um ræðu hans að öðru leyti en því að segja að hann virtist telja það hið alvarlegasta mál ef Ísland eitt ríkja ætlaði ekki fyrir fram að lýsa því yfir að það yrði skuldbundið og mundi skrifa undir niðurstöðu þessarar ráðstefnu í Kyoto, ef hún verður, algjörlega óháð því hvort fulltrúum þjóðarinnar líkaði betur eða verr við niðurstöðuna. Ekkert ríki hefur gefið til kynna, svo mér sé kunnugt a.m.k., að það muni skrifa undir þá niðurstöðu sem kann að verða, algjörlega óháð því hvernig hún verður. Og hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði eins og það væri eiginlega glórulaust óhappaverk að vilja skoða niðurstöðuna áður en frá henni verði gengið, rétt eins og hagsmunir þjóða kæmu hvergi að málinu. Hér væri eingöngu um að ræða óskeikular vísindalegar forsendur sem allir hlytu að beygja sig fyrir. En svo er ekki og allir sem að málinu koma vita að það eru ekki óskeikular vísindalegar forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Við vitum reyndar öll að þær spár og þær kenningar sem uppi eru um þessi efni eru umdeildar. Fæstir telja sig geta fram hjá þeim litið þó að hægt sé að benda á að fyrr hafi menn spáð miklum erfiðleikum, bæði varðandi matvælaframleiðslu, varðandi olíubirgðir þjóða o.s.frv. og varðandi mannfjölgun sem hafi framreiknuð átt að koma öllu í endalok á tilteknum tíma, meira að segja tíma sem nú er liðinn. Menn þekkja slíkar spár. Þær hafa ekki reynst réttar en þær gefa hins vegar hvorki einar sér né saman tilefni til þess að gera lítið úr þeim vísindalegu forsendum sem menn þykjast þó hafa um þau vandamál sem við blasa. Það gerum við ekki hér á Íslandi. Það gerir ríkisstjórnin auðvitað ekki.

Það dettur engum í hug að baráttan í þessum efnum, hvorki til vinnings né taps, endi hér á landi. Engum kemur til hugar að baráttan endi hér. Hæstv. utanrrh. benti á að aðeins eitt rafrænt álver með kolum gerði sama ógagn í þessum efnum og öll starfsemi sem á við hér á landi sem segir heilmikla sögu um smæð þeirra andrúmslegu skemmdarverka sem við þó vinnum.

Hagsmunir koma nefnilega við sögu og allar þjóðir áskilja sér rétt að beita þessum hagsmunum fyrir sig, ekki bara vísundunum. Um það má auðvitað nefna fjölmörg dæmi eins og umhvrh. gerði og utanrrh. hefur gert. Hvaða vísindi eru það þegar menn eru að hugsa um loftslag og lofthjúp og skaðsamar lofttegundir að ákveða að allt flug sé bara ekki með, öll farskip séu ekki með? Hvaða vísindi eru það? Það eru a.m.k. vísindi sem lofthjúpurinn kann ekki að meta, býst ég við. En að fiskiskip á hinn bóginn skuli öll talin með þó að auðvitað sé hægt að færa rök fyrir því að þau stunda tiltekna matvælaframleiðslu sem mundi kannski að magni til að kosta miklu meiri útblásturseiginleika heldur en sú starfsemi öll.

Hvaða vísindi eru á bak við það að líta á Evrópu sem eina heild en ekki önnur svæði í veröldinni? Og þegar þannig stendur til að mynda á í Þýskalandi eftir sameiningu að þar er fjöldinn allur af verksmiðjum sem er ónýtur og sjálfgefið að leggja niður, hvaða vísindi eru það þá að láta það ekki koma lofthjúpnum til góða? Af hverjum á það að koma Portúgal til góða? Hvaða vísindi eru á bak við það? Engin vísindi, bara hagsmunir og ekkert annað en hagsmunir. Og það er til slíkra hagsmuna sem við viljum líka í okkar litla landi, þar sem baráttan mun hvorki vinnast né tapast, að tekið sé tillit.

Og hvaða vísindi eru nú það sem ýta undir það með reglum að menn fari að stunda framleiðslu í stærri stíl en áður með kjarnorku af því að það er heilsusamlegt fyrir lofthjúpinn? En eru ekki einhver önnur vandamál með kjarnorkuna sem eru umhverfisleg líka? Hvar liggja vísindin þar? Það er skammgóður vermir á þeim vísindum að hluta til. Og að koma hér og láta eins og við einir þjóða högum okkur með óábyrgum hætti, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði hér áðan, er því algjörlega fráleitt.

Með þessum orðum mun ég ekki draga úr því sem við höfum líka sett fram opinberlega, ráðherrarnir, þó að minna sé eftir því tekið, að við teldum afskaplega mótdrægt okkur og illa viðunandi ef mál mundu skipast með þeim hætti að við teldum okkur knúna til að standa utan við. Það er ekki ákjósanlegur kostur og fjarri því eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. og hæstv. umhvrh. Það er fjarri því að við teldum það vera eftirsóknarverðan kost. En við teljum okkur hafa góðan málstað að verja eins og fram hefur komið og við viljum að til þess málstaðar sé tekið tillit.

Við höfum sagt og við skrifum undir það að ráðstefna á heimsvísu sé skynsamleg, nauðsynleg og tímabær vegna þess að umhverfismál eiga ekki nein landamæri og sérstaklega ekki mál af því tagi sem við ræðum hér. En við teljum að fullyrðing af því tagi eigi þá að ganga í báðar áttir. Við teljum að það eigi þá til að mynda að nýtast okkur og umræðunni að menn gangi frekar til verks varðandi endurnýjanlega, hreina orkugjafa til framleiðslu efna sem nauðsynleg teljast mannkyni ef menn gera það með öðrum hætti. Við teljum að það eigi að líta til svigrúms af því tagi. Og við teljum einnig að það verði að huga að fortíðinni hvað þetta allt varðar og framtíðarmöguleikunum eins og möguleika á bindingunni. Það er nefnilega þannig, svo að ég ítreki það, herra forseti, að það er engin þjóð sem til þessa leiks gengur með bundnar hendur fyrir fram. Það er engin þjóð sem hefur lýst yfir: Við skulum undirrita þetta hvernig sem fer, hvað sem þið hinir gerið. Þannig koma sjálfstæðar þjóðir ekki fram, hvorki smáar né stórar. Og í aðdraganda málsins eru það stóru þjóðirnar sem hefur tekist að laga vísindalegu sjónarmiðin að sínum þörfum og við hljótum að hafa þar mál fram að færa. Það hefur ekkert með það að gera að við séum ekki heilir í afstöðu okkar til þess að hér sé um vandamál að ræða sem þjóðir heims eiga að taka höndum saman um, ekki kannski að leysa af því að það er nú hægara sagt en gert, en að minnka áhættuna á, draga úr áhættunni sem virðist samkvæmt flestum vísindalegum rökum vera töluverð og jafnvel í versta falli ógnvænleg. Um þetta er þó deilt. Þau orð okkar um að þannig gætu mál skipast að þau væru okkur svo óhagstæð að við yrðum að láta hjá líða að taka þátt í lokaframgangi slíkra skjala hafa því ekkert með vilja okkar til þess að taka sameiginlega á þessu vandamáli að gera. Ég andmæli því.