Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:29:48 (1305)

1997-11-17 18:29:48# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru athyglisverðar hugleiðingar hjá hv. þm. sem aðallega var að skoða tengsl Evrópusambandsins við Austur-Evrópu í orkumálum. Hann er að reyna að njörva þau niður og samningsbinda með því sem kallað er orkusáttmáli Evrópu sem hv. þm. þekkir og Ísland er hluti af svo merkilegt sem það nú er, a.m.k. fyrsta þætti sem er frágenginn gagnvart Alþingi Íslendinga. Tilefni samningsins af hálfu Evrópusambandsins var að mínu viti að ná tökum á orkulindum í austri í framtíðinni, a.m.k. að opna möguleika til þess að geta ausið úr þeim brunnum. Á sinn hátt er þetta svolítið svipað því sem gerðist fyrr á öldinni þó beitt væri öðrum tækjum og óhugnanlegri. En tengslin við kjarnorkustefnuna, vegna þess að það var nefnt hér fyrr í umræðunni og sérstaklega af hv. þm., eru auðvitað ekki byggð með beinum hætti inn í þetta mál og kannski erfitt að sjá hvernig það á að gerast. Mér finnst nú umhugsunarefni að hv. þm. tekur þann þátt alveg sérstaklega fyrir .

En ég tek undir með hv. þm. að þar er auðvitað um að ræða orkuframleiðslu sem ekki getur talist sjálfbær. Þeir sem leggja hvað þyngsta áherslu á umhverfissjónarmið, upp á framtíð mannkyns og á það að ná tökum á gróðurhúsaáhrifunum, þeir reyna að beita sér með sama hætti gegn kjarnorkuvánni sem ég geri síður en svo lítið úr og þeirri hættu sem m.a. stafar af lélegum búnaði í kringum orkuver í austurvegi en hann er aðeins hluti af þessu. Úrgangurinn er það sem minna mun á sig um alla framtíð.