Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:01:06 (1316)

1997-11-17 19:01:06# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:01]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mér finnst rétt samt að mæla hér nokkur orð öðruvísi en í formi andsvara sem tengjast þessu máli. Ég neita því ekki að ég hef verulegar áhyggjur af stöðu málsins og mér finnst, þrátt fyrir viðleitni hjá hæstv. ráðherrum til þess að draga úr áhyggjum og reyna að plástra þá rifnu mynd sem birst hefur að undanförnu af ríkisstjórn Íslands í málinu, að áfram sé ástæða til þess að bera nokkurn ugg í brjósti. Mér sýnist það nokkuð ljóst að hluti af ríkisstjórninni og mér sýnist allt of stór hluti af ríkisstjórninni, sé að reyna að grípa inn í þetta mál á mjög hæpnum forsendum þegar komið er að átakapunkti og hugsanlegri ögurstund í sambandi við lagalega skuldbindandi samning. Þá hef ég í huga þau orð sem fallið hafa frá hæstv. forsrh., utanrrh. og hæstv. iðnrh.

Það þýðir ekki að halda því fram af hálfu t.d. hæstv. iðnrh. sem er hér enn við umræðuna -- hinir hæstv. ráðherrar hafa vikið af fundi að því er ég best fæ séð --- að hér sé um samfellu að ræða í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar og þau sjónarmið sem þeir eru að setja inn í málið núna hafi verið þar frá upphafi samningaferilsins. Mér sýnist að þarna sé verið að grípa inn í af hálfu þeirra hæstv. ráðherra sem vilja ríghalda í þau sjónarmið sem fram komu í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í nóvember 1995 og vörðuðu samninginn sem kenndur er við Ríó, þ.e. samninginn sem við staðfestum 1993 þess efnis að við ætluðum að skila hér ekki hærri mörkum árið 2000 heldur en voru 1990.

Ég er einfaldlega að vitna til þeirra skoðana sem fram voru settar þarna varðandi samninginn eins og hann lítur út núna, þann samning sem við höfum staðfest um að ríkisstjórnin áskilji sér rétt til þess að hagnýta endurnýjanlegar orkulindir til iðnaðaruppbyggingar óháð því hversu mikið iðnaðurinn losaði af gróðurhúsalofttegundum. Þetta var þessi áætlun ríkisstjórnarinnar, skynsamleg eða hitt þó heldur, eins og þetta var sett fram. Fyrr má nú rota en dauðrota að ætla að fara að taka það allt út fyrir sviga og það sýnir sig á hversu hálum ís menn eru í slíku. Ég vil út af fyrir sig ekki segja að menn geti ekki haft rétt til þess að gera ákveðna fyrirvara og þeir geti haft sitt að segja á þeirri stundu sem þeir eru gerðir á meðan samningurinn er óbreyttur. En svo mikið er víst að hæstv. umhvrh. hefur ekki treyst sér til þess í bókhaldi Íslands gagnvart samningnum eða útreikningum að halda þessari stefnu til streitu. Hæstv. umhvrh. tekur með, svo sem eðlilegt er, virðulegur forseti, þann vöxt í losun á gróðurhúsalofttegundum sem stafar af nýjum samningum m.a., bæði gömlum og nýjum samningum í stóriðju sem þegar eru farnir að virka, eins og stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, í spásögn sinni varðandi stöðuna árið 2000 og síðar og tekur einnig tillit til þeirrar losunar sem kemur frá stóriðju sem samið hefur verið um uppi á Grundartanga. Mér sýnist að hæstv. iðnrh. með stuðningi hæstv. utanrrh. ætli sér að reyna nú að á síðustu stigum samningaferlisins að knýja þessa stefnu fram sem grundvöll og segja: ,,Ef við fáum þetta ekki, þá erum við ekki með.`` Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru vænleg til árangurs hafi þetta verið sjónarmið hjá viðkomandi ráðherrum. Ég held að þeir hafi sofið og ekki tekið málið alvarlega frekar en ýmsir aðrir fyrir tveimur árum eða svo í framhaldi af þeim grundvelli lagður var í Berlín og í framhaldi af því að mörkuð var stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Hvað sem segja má um þau sjónarmið almenns eðlis sem hægt er að taka undir ef við erum að líta á heiminn sem heild í sambandi við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í samanburði við jarðefnaeldsneyti, þá gerast málin nú ekki svona. Þau eru ekki það einföld að við getum litið á það sem sjálfsagða hluti eða líkur á því að við getum fengið afgreiðslu út frá slíkum sjónarmiðum í þeirri stöðu sem málin eru stödd nú. Það er um svo marga þætti að ræða og það eru nú einu sinni ríki heimsins og efnahagsheildir, ríkjasambönd, sem eru að taka á þessu máli samningslega. Ég held að það verði seint að við getum náð fram með séróskir af þessum toga eins og þarna er verið að tala fyrir að svo miklu leyti sem þær hafa möguleika til þess að komast inn í alþjóðlegt samkomulag því þá verða þær að vera hluti af kerfi sem hugsanlega getur virkað þannig í framtíðinni að þeir sem hafa stöðu til þess að framleiða orku án þess að bæta gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpinn hafi styrkari stöðu en aðrir og það er ekkert nema gott um það að segja.

Virðulegur forseti. Spurningin um orkunýtingu, uppbyggingu stóriðju hér í landinu kom til tals fyrr í umræðunni og hæstv. utanrrh. var að færa niður stærð þeirrar álbræðslu á Austurlandi sem hæstv. iðnrh. er að reyna að leggja grunninn að og var að tala þar um 240 þúsund tonna álbræðslu á sama tíma og fyrir Alþingi liggur rammi varðandi hámarksstærð þeirrar bræðslu samkvæmt svari frá hæstv. iðnrh. um að þar sé samningsaðili að óska eftir því að hafa svigrúm til þess að stækka slíka bræðslu í þremur áföngum upp í 720 þús. tonn. Með þeim áformum, virðulegur forseti, þyrfti orku sem svarar til alls vatnsaflsins sem rennur frá norðanverðum Vatnajökli í jökulánum þar og nægði ekki til. Menn eru að tala um orku til ráðstöfunar sem nemur 10--11 teravatttímum á sama tíma og við framleiðum nú í dag röska 5 teravatttíma á síðasta ári og erum að gera ráð fyrir því að sú tala geti hækkað í 9 teravatttíma eða svo í kringum aldamótin. Menn eru að tala um viðbót í orkuframleiðslu, ofan í þetta eina fyrirtæki ef það yrði að veruleika, sem svarar til meira en fer í orku sem í heild yrði framleitt á Íslandi upp úr árinu 2000 og meira en helmingi meira en framleitt var á Íslandi samtals á síðasta ári. Losun á gróðurhúsalofttegundum frá þessu eina fyrirtæki er sem nemur um 1,5 millj. tonna. Þetta eru áætlanirnar sem hæstv. iðnrh. hefur í huga þegar hann er að tala í samhengi Kyoto-samninganna. Það er ekki lokað leiðum á þessi áform sem hann hefur uppi. Burt séð frá því, virðulegur forseti, hvort við værum að ræða hér um alþjóðasamning varðandi gróðurhúsalofttegundir, þá væri hér óskynsamleg stefna á ferðinni til framtíðar litið. Ég tengi það því út af fyrir sig eitt ekki saman við þessa umræðu hér þó að það sé hins vegar nátengt vegna losunar slíkra fyrirtækja.

Ég sé ástæðu til þess, með leyfi virðulegs forseta, að lesa hér upp á Alþingi ályktun sem send var út í þessum mánuði frá Náttúruverndarráði sem er stofnun sem starfar að því að veita hæstv. umhvrh. og stjórnvöldum ráðgjöf, vegna þess að hún varðar þau efni sem við erum að ræða hér, bæði beint og óbeint:

,,Fyrr á þessu ári voru kynntar tillögur um svæðisskipulag á miðhálendi Íslands sem íslensk stjórnvöld hafa látið vinna. Þar birtast áætlanir um framtíðarnýtingu þessa stórbrotna landsvæðis til ársins 2015. Miðhálendi Íslands hefur að geyma ýmsar merkustu náttúruperlur landsins og þar eru því miklir hagsmunir allra landsmanna í húfi. Samvinnunefnd um svæðisskipulag hálendisins og skipulagsstjóri ríkisins hafa auglýst tillögurnar og boðið þjóðinni að tjá sig um þær og skila athugasemdum við þær nú í haust.

Á sama tíma vinna íslensk stjórnvöld að því að bjóða fjölmörgum erlendum stóriðjuhöldum íslensk fallvötn, orkulindir og land undir virkjanir og orkufrekan iðnað. Meðal þeirra eru fallvötn sem alls ekki er gert ráð fyrir að virkja í tillögum að svæðisskipulagi. Enda myndu sumar þeirra virkjana stórspilla eða eyðileggja um alla framtíð einstæðar náttúruperlur, sem aldrei verður sátt um að fórna fyrir skammtímahagsmuni.

Þrátt fyrir gjörbreytt viðhorf til umhverfismála og alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga virðist skýrsla iðnaðarráðuneytisins: ,,Innlendar orkulindir til vinnslu raforku`` frá árinu 1994 enn í fullu gildi, en þar er gerð grein fyrir ,,öllum helstu möguleikum sem fyrir hendi eru til að nýta vatnsaflið og háhitasvæði landsins til raforkuvinnslu.`` Þótt þar sé viðurkennt að ekki hafi verið tekið tillit til náttúruverndarsjónarmiða er gefið í skyn að jafnvel innan þjóðgarða og friðlýstra svæða megi virkja.

,,Skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju`` 1997 svo og upplýsingar frá Markaðsskrifstofu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis sýna gífurlegar framkvæmdir sem eru á undirbúnings- eða umræðustigi á sviði orkufreks iðnaðar á Íslandi á næstu árum. Stefnan sem þar kemur fram er í mótsögn við undirritaða alþjóðasamninga.

Í nýútgefinni skýrslu umhverfisráðherra: ,,Ísland og loftslagsbreytingar af mannavöldum`` er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi muni aukast um 40% til ársins 2025 ef einungis er miðað við þegar samþykkta stóriðju. Skuldbindingar Íslendinga hljóða hins vegar upp á að árið 2000 verði losun okkar á gróðurhúsalofttegundum, einkum koltvísýringi, út í andrúmsloftið ekki meiri en hún var árið 1990. Tilgangur laga um náttúruvernd frá 1996 er enn fremur sá að vernda heilsusamlegt umhverfi og annan náttúruauð: ,,... að ekki spillist að óþörfu líf eða land, né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.``

Á meðan ,,Svæðisskipulag 2015`` á miðhálendi Íslands er óafgreitt telur Náttúruverndarráð óeðlilegt að staðið sé í samningaviðræðum við erlenda stóriðjuaðila um orkufrekan iðnað og virkjanir á miðhálendinu. Skilaboð stjórnvalda samræmast hvorki eðlilegum vinnubrögðum né fyrrnefndum alþjóðlegum skuldbindingum. Þá samræmast þau enn síður þeirri framtíðarvon og markmiði að spilla ekki náttúrugæðum og veikja með því hina hreinu ímynd Íslands sem er svo þýðingarmikil fyrir ferðaþjónustu og þá ekki síður fyrir matvælaframleiðslu.

Ráðið bendir á að þótt enn sé töluvert til af óbeislaðri vatnsorku í landinu, sem samkomulag gæti náðst um að nýta á arðbæran hátt á ókomnum árum, þá er hún ekki óendanleg. Þjóðin mun vonandi nýta sér þessa auðlind smám saman á skynsamlegan hátt með það í huga að auðlindin endist okkur og niðjum okkar um ókomna framtíð og án þess að skaða náttúruauð Íslendinga.

Náttúruverndarráð hvetur stjórnvöld og landsmenn alla til að standa vörð um landið sitt, náttúru þess og framtíð, og að vinna í samræmi við sáttmála og samþykktir um sjálfbæra þróun og varðveislu andrúmsloftsins; skapa nýja, háleitari og arðbærari framtíðarsýn en stóriðju byggða á mengun andrúmslofts og eyðileggingu á náttúruminjum og náttúruperlum Íslands.

Fyrir hönd Náttúruverndarráðs. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, formaður.``

Ég sá ástæðu til þess, virðulegur forseti, að nýta tíma minn hér til þess að koma þessari ályktun á framfæri við þingheim. Mér finnst að hún hafi farið óþarflega lágt á undanförnum dögum síðan hún var samþykkt og mér finnst að hún sé verðmætt innlegg inn í þá umræðu sem hér fer fram.