Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:49:54 (1326)

1997-11-17 19:49:54# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:49]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir þessar skýrslur og þau svör sem hann gaf í sínu máli. Mér þótti vænt um að heyra að mér fannst örla á bjartsýni í máli hans áðan um að einhver niðurstaða verði af þessum fundi í Kyoto.

Mig langar til að nefna örfá atriði. Það hefur haft nokkurt vægi í umræðunni það skilyrði eða það áhersluatriði hjá íslenskum stjórnvöldum að taka mengandi stóriðju út fyrir sviga á þeirri forsendu að við nýtum endurnýjanlegar orkulindir. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann meti líkurnar á því að fallist verði á þetta áhersluatriði.

Í öðru lagi hefur æ ofan í æ komið fram að menn líta til þess möguleika að hægt sé að koma á einhvers konar kvótaskiptum, skipta á mengunarkvótum. Ég spyr hæstv. ráðherra, ekki síst með tilliti til þess sem hann sagði þegar hann kom í ræðustólinn áðan, hvaða ríki hæstv. ráðherra álíti að væru hugsanlega tilbúin til að versla með losunarkvóta. Varla finnum við slíkt ríki í Evrópu með hliðsjón af því hvernig staðan er þar.

Í þriðja lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort menn ræði það ekkert í öllum þessum viðræðum að mannkynið þurfi að breyta lífsháttum og að það sé eitt af þeim atriðum sem menn verði að taka með í reikninginn.