Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:59:02 (1315)

1997-11-17 18:59:02# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:59]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var nú ekki ætlun mín að falla í það sama far og ég tel að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi fallið í við þessa umræðu og ég var að gagnrýna, þ.e. að gera mönnum upp skoðanir. Mér þykir miður ef ég hef snúið út úr ummælum hv. þm. Ég skildi hv. þm. þannig við umræðuna að hv. þm. fyndist það ekki koma til álita að vera með það markmið að geta notað bindinguna í gróðri vegna þess að það þyrfti svo mikið til að það mundi ekki borga sig. Mér þykir það miður ef ég hef rangtúlkað orð hv. þm. og biðst velvirðingar á því.

Á þessu stigi tel ég ekki skynsamlegt og ég held að það hafi komið ágætlega fram við þessa umræðu, að gefa sér áður en menn leggja af stað að ekki náist samkomulag og ekki verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem við leggjum upp með. Ef við gefum okkur að svo verði ekki þá held ég að flestir muni nú telja að fyrir litlu sé að berjast á þessum vettvangi, þ.e. ef það er fyrir fram gefið af okkar hálfu að við munum engu ná fram og séum þá þegar búnin að móta okkar afstöðu um það til hvaða aðgerða verði þá gripið.

Niðurstaðan af þessum samningum hlýtur að ráða því hver næstu skref verða af okkar hálfu. Við skulum bíða og sjá hver niðurstaðan verður og taka síðan ákvörðun um það til hvaða aðgerða við grípum í framhaldi af því.