Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:56:42 (1314)

1997-11-17 18:56:42# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:56]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. lét sér sæma að snúa út úr orðum mínum áðan. Ég studdi þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita 450 millj. kr. til landgræðslu og skógræktar og ég hef ekki talað gegn skógrækt eða landgræðslu. Það sem ég sagði var að það þyrfti mjög mikið til til þess að það munaði eitthvað um þær aðgerðir til að takmarka virkilega og binda útblásturinn og auka upptöku koltvíoxíðs úr andrúmslofti. Ég sagði að til þess þyrfti þá væntanlega að klæða þetta land skógi milli fjalls og fjöru og það væri ekki sú framtíðarsýn sem ég hefði fyrir landið.

En úr því að ég er komin hér er kannski ástæða til að spyrja hæstv. iðnrh. Hann minnti á þau þrjú áhersluatriði sem stjórnvöld hafa farið með í þessar viðræður, þ.e. að aðgerðir til að binda kolefni í jörðu og gróðri verði metnar jafngildar aðgerðum til að draga úr losun, tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, sérstaklega ríkja sem mæta orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum og hæstv. iðnrh. lagði mikla áherslu á og í þriðja lagi að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkja til að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa vegna iðnaðarframleiðslu, jafnvel þótt framleiðsluferlið auki losun staðbundið. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Ef ekki verður gengið að þessum áhersluatriðum hver verða þá viðbrögð samninganefndar Íslands í þessum viðræðum? Ætla Íslendingar að snúa upp á sig og neita að vera með eða geta þeir sætt sig við að ekki verði tekið tillit til einhvers af þessum þremur áhersluatriðum?