Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:18:06 (1302)

1997-11-17 18:18:06# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef kannski ekki orðað það nógu skýrt í lok míns máls en hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni: Ætla Íslendingar að gera það að ófrávíkjanlegu atriði í sambandi við þessa samninga að endurnýjanleg orka sem við ráðum yfir verði tekin út fyrir sviga í þessum efnum og við höfum þar nánast fríspil? Ég held að það sé ekki alveg rétt hugsað. Ég tek undir með hæstv. forsrh. að auðvitað eigum við ekki að gefa okkur það fyrir fram að við ætlum að vera með skilyrðislaust, það dettur mér ekki í hug að segja hér og nú. En spurningin er um meginstefnuna og hvernig við nálgumst þetta. Og þá er spurningin sem sagt þessi: Hefur það verið svo? Ég hef ekki lesið það út úr plöggum samningamanna og ég leyfði mér að líta inn á fund í Bonn þar sem þessi mál voru til umræðu á dögunum á vegum Sameinuðu þjóðanna og kynnti mér framlag Íslands í þeirri umræðu. Ég las það ekki af þeim pappírum sem þar voru lagðir fram. Því finnst mér nauðsynlegt að hæstv. forsrh. og eftir atvikum aðrir ráðherrar, skýri hér hvort það hafi verið sett fram sem skilyrði af Íslands hálfu eða sem nálgun málsins að þetta fáist alveg ákveðið með þessum hætti. Ég gæti margt sagt um það sjónarmið. Ég held að við þurfum að gæta okkur á því að við erum ekki einir á báti. Margir búa sem betur fer yfir vatnsorkulindum og jarðvarma og sveigjanleiki í samningnum, sem virðist vera viðurkenndur samkvæmt þeim textum sem fyrir liggja, gefur möguleika á því á ákveðnum tíma að ná þar kannski ákveðnum ávinningi fyrir þá sem búa að slíku. Mér finnst út af fyrir sig mikilsvert að það náist fram en það þýðir augljóslega, og á það legg ég áherslu, að það verður að skoða sinn gang í sambandi við stóriðjupólitíkina hér eins og ríkisstjórnin og hæstv. iðnrh. hafa lagt hana fyrir. En það er nú einu sinni svo að þetta fæst ekki ókeypis. Sú barátta sem hér er um að ræða, að bregðast við þessum stórfellda vanda sem við trúum að sé þarna, verður ekki án fórna og það verður að vega það og meta í þessu samhengi.