Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:21:36 (1304)

1997-11-17 18:21:36# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:21]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Mig langar til að benda á tvö atriði í þessari umræðu um mjög mikilvægt málefni. Í fyrsta lagi að þó það sé hárrétt, eins og hér hefur komið fram, að ekki hafi verið vísindalega sýnt fram á það enn svo óyggjandi sé, að loftslag og lofthjúpur jarðar hafi orðið fyrir áhrifum af gróðurhúsalofttegundum þá hafa fjölmargar vísbendingar komið fram um að svo sé. Þó ekki liggi enn ljóst fyrir hverjar afleiðingarnar verða ef lofthjúpurinn hefur þegar orðið fyrir áhrifum þá fjölgar vísbendingunum svo ekki er skynsamlegt annað en að taka fullt mark á þeim. Ég vil benda á að í umræðunni í dag hefur enginn mótmælt því að tekið verði fullt mark á þessum vísbendingum með þeim annmörkum sem þó eru á þeim.

Í öðru lagi langar mig að undirstrika að það er nauðsynlegt að tengja umræðuna um áhrif gróðurhúsalofttegunda á lofthjúpinn almennum umhverfismálum vegna þess að þar eru raunveruleg og sterk tengsl á milli. Krafan um sveigjanleikann sem komið hefur fram í tengslum við hugmyndir manna um niðurstöðu Kyoto-fundarins eru að sjálfsögðu mjög tengdar hagsmunum eins og fram hefur komið og það er fyllilega eðlilegt. En það er hins vegar mikilsvert að menn átti sig á því að á sama hátt og þær eru tengdar hagsmunum, þá geta þær einmitt verið tengdar lausn ákveðinna umhverfismála.

Við skulum taka dæmi um þetta. Það er ljóst að Evrópusambandið hefur áhuga á því að skapa sér ákveðið svigrúm til að versla með kvóta, útblásturskvóta innan stærra Evrópusambands. Í dag hefur einnig komið fram að áherslur þingmanna Evrópuþingsins á þessu sviði eru svolítið aðrar en ráðherraráðsins. Þegar maður ræðir þessi mál við einstaka þingmenn Evrópuþingsins eins og ég hef gert, þá er ljóst að þeir vilja skapa sér meira svigrúm heldur en gert er ráð fyrir í hugmyndum Evrópusambandsins.

Á hverju byggist þetta? Þetta byggist m.a. á því að ríki Mið- og Austur-Evrópu búa við þannig orkunýtingu og orkukerfi að með því að bæta þar úr með nýrri tækni og fjárfestingum, þá er hægt að koma mjög verulega til móts við orkuþörf þessara ríkja en einnig orkuþörf Vestur-Evrópuríkja að vissu leyti. Þannig er það mikilvægt frá umhverfissjónarmiði Mið- og Austur-Evrópuríkja að þessi hagsmunatengsl verði mikil. Einmitt þau rök sem komið hafa fram hjá þingmönnum Evrópuþingsins fyrir því að sveigjanleikinn verði meiri og nái jafnvel út fyrir Evrópusambandið, lúta að efnahagsástandinu í Mið- og Austur-Evrópu.

Það vill svo til að áform t.d. Rússa eru ekki eingöngu að bæta orkunýtinguna með þeim hætti að þeir geti ráðið bót á þeim gífurlega umhverfisvanda sem léleg nýtingu á orkulindum Rússlands er. Það er ekki svo að þeir setji sér markið ekki hærra. Í þeirra augum er orkan aðalútflutningsatvinnugrein Rússa og sú sem mun skapa þeim tekjur á komandi árum meðan þeir eru að byggja sinn efnahag upp en efnahagur þeirra er nánast í rúst. Ég hef bent á það áður að af 89 héruðum í Rússlandi eru færri 10 sem leggja eitthvað til fjárlaganna, hin eru þiggjendur og þessi 8--10 héruð eru öll nema Moskva, olíu- og gasframleiðsluhéruð. Rússar hafa ekki áform um það að nota nýja tækni til að skapa stöðugleika í sinni olíuframleiðslu, þvert á móti. Þeir hafa gífurleg áform um að auka þessa framleiðslu og það er vel hugsanlegt að tengsl geti orðið á milli fjárfestinga aðila innan Evrópusambandsins. Jafnvel gætu bein fjárframlög Evrópusambandsins til orkumála, orkukerfa og orkuvinnslu í Rússlandi að orðið til þess að menn skapi þar möguleika á viðskiptum með útblásturskvóta. Það er einn af þeim möguleikum sem hefur komið fram í þessari umræðu.

Uppbygging orkukerfisins í Rússlandi er svo brýn að Rússar hafa sjálfir, og raunar fengið það staðfest af utanaðkomandi aðilum, metið það svo að þeir þurfi að verja á árunum 2001--2005 um það bil 30 milljörðum dollara til þess að gera þessa atvinnugrein þannig úr garði að hún geti komið efnahagslífi Rússlands til góða. Og hverra hagsmuna eigum við að gæta í þessu sambandi? Við eigum einmitt óbeinna hagsmuna að gæta í þessu vegna þess að staða Rússa til þess að taka á sínum kjarnorkuvandamálum sem skapar verulega áhættu fyrir okkur byggist á því að þeir nái árangri í efnahagsmálum sínum. Rússland er ekki þess umkomið í dag að taka af neinni festu og alvöru á sínum kjarnorkuöryggismálum sem eru sameiginleg vandamál þeirra og okkar og allra þjóða sem búa á norðurslóðum.

Því er nauðsynlegt að menn átti sig á því að sveigjanleiki niðurstöðunnar í Kyoto verður að vera mikill. Það er mjög mikils virði að niðurstaðan verði ekki aðeins um formleg atriði heldur um framkvæmanlega hluti. Þess vegna tel ég að þessi sjónarmið --- að niðurstaðan verði fyrst og fremst heildinni til hagsbóta --- séu grundvallarsjónarmið sem mikilsvert er að um náist víðtæk samstaða. Þetta vildi ég láta koma hér fram þar sem mér finnst stundum að umræðan sé of takmörkuð við það vandamál sem útblástur gróðurhúsalofttegunda er. Umræðan á að sjálfsögðu að taka tillit til umhverfis- og efnahagsmála í víðu samhengi og þeirra tengsla sem eru á milli málaflokkanna tveggja en þau tengsl eru bein.