Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:04:30 (1329)

1997-11-18 14:04:30# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í brtt. hv. efh.- og viðskn. á síðasta vori segir svo, með leyfi forseta:

,,Um aðild að lífeyrissjóði fer eftir því sem kveðið er á um í sérlögum eða kjarasamningum stéttarfélaga og atvinnurekenda en ella ráðningarsamningum.``

Í fyrirliggjandi frv. segir um þetta atriði:

,,Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer að öðru leyti eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.``

Nú er spurning mín til hæstv. fjmrh. eftirfarandi: Hvað þýðir þetta síðasta? Dæmi: Kona starfar sem þýðandi á lögmannsskrifstofu hér í bæ. Það er ágreiningur um hvort hún eigi að borga í Lífeyrissjóð verslunarmanna. Vinnuveitendasambandið og Verslunarmannafélagið ákveða einhliða að semja um þetta ákveðna starfssvið. Geta þeir þá ákveðið að þessi manneskja borgi í Lífeyrissjóð verslunarmanna? Því hér stendur að taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs þá megi manneskjan velja. En ef kjarasamningar einhverra aðila úti í þjóðfélaginu taka til viðkomandi starfssviðs þá skal hann greiða í viðkomandi lífeyrissjóð. Geta sem sagt einhverjir aðilar úti í bæ ákveðið hvort þessi viðkomandi manneskja borgi í ákveðinn lífeyrissjóð?