Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:40:40 (1322)

1997-11-17 19:40:40# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra nefndi þá samþykkt sem gerð hefði verið árið 1995 í þessu efni. Ég hef litið svo til að eins og haldið hefur verið á þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og einstakra ráðuneyta hafi í rauninni verið samfella í þessu máli nánast frá fundi til fundar með fulltrúum frá þeim ráðuneytum sem þetta snertir kannski hvað mest, þannig að það þurfi ekki á næstu dögum að fara að ganga frá einhverju nýju samningsumboði fyrir samningamenn Íslands í Kyoto. Það finnst mér dálítið sérkennilegt. Auðvitað er mjög eðlilegt að staðan sé metin að loknum fundinum í Bonn en ég ætla að vona að menn fari ekki að snúa við í miðri á, nema þá séu einhverjar alveg sérstakar aðstæður sem bjóði að svo sé gert og erfitt að meta það fyrir fram. Og ég vara mjög við því, í ljósi þeirra áherslna sem hér hafa komið fram frá einstökum ráðherrum öðrum en hæstv. umhvrh., að farið verði að búa þar til einhver ný skilyrði, leita að einhverju nýju vaði, sem eins og hæstv. iðnrh. orðaði það og einnig hæstv. utanrrh., að öllum líkindum væri það ekki erindið fyrir Íslendinga í Kyoto að undirrita þar samning ef ekki yrði fallist á kröfur okkar varðandi endurnýjanlegar orkulindir.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi um þátt annarra þá er það hárrétt og ég vil koma þeirri áherslu að hér að mér finnst að það hafi gengið allt of seint og allt of hægt að fá ráðuneyti eins og ráðuneyti samgöngumála og sjávarútvegsmála til þess að taka alvarlega á þessum málum (Forseti hringir.) og líta á nauðsynina að gæta hagsmuna sinna í þessari samfellu. Langháværasta raustin þarna hefur verið frá iðnrn.