Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:32:01 (1306)

1997-11-17 18:32:01# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:32]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Tvenns konar svör við þessari athugasemd. Fyrir það fyrsta er orkusáttmáli Evrópu ekki fyrst og fremst hugsaður til þess að Vestur-Evrópuríkin geti komist yfir orkulindir Rússa. Það er mikil einföldun á því flókna máli. Hugmyndin var sett fram í orkusáttmála Evrópu og síðan í samningnum sem var byggður á honum sem við erum aðilar að en höfum ekki fullgilt enn þá. Hún er sú að búa til sameiginlegan orkumarkað í Evrópu, fyrst og fremst til að styrkja efnahagslega uppbyggingu Austur-Evrópuríkjanna, og þar á meðal Rússlands, og gera þeim þar með kleift að fást við gífurlegan umhverfisvanda sem flokkast undir að vera sameiginlegt umhverfisvandamál með öllum Evrópuþjóðum.

Tilefni hugleiðinga minna var fyrst og fremst að benda á það í umræðunni að ef niðurstaðan í Kyoto verður mjög ósveigjanleg og skapar ekki skilyrði fyrir því að hægt sé að taka tillit til útblástursaðstæðna í Evrópu í heild og jafnvel að hafa þar skipti á kvótum mundi það orka neikvætt á umhverfismálin í heild þó að menn gætu kannski fært rök fyrir því að það væri jákvæður árangur ef litið væri til gróðurhúsalofttegunda eingöngu. En ég tel að það sé mjög mikilsvert að hv. þm., sem talaði síðast og gerði athugasemd við ræðu mína, líti á þetta í samhengi og geri sér grein fyrir því að þessi mál eru öll tengd.