Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:55:21 (1313)

1997-11-17 18:55:21# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:55]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í þingræðu fyrr í haust að mér sýndist að því miður gæti það orðið niðurstaðan að ekki yrði hægt að ganga frá samningum í Japan í desember. Ég held að það sé líka niðurstaðan og mér finnst það miður vegna þess að þó menn komist mjög langt að ég hygg í þeim viðræðum að ná niðurstöðu þá verði ekki skrifað undir samninga og eftir því sem ég veit best hafa þjóðir heims komist að þeirri niðurstöðu að það verði ekki gert en menn muni ná mjög langt í þessum viðræðum og það þurfi viðbótarfund til þannig að menn tali sig niður á sameiginlega niðurstöðu.

Ég stend við það sem hv. þm. vitnaði í úr grein minni í Morgunblaðinu. Það má ekki gerast og það á ekki að gerast að samningurinn leiði til þess að ekki verði hægt að nýta endurnýjanlegar orkulindir til atvinnuuppbyggingar og efnahagslegra framfara. Ef það gerist þá gengur samningurinn þvert á þau meginmarkmið sem menn eru að setja sér með þessum samningi.